Vinsæl Bókakonfekt

Áhugasamir bókaunnendur

 

Fimmtudaginn 30. nóvember og föstudaginn 1. desember sl. fóru fram Bókakonfekt í Bókasafni Reykjanesbæjar. Bókakonfekt hefur verið fastur liður í aðdraganda jólanna hér í Bókasafninu  í fjölda ára en þá eru rithöfundar eru fengnir í heimsókn að lesa úr nýútkomnum bókum sínum. Í ár var einnig Bókakonfekt barnanna daginn eftir. Hátt í 300 gestir komu í safnið á þessa viðburði og ljóst er að áhugasamir bókaunnendur eru margir.

 
bokakonfekt17

 Það var þétt setið á Bókakonfekti 30. nóvember.

 

Rithöfundarnir Hallgrímur Helgason, Jón Kalman Stefánsson og Jón Gnarr komu á fimmtudagskvöldinu og lásu úr sínum bókum. Áður en lestur hófst söng Barnakór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar tvö hugljúf lög. Boðið var upp á kaffi og konfekt fyrir gesti.

Hallgrímur Helgason las úr bókinni Fiskur af himni sem er ljóðabók þar sem hann fjallar m.a. um erfiða lífsreynslu innan fjölskyldu hans fyrir nokkrum árum. Óhætt er að segja að lesturinn hafi verið tilfinningaþrunginn og víða mátti sjá tár á hvarmi í salnum. 

Jón Kalman las úr bókinni Saga Ástu en bókin er fjölskyldusaga sem fléttar saman bréfum Ástu, hugrenningum föður hennar og frásögn sögumanns. Sagan er áhrifarík og ætti ekki að valda aðdáendum Jóns Kalmans vonbrigðum, ekki frekar en fyrri bækur höfundar.

Jón Gnarr las úr bókinni Þúsund kossar xxxxx Jóga sem er ævisaga konu hans, Jógu Gnarr. Í bókinni er sagt frá ævi Jógu en einlæglega er sagt frá skelfilegri lífsreynslu sem hún lendir í sem ,,au pair" í Bandaríkjunum. 

Að upplestri loknum svöruðu höfundar spurningum úr sal og áhugaverðar umræður sköpuðust.

Hér má sjá þá Jón Gnarr og Jón Kalman svara spurningum.

bokakonfekt17

 

 

bokakonfekt17

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frændsystkynin Hallgrímur Helgason og Dagný Gísladóttir

 

Á Bókakonfekti barnanna kom Barnakór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar einnig og söng tvö lög í upphafi dagskrár.

Þá las Kristín Ragna Gunnarsdóttir úr bókinni Úlfur og Edda: Drekaaugun sem er sjálfstætt framhald sögunnar Úlfur og Edda: Dýrgripurinn. 

 

bokakonfekt17

Kristín Ragna les fyrir börnin.

Gunnar Helgason tók við og las úr bókinni Amma best en bækurnar sem á undan komu heita Mamma klikk og Pabbi prófessor. bokakonfekt17

 

Að upplestri loknum bauð Angela í Ráðhúskaffi  upp á heitt súkkulaði með rjóma og piparkökur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gunnar Helgason var hress að vanda.