Gjafir til safnsins

Hlutverk safnsins er að varðveita sögulega gripi, sem eru frumheimilidir um sögu svæðisins, rannsaka þá og miðla til almennings.

 Fyrst og fremst er tekið við munum, myndum, skjölum og upplýsingum sem varða eða varpa ljósi á sögu og menningu þess landsvæðis sem Reykjanesbær nær yfir. Áherslur í söfnun er að finna í söfnunarstefnu safnsins.

 Hvað er það sem við erum að leita eftir?

Miklu skiptir að það sem við tökum við tengist sögu svæðisins, hafi tilheyrt einhverjum sem bjó hér, eða hafi tengst atvinnustarfsemi, félagastarfi, tómstundum, atburðum, persónum svo eitthvað sé talið. Við leitum að einhverju sem einkennir svæðið, ákveðin fatnaður, gripir, matarhefðir, osfrv eitthvað sem fólk tengir í minningum sínum við svæðið. Þannig höfum við mest áhuga á því sem var notað fremur en nýjum hlutum. Það sem var algengt fremur en mjög óvenjulegt. Við höfum mestan áhuga á munum, myndum og upplýsingum sem varða lífssögu fólks fremur en að eiga mikið af samsvarandi hlutum. Gildi safngripa er ekki síst fólgið í þvi hvernig þeir varpa ljósi á og gefa okkur innsýn í söguna.

Við hverju er ekki tekið?

Þar sem safnið er svæðisbundið er ekki tekið á móti gripum sem ekki varða sögu þess landsvæðis sem Reykjanesbær nær yfir. Þótt munir falli að söfnunarstefnu safnsins þá er ekki víst að við þeim sé tekið. Það sem getur haft áhrif er: stærð og umfang ef ekki er pláss í safninu, kostnaður við varðveislu og/eða margir samskonar munir eru til í safninu.

Kaupir safnið gripi?

Nei, söfnun muna og mynda, felst fyrst og fremst í gjöfum frá almenningi.

Hvað á að gera varðandi mikið magn gripa eða þunga og fyrirferðarmikla? 

Hvað á að gera með mikið magn af gömlum munum, t.d. úr dánarbúi?  Best er að hringja í safnið, við munum þá koma á staðinn og velja úr mununum og sjá síðan um flutning þeirra til safnsins

Á að hreinsa gripi eða lagfæra áður en þeir eru gefnir til safnsins?

Það er ekki sérstök ástæða til að hreinsa hluti áður en þeir eru gefnir þó það sé að sjálfsögðu undir hverjum og einum komið. Við mælum þó sérstaklega gegn því að hlutir séu lagfærðir, t.d. málaðir áður en þeir eru gefnir.

Hvaða upplýsingar skipta máli að fylgi gripum inn í safnið?

Við þurfum að vita hvað hluturinn heitir, til hvers hann var notaður, hver notaði hann, frá hvaða tímabili hann er, hver bjó hann til ef það á við og hver átti hann. Mjög gott er að amk fæðingardagur og ár þeirra sem tengjast hlutinum fylgi.

Hvað ef engar upplýsingar eru til um gripinn?

Oft er síðar hægt að finna út ýmsar upplýsingar um gripinn.

Hvað gerist eftir að hluturinn er tekinn inn í safnið?

Eftir móttöku er gripurinn færður í safnskrá og honum fundinn staður í safninu. 

Hvað merkir að gripir séu færðir í safnskrá?

Með því að skrá grip í safnskrá fellur hann undir þær samþykktir, lög og reglugerðir sem söfn starfa eftir.

Er safnskráin opin?

Safnskráin er að öllu leyti í stafrænu formi, hægt er að fá upplýsingar úr skránni með því að hafa samband við starfsmenn safnsins. Stefnt er að því að safnskráin verði aðgengilega almenningi á vefnum.

Hvernig eru gripir tengdir við safnskrá?

Þegar gripurinn er skráður í safnskrá fær hann safnnúmer, sem er eins konar kennitala gripsins. Gripurinn er merktur með safnnúmeri sínu, með því að það er skrifað eða saumað á hann.