Saga safnsins

Þann 17. nóvember 1979 opnaði Byggðasafn Suðurnesja með formlegum hætti að Vatnsnesi. Vatnsnesið var annað af tveim húseignum sem Byggðasafnið fékk í morgungjöf, hitt er húsið Innri-Njarðvík. Það var Bjarnfríður Sigurðardóttir sem ánafnaði Vatnsnesið til eflingar safnamálum og kom það berlega í ljós hve miklu þessi höfðinglega gjöf skipti er safnið gat hafið rekstur aðeins ári eftir samþykki bæjarstjórna Keflavíkur og Njarðvíkur. Erfingjar Eggerts Jónssonar gáfu Njarðvíkurhúsið.

 En saga safnsins er lengri. Þann 17. júní árið 1944 var Byggðasafn Keflavíkur stofnað af Ungmennafélagi Keflavíkur. Annan maí 1967 var skipuð nefnd um byggðasafn í Njarðvík. Fyrir áeggjan þjóðminjavarðar leituðu Njarðvíkingar eftir samstöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum um rekstur byggðasafns. Áhugi var einhver en þó náðist aðeins samstaða með Keflvíkingum. Í október 1978 skrifuðu síðan bæjarstjórnir beggja undir samþykkt um rekstur byggðasafns. Árið 2002 var ákveðið að breyta nafni safnsins í Byggðasafn Reykjanesbæjar, enda skilgreinir það nafn betur starfssvæði safnsins. 

Uppskeran eftir 25 ára starf er töluvert góður safnkostur muna og mynda. Grunnsýningar hafa verið settar upp í Vatnsnesi,  í Innri-Njarðvík,  Stekkjarkoti og í Bryggjuhúsi Duus Safnahúsa. Fjöldi sérsýninga hafa einnig verið settar upp utan safnhúsanna sem innan.

Safnið hefur staðið fyrir fornleifarannsókn í Vogi í Höfnum í samvinnu við Fornleifafræðistofuna og  komið að fornleifaskráningu í bæjarlandinu.

Fyrsti safnvörðurinn var Skafti Friðfinnsson,  síðar tók Guðleifur Sigurjónsson við sem forstöðumaður safnsins . Sigrún Ásta Jónsdóttir  tók við af Guðleifi og   Eiríkur P. Jörundsson tók við af Sigrúnu. Safnstjóri frá janúar 2022 er Eva Kristín Dal.

Margir einstaklingar lögðu á sig ómælt erfiði til að berjast fyrir þessum málstað sem átti kannski ekki alltaf upp á pallborðið. Í Keflavík var það Helgi S. Jónsson sem leiddi starfið fyrir hönd UMFK með honum voru Skafti Friðfinnsson og Kristinn Pétursson. Frá Keflavíkurbæ komu þeir Ólafur A. Þorsteinsson og Guðleifur Sigurjónsson. Hilmar Jónsson bókavörður bættist fljótlega í hópinn. Í Njarðvík voru það Guðmundur A. Finnbogason, Áki Granz og Friðrik Ársæll Magnússon og síðar kom Oddbergur Eiríksson.