Myndasafn

Myndasafn Reykjanesbæjar er deild í Byggðasafni Reykjanesbæjar og fellur því undir samþykktir safnsins. Í stofnskrá safnsins kemur m.a. fram að safnið starfar í almannaþágu, það hagar vinnu sinni samkvæmt safnalögum, siðareglum ICOM og þeim lögum sem við eiga. Safnið eru svæðisbundið það sinnir sögu þess landssvæðis sem Reykjanesbær nær yfir og tengist. 

Þegar myndir eru skráðar í safnskrá safnsins þá falla þær undir ofangreind lög og reglur. 

Sú stefna hefur verið mótuð að safnið kaupir ekki gripi eða myndir en tekur við gjöfum.

Nú er verið að vinna að því að skanna inn myndasafnið og stefnt er að því að opna vefgátt að safninu. Þar sem almenningur getur skoðað myndasafnið að vild og lagt okkur lið við skráningu upplýsinga um myndirnar. Það eru þó takmörk fyrir hvað sett er á vefinn, t.d. er safninu ekki heimilt að setja inn myndir af prívatlífi fólks, s.s. myndir úr heimahúsum, myndir sem teknar eru á stofu eins og fjölskyldumyndir nema með leyfi viðkomandi. Hins vegar er heimildagildi slíkra mynda oft töluvert og því mikilvægt fyrir safnið að eiga slíkar myndir þótt aðgengi að þeim sé takmarkað. 

Með því að gefa myndir til safnsins verður safnið eigandi þeirra og ábyrgðaraðili. Safninu er heimilt að nota myndirnar í eigin þágu, hvort sem er til rannsókna eða miðlunar en ávallt þó þannig að friðhelgi einkalífs sé virt. Safnið getur innheimt þjónustugjöld við afgreiðslu mynda samkvæmt gjaldskrá sem bæjarstjórn ákveður.

Í myndasafninu eru nokkur söfn:

 • almennt safn mynda,
 • safn Heimis Stígssonar ljósmyndara
 • almennt hreyfimyndasafn
 • hreyfimyndasafn Viðars Oddgeirssonar.

 Ráðleggingar til almennings um varðveislu og skráningu ljósmynda

Ráðleggingar þessar eru hugsaðar sem aðstoð fyrir þá sem vilja hugsa vel um ljósmyndir sínar.
Líftími ljósmynda er takmarkaður og hann er í ákveðnu hlutfalli við gæði framköllunar og síðan meðhöndlun myndanna. Til að lengja líftímann og varðveita gæði myndanna sem best er gott að hafa nokkur atriði í huga, hvort sem verið er að geyma ljósmyndir, slights-myndir eða framkallaðar negatívur (filmur).
• Geymsla

 • í eins litlu ljósi og hægt er, hvort sem er dagsbirta eða rafmagnsljós
 • við sem jafnast hitastig, varast staði með miklum hitasveiflum
 • ekki geyma þar sem raki er mikill 

• Meðhöndlun

 • raða myndum vel þannig að þær brotni ekki
 • ekki nota hefti eða bréfaklemmur
 • ekki nota kennaratyggjó eða lím

• Skráning

 • Skrifa aftan á myndina við jaðar, nota blýant, en reyna að skrifa ekki mikið á myndir
 • Hægt er einnig að númera myndir og færa upplýsingar með númerunum inn í stílabók eða í tölvu.

• Skipulag skráningar sem gott er að hafa í huga, þar sem það á við:

 • Titill myndarinnar, eða myndaraðarinnar (tökunnar) feli í sér tilganginn með því að myndin var tekin, t.d. ferming Gunnars, útskrift Jónu, Jólaboð hjá ömmu, osfv
 • Mjög gott er að setja inn dagsetningu eða ártal
 • Nöfn á fólki sem þekkist á myndinni, jákvætt er að venja sig á að skrifa full nöfn
 • Hvar myndin er tekin, í hvaða húsi, bæjarfélagi
 • Lýsingu á hvað er að gerast.
 • Nafn ljósmyndarans