Áfram heldur „Heima er þar sem hjartað slær“

Þriðja vinnustofan af „Heima er þar sem hjartað slær“ var haldin í Bókasafni Hafnarfjarðar í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Verkefnið hóf göngu sína í Bókasafni Reykjanesbæjar 2019 en fyrsta sýningin var opnuð á Ljósanótt í september 2019. Sýningin vakti mikla athygli- og verkefnið vart upp á sig og hélt næst til Pheonixville í Bandaríkjunum.

Nú voru það tólf konur sem lýsa sinni upplifun á hugmyndinni um heimili, þvert á þjóðerni, líkt og með fyrri vinnustofur. Allar eiga  konurnar sem taka þátt sameiginlegt að hafa verið á faraldsfæti og haldið heimili í fleiri en einu landi og snýr sýningin að hugmyndinni um tíma, rúm og hvað það er að vera heima. Undir handleiðslu listakvennanna Önnu Maríu Cornette og Gillian Pokalo hefur hópurinn unnið klukkur með blöndu af silkiprenti og annarri tækni. Verkin ásamt hugleiðingum um myndval eru til sýnis í glugga bókasafns Hafnarfjarðar. Ásamt þessum verkum eru einnig jafn margar klukkur sem gerðar voru í Bandaríkjunum og Reykjanesbæ.

Sýningin stendur til 3. september n.k. og eru allir hjartanlega velkomnir.