Stekkjarkot

Ákveðið var að endurreisa Stekkjarkot á hátíðarfundi sem haldinn var í tilefni 50 ára afmælis Njarðvíkurkaupsstaðar árið 1992. 
Ári seinna var kotið opnað með hátíðlegri athöfn að viðstöddum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

Stekkjarkot var þurrabúð og gefur hugmynd um bústaði sem algengir voru á þessum slóðum í eldri tíð. Þurrabúð merkti að íbúarnir máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.
Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.

Það kot sem nú hefur verið endurreist er nokkuð dæmigert um sambærileg kot. Það á sér slitrótta sögu fyrst er það byggt upp úr miðri 19. öld (1855-1857) búsetan þar lagðist síðan af 30 árum síðar (1887). Kotið var byggt upp aftur árið 1917 en rétt tæpum 7 árum síðar var kotið komið í eyði. Reyndar hafði það náð því að verða grasbýli um 1921 sem hefur gefið kotverjum rétt á að hafa einhverjar skepnur.

Kotið sem við sjáum núna er byggt með stuðningi endurminninga eins af síðustu íbúunum. Eldri hlutinn á rætur aftur til 19. aldar þar er hlóðaeldurinn. Sagt er að þar hafi vinnukona búið og haft með sér barnunga dóttur sem sváfu þar í fleti. Yngri hlutinn er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð, komin kolaeldavél og ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólk.
Þetta er að sönnu ekki löng saga en gefur innsýn í þennan síðasta hluta merkilegrar sögu kotbyggða við ströndina.

Kotið er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar, það er opið  eftir samkomulagi.