Aðsent: Óður til bókasafnsins

Starfsfólki Bókasafns Reykjanesbæjar barst undur fallegt bréf frá bókasafns-aðdáanda í Svíþjóð. Við bara urðum að deila því með ykkur!

Óður til bókasafnsins

 

Ég sit við stóra gluggann við innganginn, ekki besti staðurinn þar sem frostköldu desemberloftinu blæs reglulega inn þegar hurðin opnast þannig að fingurnir eru orðnir stirðir og kaldir. En ég tími ekki að færa mig. Hérna sé ég alla sem koma og fara og get hlustað á áhugaverðar samræður hjá fólkinu sem sest við borðin fyrir aftan mig án þess að það sjáist þegar varirnar læðast í bros. Eins og núna, þegar hverfisróninn deildi óumbeðinn úr viskubrunni sínum og sagði (eða hálf öskraði meira, rámur og hress) einni konunni sem kvartaði yfir slappleika og aumum fæti að hún ætti kannski að íhuga að hætta þessu vínsulli.

 

Bý við þau forréttindi að eiga fjóra foreldra sem geta lesið og skrifað

Þegar ég var lítil fannst mér bókasöfn ekki sérstaklega merkileg. Notaleg, vissulega, en ekki áhugaverð eða merkileg. Þau bara voru. Ég fór frekar reglulega á bókasöfn. Bý við þau forréttindi að eiga fjóra foreldra sem geta lesið og skrifað. Og svo tekur mamma mín að meðaltali 6 bækur á bókasafninu á tveggja vikna fresti. Þannig að jú, vissulega slysaðist ég inn á bókasöfn öðru hvoru. Ég elskaði barna hornið á bókasafni Kópavogs og fannst synd og skömm þegar ég var komin í samfélagslega vandræðalega stærð til að leika í tjöldum og púðum þar. Þegar ég þurfti að bíða lengi eftir strætó eða var búin í píanó tíma og beið eftir að mamma kæmi að sækja mig sem unglingur var líka stundum gaman að fara og skoða tímarit á bókasafninu. Bókasafnið í Hveragerði var líka skemmtilegt. Mér fannst í rauninni alltaf frekar gaman að koma á ný bókasöfn, því að hugmyndin og fyrirbærið bókasafn var það sama og því heimilislegt og kunnuglegt þó að staðsetningin og uppbyggingin væri önnur.

 

Menningarfyrirbærið bókasafn

Eftir að ég flutti til Svíþjóðar fékk ég allt annan skilning á bókasöfnum. Fyrstu vikurnar og mánuðina vorum við ekki með net í íbúðinni okkar og þekktum borgina illa og þá urðu bókasöfn hálfgerð miðja í tilverunni. Við fórum á bókasafnið í Blackeberg (hverfinu okkar) til að komast í net og geta skype-að heim. Leigðum þar DVD myndir, því við vorum ekki komin með stöðvar eða netflix. Og ég fór að leigja Astrid Lindgren bækur til að æfa sænskuna. Nú erum við löngu komin með net. Ég er búin að kaupa ógrynnin öll af Astrid Lindgren bókum og þekki borgina orðið ansi vel. En samt eyði ég ansi stórum hluta af vikunni minni á bókasöfnum víðsvegar um Stokkhólm. Jú, það er hentugur staður fyrir sjálfstætt starfandi rannsakanda að vinna á ef ég vil ekki sitja ein heima allan daginn. En ég er líka alltaf að átta mig betur og betur á hvað mér þykir vænt um menningarfyrirbærið bókasöfn.

Stundum legg ég mig fram við að ná að vinna á bókasafninu í Stokkhólms háskóla fram að lokun því þá byrjar svo skemmtileg klassísk tónlist til að láta vita að nú sé bókasafnið lokað og við eigum vinsamlegast að svífa áfram út í kvöldið.

Í síðustu viku vann ég á bókasafninu í Sundbyberg í sirka 6 klukkutíma (þangað til að ég var orðin of svöng til að halda áfram). Þegar ég kom valdi ég mér sæti þar sem ég gat heyrt út undan mér hlýlega rödd sem las af innlifun. Í barna horninu við hliðina á mér sátu amma og barnabarn í notalegheitum og voru þar enn þegar ég fór. Amman las bók eftir bók og barnabarnið hlustaði áhugasamt og svo áttu þau uppbyggilegar samræður um sögupersónurnar og atburðarrásina inn á milli. Það var fallegt.

 

Af því að þau koma inn á sama bókasafnið, þau eiga jafn mikið í því og inni á bókasafninu hafa þau sama rétt. 

Bókasafnið í Blackeberg er lítið, þar er ekki eins góð vinnuaðstaða og í Vällingby eða Sundbyberg, það er ekki eins mikið úrval af bókum og í rauninni er það alls ekki praktískt til að vinna á en það er samt eitt af uppáhalds bókasöfnunum mínum í Stokkhólmi. Aðalega af því að þangað kemur svo dásamlega fjölbreytt flóra af fólki. Á bókasöfn mega nefnilega allir koma. Heimilislausir, rómafólk, innflytjendur, gamalt fólk, ungt fólk, ríkt fólk, fátækt fólk, barnafólk, einmanna fólk, fyndið fólk, leiðinlegt fólk og allt þar á milli. Stundum kemur fólk bara inn til að fá að fara á klósettið. Stundum til að kaupa kaffi eða te úr vélinni og lesa blöðin. Stundum til að komast á netið. Stundum til að fá að tala sænsku. Stundum til að ræða veðrið, eða ástarmálin, eða barnauppeldi eða erfiðar heimilisaðstæður. Stundum til að njóta samveru. Stundum til að njóta einveru. Stundum til að nöldra. Stundum til að föndra. Stundum til að hlusta á upplestur. Stundum til að læra eitthvað nýtt. Stundum til að læra eitthvað gamalt. Stundum til að fá upplýsingar um ýmislegt sem lífið og borgin hefur upp á að bjóða. Og ég finn þegar ég sit á bókasafninu og pirra mig á fólkinu sem smjattar eða hugsa með mér að ef að maðurinn fyrir aftan mig sígur einu sinni enn upp í nefið þá nái ég í pappír og snýti honum, að ég elska þau öll alveg ótrúlega mikið. Ég elska heimilislausa rónann sem kemur inn til að fara á klósettið og rífast jafn mikið og ég elska þreyttu mömmuna með krúttlegu tvíburana, sem gerir ekkert annað en að keppast við að halda skríðandi ungabörnunum inni á mjúku teppinu. Af því að þau koma inn á sama bókasafnið, þau eiga jafn mikið í því og inni á bókasafninu hafa þau sama rétt. Það finnst mér fallegt.

Bókasöfn eru nefnilega einhverskonar menningarmiðstöð. Samfélags suðupottur og hjarta hverfisins. Mér finnst bókasöfn enn þá notaleg, en líka mikilvæg og stórmerkileg.

 

Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir

Kynjafræðingur og sjálfstætt starfandi rannsakandi