Sýningar
Þyrping verður að þorpi, opnuð í Bryggjuhúsi Duus Safnahúsum 29. maí 2014.
Á uppstigningardag 29. maí 2014 var opnuð ný grunnsýning í Bryggjuhúsi Duushúsa. Á sýningunni er stiklað á stóru um sögu svæðisins allt frá umfjöllun um níundu aldar skála í Höfnum fram undir miðja síðustu öld. Fjallað er um torfbyggingar, eldamensku, verslun og viðskipti, fiskveiðar og vinnslu, ferðalög og náttúruna. Ólík tímabil flæða saman sem og náttúra og menning.
Sýningar- og ritstjóri: Sigrún Ásta Jónsdóttir
Sýningarhönnuðir: Inga Þórey Jóhannsdóttir, Gunnar Ottósson
Grafísk hönnun: Inga Þórey Jóhannsdóttir
Smíðar: Sparri ehf
Safnasjóður og Menningarráð Suðurnesja styrktu sýninguna
Þeir settu svip á bæinn - Skátafélagið Heiðabúar 80 ára opnuð 9. júní 2017 í Gryfjunni í Duus Safnahúsum
Skátafélagið Heiðabúar fagnar 80 ára afmæli í september næstkomandi að því tilefni verður opnuð sýningin þeir settu svip á bæinn föstudag 9. júní kl.18 í Byggðasafni Reykjanesbæjar Duushúsum.
Á sýningunni verða ýmsir munir til sýnis, farið verður yfir sögu skátafélagsins og stiklað á stóru. Skátafélagið Heiðabúar var stofnað 15. september árið 1937 og aðalhvatamaður þess var Helgi S. Jónsson. Saga Heiðabúa er merkileg í skátasögunni vegna þess að í því félagi sameinast í fyrsta sinn í heiminum drengir og stúlkur í einu félagi. Heiðabúar hafa orðið þeirra gæfu aðnjótandi að þar hafa menn ekki gert aðeins stuttan stans heldur hafa þó nokkrir sinnt þörfum félagsins í mörg ár, sumir alla ævi. Sýningin stendur til 20. ágúst 2017
Sýningar- og ritstjóri : Sigrún Ásta Jónsdóttir
Sýningarhönnuðir: Gunnhildur Þórðardóttir
Grafísk hönnun: Svavar Ellertsson
Samstarfsverkefni með Skátafélaginu Heiðabúum
Verbúðalíf : menning og minning. Opnuð 30. mars 2017
Fjölmargir Íslendingar kynntust verbúðalífi og verbúðaflakki um og upp úr miðri síðustu öld. Peningalyktin barst úr sjávarplássunum og þangað streymdi unga fólkið, laust og liðugt, í von um skjótan gróða. Sumir sáu í fiskvinnslunni tækifæri til að afla á sumarvertíðinni nægilegs fjár til skólans næsta vetur, en aðrir þraukuðu lengur og unnu jafnt sumarvertíðir sem vetrarvertíðir og færðu sig jafnvel milli plássa, frá Eyjum á Eskifjörð og frá Grindavík á Suðureyri. Allt í senn í von um meiri vinnu, meiri pening og meira fjör.
Á sýningunni er verbúðalífi þessa tíma gerð skil með myndum og texta og með hálftíma langri kvikmynd og jafnlöngum útvarpsþætti sem verða endurtekin á hálftíma fresti á heila og hálfa tímanum. Benný Sif Ísleifsdóttir, Fríða Björk Ólafsdóttir og Vala Smáradóttir sáu um gerð sýningarinnar.
Heimilið. Opnuð föstudaginn 11. nóvember í Duus safnahúsum og stendur til 23. apríl 2017.
Hvert heimili á sína sögu, sitt fólk, atburði og tímaskeið, upphaf og endi. Engin tvö heimili er eins en þó eru þau öll byggð á sama grunni. Það má nota mörg orð og ólík til að lýsa heimilum og hvað þau eru fyrir hvert okkar en eitt sameinar þau öll, heimilið er alltaf mikilvægt.
Saga heimila er samofin því samfélagi sem umlykja þau. Þau endurspegla tíðarandann, tæknistigið og söguna. En það sem er kannski áhugaverðast er að heimilið segir persónulega sögu; sögur um áherslur, smekk, viðhorf, drauma, martraðir, gleði og sorgir. Heimilið er eins og efnisleg gátt inn í hugarheim okkar og verður þannig merkileg söguleg heimild.
Á þessari sýningu leggjum við áherslu á vinnuna á heimilinu. Við erum ca á tímabilinu 1930-1980 en lengst framan af á því tímabili var það enn nauðsyn að fólkið gæti gert sem mest sjálft. Matur var eldaður frá grunni, föt voru saumuð, stöguð, bætt, endursaumuð og híbýlaprýði voru heimagerð. Fátt var keypt út í búð, bæði var framboðið takmarkað en einnig var lítið um laust fé. Í dag er það val hjá flestum hvort þeir búi til eða kaupi tilbúið.
Við leggjum áherslu á þá gripi sem eru heimagerðir en mikilvægt er að varðveita þá sérstaklega þar sem ekkert kemur í staðinn fyrir hvern einstakan grip. Fjöldaframleiddir hlutir eru líka mikilvægir en auðveldara er að finna annan eins eða sambærilegan.
Sögur úr bænum. Stiklað á stóru og smáu í sögu bæjarins. Opnuð 4. júní 2016
Sýning Byggðasafnsins ber heitið Sögur úr bænum. Farið er yfir nokkra þræði úr sögu bæjarins allt frá landnámi og skoðað hvernig sögunni vindur fram. Staldrað er við nokkra þætti með hjálp safngripa Byggðasafnsins, t.d. eru skoðuð brot úr sögu leikskólans Tjarnarsels, sögu Guðna málara, Norðfjörðaættarinnar, Gagnfræðaskóla Keflavíkur og sveitarfélganna.
Herstöðin sem kom og fór, opnuð laugardaginn 6 febrúar 2016 í Gryfjunni Duus Safnahúsum
Sýningin fjallar um sögu Keflavíkurstöðvarinnar sem hófst á stríðsárunum með byggingu tveggja flugvalla, rúmlega hálfrar aldar sögu varnarliðsins og hvað gerðist eftir að herstöðin lokaði. En í ár eru 10 ár liðin síðan herstöðinni var lokað. Sýningin stendur til 24. apríl 2016.
Á vertíð - þyrping verður að þorpi í Gryfjunni í Duus Safnahúsum 2012-2014
Þann 2. júní síðastliðinn opnaði Byggðasafn Reykjanesbæjar sýninguna Á vertíð í sal safnsins í Duushúsum. Á sýningunni er sagan fyrir vélvæðingu skoðuð, áhersla er lögð á 19. öldina, þegar þyrpingar við sjávarsíðuna urðu að þorpum og grunnur er lagður að þeim samfélögum sem við þekkjum í dag.
Það er löng og áhugaverð saga sem þorpin byggðu á. Saga árstíðarbundinnar sjósóknar þegar fleiri hundruð manns kom til Suðurnesja ár hvert um aldir til að róa á vetrarvertíð. Það hlýtur að hafa verið kærkomin tilbreyting frá fámenninu til sveita að koma hingað og hitta fyrir fjölda manns víðs vegar að af landinu og eiga saman góðar og erfiðar stundir í rúma 3 mánuði. Á vorin komu svo kaupskip með erlendan varning og fólk í ýmsum erindagjörðum. Margir heimamenn fóru í heyskap til dæmis norður í land. Það sem einkennir sögu svæðisins er einmitt ferðalög og tengsl ólíkra hópa.
Sýningar- og ritstjóri : Sigrún Ásta Jónsdóttir
Sýningarhönnuður: Ólafía Ólafsdóttir, Studiola
Grafísk hönnun: Ólafía Ólafsdóttir og Svavar Ellertsson
Smíðar: Sparri ehf
Safnasjóður, Menningarráð Suðurnesja og Útvegsmannafélag Suðurnesja styrktu sýninguna.
Fornleifarannsóknir í Höfnum, opnuð 24. mars 2012 í Víkingaheimum
Fjöldi fólks ferðaðist um Norðurslóðir á víkingatíma í leit að skjótfengnum gróða. Á sumrin var gnægð matar, fuglar í björgum, selir og fiskur í sjó og vötnum, í fjörum mátti finna rekavið og hræ af hvölum. Sérstaklega hafa menn leitað að tönnum úr rostungum og hvölum sem voru afar verðmætar, enda oft kallaðar fílabein norðursins eða hvíta gullið. Þær voru notaðar til að smíða margvíslega dýrgripi.
Rannsóknin var styrkt af: Menningarráði Suðurnesja, Fornleifasjóði, Magma Energy, Þjóðhátíðarsjóði og Safnasjóði. Nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands, fengu verklega þjálfun við rannsóknirnar.
Tekið var á móti öllum 10 ára börnum Reykjanesbæjar í fræðsluheimsókn árin sem rannsóknirnar fóru fram.
Bíó í Keflavík, opnuð á Ljósanótt 2011
Í tengslum við töku kvikmyndar Clint Eastwood "Flags of our fathers, sem tekin var upp að hluta á Reykjanesi, var sett upp sýning um sögu bíóreksturs í Keflavík í Bókasafni Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri var Ólafía Ólafsdóttir.
Völlurinn, nágranni innan girðingar í Gryfjunni í Duus Safnahúsum 2009 - 2012.
Einn einkennishlutur sýningarinnar var girðingin sem notuð var til að afmarka Völlinn frá umhverfi sínu, en hún var ekki bara efnislegur gripur hún var líka tákn um tvo heima sem þannig voru aðgreindir.
Fjölmargir lögðu lið við undirbúning og uppsetningu sýningarinnar, þar voru fremst í flokki Helga Ingimundardóttir sem tók m.a. 30 viðtöl við fyrrverandi starfsmenn varnarliðsins og Tómas Knútsson sem þekkir flestum betur allar byggingar á svæðinu. Björn G. Björnsson var sýningahönnuður.
Vagg og velta, rokkárin á Íslandi. Sýning Poppminjasafns Íslands, opnuð 31. mars 2007 í Duushúsum
Rokkbylgjan sem skall á landinu af fullum þunga vorið 1957 fól í sér mikla ögrun við íslenskt samfélag. Þessi bylgja, sem í upphafi var ýmist kölluð vagg og velta, rugg og ról eð rokk og ról, markaði að mörgu leyti tímamót.
Sýningarhöfundur: Ólafur J. Engilbertsson
Stuð og friður , sýning Poppminjasafns Íslands opnuð 17. júní 2005
Sýningin fjallaði um tímabilið 1969-1979. Í upphafi tímabilsins er róttækni, barátta fyrir betri heim, blómabörnin, tilraunir í tónlist og eiturlyfjum. Upp úr 1973 breytast áherslur, létari tónlist, minni alvara, glysið, diskóið, vinsældirnar í bland við uppreisn pönkara og manna eins og Megasar. Inn í litrófið blandast tónlist Stuðmanna og fleiri.
Á milli tveggja heima, afmælissýning safnsins í Gryfjunni í Duus Safnahúsum 2004-2005
Á 10 ára afmæli Reykjanesbæjar var opnuð sýningin "Milli tveggja heima. Á fortíðin erindi við nútímann?". Við fögnum því að 25 ár eru liðin frá því að safnið var fyrst opnað almenningi 17. nóvember 1979. Á sýningunni getur að líta afrakstur starfsins og hugleitt er hvert skuli halda næstu 25 árin.