Fyrri sýningar
Fast þeir sóttu sjóinn - Bátasafn Gríms Karlssonar. Ný grunnsýning safnsins var opnuð 20. febrúar 2021 og verður opin til 1. febrúar 2023.
Byggðasafnið hefur opnað endurgerða sýningu á bátalíkönum Gríms Karlssonar í Bryggjuhúsinu. Bátafloti Gríms Karlssonar var fyrsta sýningin sem opnuð var í Duus Safnahúsum fyrir nærri 19 árum og hefur nú fengið endurnýjun lífdaga í rými sem skapar áhugaverða umgjörð um bátalíkönin. Á nýju sýningunni gefur að líta nánast öll módel Gríms í eigu Byggðsafnsins, sem eru alls 136 bátalíkön.
Jafnframt eru líkönin nýtt til að segja sögu vélbátaútgerðar í Keflavík og Njarðvík. Þar er einnig fjallað um hafnargerð, skipasmíðar, veiðar og annað er tengist útgerðinni. Þá mun sýningargestum gefast kostur á því að taka í stýrið innan í endurgerðu stýrishúsi og skut í raunstærð á minni gerð vélbáta.
Titill sýningarinnar er fenginn úr þekktu dægurlagi, þar sem segir „Fast þeir sóttu sjóinn, Suðurnesjamenn“, og er sýningunni ætlað að gefa gestum innsýn í þennan mikilvæga þátt í atvinnulífi Suðurnesjamanna þar sem allt snerist í aldir og áratugi um fiskveiðar. Eins og reyndar víðast hvar hér á landi þar sem uppgangur vélbátaútgerðar var hin mikla iðnbylting og undirstaða flestra þorpa og bæja á Íslandi.
Sýningarstjóri: Eiríkur P. Jörundsson.
2022
Hugarflugsins fley. Sýning á BAUN, listahátið barna og unglmenn 29. apríl - 29. maí 2022.
Byggðasafn Reykjanesbæjar heimsókn frá 1. og 2. bekk Myllubakkaskóla. Nemendurnir skoðuðu sýninguna Fast þeir sóttu sjóinn og fengu innblástur af bátalíkönum Gríms Karlssonar. Í kjölfarið fengu nemendurnir tækifæri til að smíða sína eigin báta og skreyta.
Bátarnir verða til sýnis á BAUNinni í Bryggjuhúsinu. Það má með sanni segja að hugmyndaflug nemenda hafi fengi að ráða ferðinni og útkoman er stórskemmtileg. Verið öll velkomin á sýninguna!
2021
Víkurfréttir 40 ára í Duus Safnahúsum var opnuð 2. september 2021
Víkurfréttir efna til ljósmyndasýningar í Bíósal Duus Safnahúsa þar sem fólkið á Suðurnesjum er í sviðsljósinu. Sýningin opnar fimmtudaginn 2. september en á henni eru tæpleg 80 prentaðar ljósmyndir auk þess sem nærri 300 myndir verða sýndar á skjám. Þá eru sýndar nokkrar forsíður Víkurfrétta frá þessum áratug, 1983 til 1993. Sýningin er í samstarfi við Byggðasafn Reykjanesbæjar en á safninu hefur á undanförum mánuðum verið skannur inn fjöldi mynda frá fyrstu árum Víkurfrétta. Sýningarstjóri er Oddgeir Karlsson, ljósmyndari.
Víkurfréttir komu fyrst út 14. ágúst 1980 og voru fyrsta „fríblað“ landsins en fyrr á því ári lögðu forveri þess, Suðurnesjatíðindi, upp laupana en það var selt í lausasölu og áskrift.
„Við höfum verið með sýningu í bígerð síðustu tvö árin en heimsfaraldur hefur truflað þá vinnu. Það var samt ákveðið að efna núna til örsýningar á ljósmyndum úr safni Víkurfrétta frá árunum 1983 til 1993, fyrsta ártug núverandi eigenda blaðsins. Þetta er auðvitað bara lítið brot af ljósmyndum Víkurfrétta í fjörutíu ár og á þessum myndum sýnum við eingöngu fólkið sem við mynduðum á hinum ýmsu stöðum og viðburðum. Við ákváðum að byrja þannig. Það er mikið til af myndum af fréttaviðburðum og við eigum það inni fyrir næstu sýningu sem við stefnum að því að verði mun stærri. Þar stefnum við líka að því að gera Suðurnesjamagasíni og sjónvarpsvinnu okkar skil. Það er ansi margt sem við getum sýnt eftir fjóra áratugi í fjölmiðlun á Suðurnesjum,“ segir Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.
Kaupfélag Suðurnesja 75 ára, sýning í Duus Safnahúsum og á Duus túni 2021
Kaupfélags Suðurnesja hefur verið samofin sögu byggðar á Suðurnesjum allt frá stofnun þess og til dagsins í dag.
Og í raun má segja að áhrifanna hafi gætt í allnokkur ár áður en Kaupfélagið var stofnað því að fyrirrennari þess, Pöntunarfélag VSFK og síðar KRON, höfðu veruleg áhrif til lækkunar vöruverðs og aukið vöruúrval á Suðurnesjum.
Þegar Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis var stofnað var pöntunarfélag V.S.F.K. eitt af stofnfélögum, fljótlega var ákveðið að opna sölubúð í Keflavík. Um það bil 4 af hverjum 5 mönnum í Keflavík urðu félagsmenn í KRON. Kaupfélag Suðurnesja er síðan stofnað 13. ágúst 1945 þegar Keflavíkurdeild KRON sagði skilið við félagið.
Kaupfélagið kom víð a við. Matvöruverslun, mjólkurbúð, bakarí, fiskverkun, fiskvinnsla, innlánastarfsemi, vefnaðarvöruverslun, fataverslun og byggingavöruverslun sem einnig þjónustaði útgerðina er meðal þess sek Kaupfélagið hefur komið að. Sumt hefur horfið úr starfssviði félagsins en annað komið í staðinn. Kaupfélagið hefur líklega aldrei verið sterkara en í dag. Það samvinnufélag með dreifða eignaraðild. Hluti ágóða félagsins rennur til baka sem stuðningur við m.a. æskulýðs- og íþróttastarf. Í dag eru félagsmenn orðnir ríflega 7.500.
Sögu Kaupfélagsins er gerð skil í myndum, máli og munum í Stofunnni í Duus Safnahúsum og einnig á Duustúni. Hún er opin daglega frá kl. 12:00 til 17:00 og stendur til 1. desember 2021. Sýningastjóri er Helgi V. V. Biering, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar.
Það sem herinn skildi eftir í Safnamiðstöðinni í Ramma opinn á Safnahelgi á Suðurnesjum 21. október 2021.
Boðið upp á sýningu einkasafnara og Byggðasafns Reykjanesbæjar á munum tengdum hernaði.
Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur verið með söfnunarátak á munum og minjum sem tengjast veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hluti þess sem safnast hefur var til sýnis á sýningu í Safnamiðstöðinni í Ramma við Seylubraut 1.
Ásamt Byggðasafninu verða 15 einkasafnarar sem sýndu hluta af afrakstri söfnunar sinnar á munum sem tengjast veru hers á Íslandi. Þar mátti meðal annars sjá farartæki, líkön, vopn, orður og einkennisbúninga.
Góður rómur var gerður að sýningunni og fjöldi gesta mældist rúmlega 2.000.
Sýningarstjóri: Helgi V. V. Biering.
Leiðarljós að lífhöfn í Reykjanesvita. Samstarfsverkefni. Opnuð 15. október 2021.
Varnarlið í verstöð, opnuð í Bryggjuhúsi Duus Safnahúsum föstudaginn 31. maí 2020
Í miðri síðari heimsstyrjöld hófst nýr kafli í sögu Suðurnesja, stríðið var komið til aldagamalla verstöðva á þess að íbúarnir fengju nokkru um það ráðið. Byggðasafnið hefur fengið styrk frá Uppbyggingasjóði Suðurnesja til að gera sögu Varnarliðsins og samskipta þess við heimamenn skil. Safnið hefur því ráðsit í skipulegt átak í söfnum og varðveislu mynda, muna og frásagna um þetta tímabil og er þessari sýningu einkum ætlað að vekja athygli á því verkefni.
Um sýninguna:
Sýningarstjóri: Eiríkur Páll Jörundsson
Smíðavinna og uppsetning: Haraldur Haraldsson og Helgi Biering
Brúðusýning Helgu Ingólfsdóttur var opnuð 3. september 2022
Sýning Byggðasafns Reykjanesbæjar á merku leikfangasafni Helgu Ingólfsdóttur var opnuð Helga hóf söfnun á brúðum fyrir margt löngu og í framhaldinu margskonar leikföngum öðrum sem flestir ættu að þekkja vel úr æsku.
Hún færði Byggðasafninu brúðusafnið að gjöf árið 2007 og heildarsafnið nokkrum árum síðar. Leikfangasafn hennar hefur ekki verið sýnt í heild sinni áður, en safnið er líklega það stærsta sinnar tegundar hér á landi. Markmiðið með sýningunni er ekki síst að sýna hversu yfirgripsmikið leikfangasafnið og í raun ótrúlegt að ein manneskja hafi náð að safna öllum þessum leikföngum saman.
Helga vann í mörg ár að söfnun brúða og leikfanga og hélt því áfram í mörg ár eftir að hún gaf Byggðasafninu brúðusafnið árið 2007. Enda sagði hún í viðtali það sama ár: „Þetta er náttúrulega ástríða. Svona ástríða deyr ekki svo glatt.“
Helga var menntuð sem þroskaþjálfi og var m.a. forstöðumaður leikfangasafns Þroskahjálpar Suðurnesja á árunum 1994 til 1996. Þá vann hún við sérkennslu í Myllubakkaskóla í Keflavík á árunum 1996 til 2005 en lengst af vann hún á ýmsum heilsustofnunum hér á landi. Helga hélt nokkrar sýningar á leikföngum sínum á meðan hún lifði, m.a. í húsinu við Dráttarbrautina ofan við Duus Safnahús þar sem ennþá má ennþá lesa Leikfangasafn Helgu við hliðina á Duus Handverki.
Hér að neðan eru tenglar á tvö viðtöl við Helgu, annars vegar viðtal sem birtist á Vísi árið 2007 og hins vegar viðtal sem birtist í Víkurfréttum í mars 2016 þegar hún opnaði leikfangasýningu í Virkjun á Ásbrú. Þar talar um söfnunarástríðuna og mikilvægi leikfanga í sögunni og fyrir þorska barna.
Sýningastjóri: Eiríkur P. Jörundsson.
Víkurfréttir 11. mars 2016:
https://www.vf.is/mannlif/leikfong-eru-stor-hluti-af-sogunnile
Vísir 17. júní 2007:
http://visir1.365cdn.is/g/2007106170064/med-fullt-hus-af-brudum
2019 og fyrr
Fólk í kaupstað, opnuð föstudaginn 15. febrúar 2019 kl. 18.00 í Stofunni í Duus Safnahúsum
Á sýningunni gefur að líta örlítið sýnishorn af ljósmyndum í eigu Byggðasafns Reykanesbæjar. Þema sýningarinnar er fólk og fjölbreytt mannlíf í kaupstaðnum Keflavík og nágrannabænum Njarðvík á árunum 1944 til 1994.
Sýningin er önnur sýning safnsins sem sett er upp í tilefni þess að 40 ár voru liðin frá formlegri stofnun sameiginlegs byggðsafns Keflavíkur og Njarðvíkur á síðasta ári. Á þessu ári eru jafnframt liðin 80 ár frá því að Ungmennafélagið setti á stofn Byggðasafn Keflavíkur þann 17. júní 1944 og 75 ár liðin frá því að Keflavíkurbær varð kaupstaður árið 1949.
Um sýninguna:
Sýningarstjóri: Eiríkur P. Jörundsson,
Sýningarnefnd: Oddgeir Karlsson, Hulda Björk Þorkelsdóttir og Haraldur Haraldsson
Silver Cross, svo miklar drossíur - Ljósanætursýning , opnuð 30. ágúst 2018
Nafnið eitt, Silver Cross, fær fólk til þess að brosa við hlýjum minningum sem tengjast vagninum. Sérstakar tilfinningar vakna þegar ungabarn er lagt til svefns í fallegum vagni, umvafið fatnaði sem þeir sem standa barninu næst hafa lagt ást og kærleika í.
Áhugaverðar sögur og dýrmætar minningar fylgja oft vögnum sem hafa tilheyrt sömu fjölskyldu. Oft á tíðum er búið að leggja mikla vinnu í viðhald og varðveislu á þessum fallegu vögnum sem tengjast fólki tilfinningaböndum.
Sýningin er unnin upp úr verkefni Thelmu Björgvinsdóttur, nema í þjóðfræði við Háskóla Íslands, um Silver Cross barnavagna. Verkefnið hefur síðan undið upp á sig og verður í framhaldinu viðfangsefni lokaritgerðar hennar til BA prófs í þjóðfræði. Fortíðin lifir í minningum og það er ósk höfundar að sýningin veki upp fallegar minningar og hlýjar hugsanir.
Sýningin er samstarfsverkefni Byggðasafns Reykjanesbæjar og Thelmu Björgvinsdóttur. Leitað var til fólks á Suðurnesjum með efni, bæði myndir og vagna. Án þeirra jákvæðu viðbragða hefði sýningin aldrei orðið að veruleika. Fá þau öll bestu þakkir fyrir.
Tilvitnanir eigenda Silver Cross vagna eru fengnar úr verkefni höfundar í þjóðfræði og tengjast ekki myndum á sýningunni.
Rafholt ehf. styrkti gerð sýningarinnar.
Höfundur: Thelma Björgvinsdóttir
Sýningarstjórn/hönnun: Eiríkur P. Jörundsson
Aðstoð við sýningu: Sigríður Ragna Jónasdóttir
Smíðavinna/málun: Haraldur Haraldsson
Hlustað á hafið - sumar og afmælissýning 2018
Þegar ég kem út á nóttunni þá tek ég alltaf eftir því hvaðan hljóðin koma og hvernig þau eru. Það er aðalatriðið en þar næst er sjávarlagið og útlit loftsins
Bjarni formaður í Höfnum
Föstudaginn 1. júní opnaði Byggðasafn Reykjanesbæjar sumarsýninguna Hlustað á hafið í Duus Safnahúsum. Sýningin er sú fyrri af tveimur sem sett verður upp á 40 ára afmæli safnsins og verður opin til 19. ágúst. Í nóvember verður síðan opnuð sérstök afmælissýning safnsins.
Sumarsýningin fjallar um náin tengsl sjómanna árabátatímans við hafið umhverfis Reykjanesið. Sýningunni er ætlað að veita örlitla innsýn í þann heim sem hafið var, stundum blítt og létt, en kannski oftar úfið og krafðist reglulega mannfórna. Á sýningunni er m.a. tveggja manna far í fullri stærð sem smíðað var eftir fyrstu nákvæmu teikningunni af slíkum bát frá 1772.
Sýningarstjórn og hönnun: Eiríkur P. Jörundsson, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar.
Smíði árabáts: Haukur Aðalsteinsson
Myndbandsgerð: Hallur Örn Árnason
Ljósmyndir: Oddgeir Karlsson.
Við munum tímana tvenna, opnuð fösutdaginn 16. nóvember 2018 kl 18:00 í Gryfjunni í Duus Safnahúsum
Við munum tímana tvenna : 40 ár liðin frá formlegri stofnun Byggðasafns Reykjanesbæjar
Sýningin er sett upp til að minnast þess að 40 ár eru liðin frá því að bæjarstjórnir Njarðvíkur og Keflavíkur ákváðu að setja sameiginlega á stofn byggðasafn til að safna og varðveita muni og ljósmyndir sem tengjast sögu svæðisins. Á sýningunni er farið yfir tildrögin að stofnun safnsins og sögu þess, en ekki síður er vakin athygli á mikilvægu starfi Byggðasafnsins í veröld og samfélagi sem breytist ört. Það fennir fljótt í sporin, en hlutverk Byggðasafnsins er að muna tímana tvenna og halda utan um söguna og fræða nútímann og komandi kynslóðir um fortíðina.
Reykjanesbær býr yfir sérstæðri og merkilegri sögu, þar sem einmitt má greina afar skörp skil á milli tveggja tíma; annars vegar höfum við mannlíf sem hefur byggt allt sitt á fiskveiðum og fangbrögðum við hafið um aldir og hins vegar langa sögu erlends varnarliðs sem nágranna innan girðingar. Því tengt er uppbygging alþjóðaflugvallar sem hafði og hefur ennþá gríðarleg áhrif á þróun samfélagins á Reykjanesi.
Um sýninguna:
Sýningarstjórn og hönnun: Eiríkur P. Jörundsson
Sýningarnefnd: Eiríkur P. Jörundsson, Hulda Björk Þorkelsdóttir, Haraldur Haraldsson, Oddgeir Karlsson og Helgi Biering.
Smíðavinna og uppsetning: Haraldur Haraldsson og Helgi Biering
Þeir settu svip á bæinn - Skátafélagið Heiðabúar 80 ára opnuð 9. júní 2017 í Gryfjunni í Duus Safnahúsum
Skátafélagið Heiðabúar fagnar 80 ára afmæli í september næstkomandi að því tilefni verður opnuð sýningin þeir settu svip á bæinn föstudag 9. júní kl.18 í Byggðasafni Reykjanesbæjar Duushúsum.
Á sýningunni verða ýmsir munir til sýnis, farið verður yfir sögu skátafélagsins og stiklað á stóru. Skátafélagið Heiðabúar var stofnað 15. september árið 1937 og aðalhvatamaður þess var Helgi S. Jónsson. Saga Heiðabúa er merkileg í skátasögunni vegna þess að í því félagi sameinast í fyrsta sinn í heiminum drengir og stúlkur í einu félagi. Heiðabúar hafa orðið þeirra gæfu aðnjótandi að þar hafa menn ekki gert aðeins stuttan stans heldur hafa þó nokkrir sinnt þörfum félagsins í mörg ár, sumir alla ævi. Sýningin stendur til 20. ágúst 2017
Sýningar- og ritstjóri : Sigrún Ásta Jónsdóttir
Sýningarhönnuðir: Gunnhildur Þórðardóttir
Grafísk hönnun: Svavar Ellertsson
Samstarfsverkefni með Skátafélaginu Heiðabúum
Verbúðalíf : menning og minning. Opnuð 30. mars 2017
Fjölmargir Íslendingar kynntust verbúðalífi og verbúðaflakki um og upp úr miðri síðustu öld. Peningalyktin barst úr sjávarplássunum og þangað streymdi unga fólkið, laust og liðugt, í von um skjótan gróða. Sumir sáu í fiskvinnslunni tækifæri til að afla á sumarvertíðinni nægilegs fjár til skólans næsta vetur, en aðrir þraukuðu lengur og unnu jafnt sumarvertíðir sem vetrarvertíðir og færðu sig jafnvel milli plássa, frá Eyjum á Eskifjörð og frá Grindavík á Suðureyri. Allt í senn í von um meiri vinnu, meiri pening og meira fjör.
Á sýningunni er verbúðalífi þessa tíma gerð skil með myndum og texta og með hálftíma langri kvikmynd og jafnlöngum útvarpsþætti sem verða endurtekin á hálftíma fresti á heila og hálfa tímanum. Benný Sif Ísleifsdóttir, Fríða Björk Ólafsdóttir og Vala Smáradóttir sáu um gerð sýningarinnar.
Heimilið. Opnuð föstudaginn 11. nóvember í Duus safnahúsum og stendur til 23. apríl 2017.
Hvert heimili á sína sögu, sitt fólk, atburði og tímaskeið, upphaf og endi. Engin tvö heimili er eins en þó eru þau öll byggð á sama grunni. Það má nota mörg orð og ólík til að lýsa heimilum og hvað þau eru fyrir hvert okkar en eitt sameinar þau öll, heimilið er alltaf mikilvægt.
Saga heimila er samofin því samfélagi sem umlykja þau. Þau endurspegla tíðarandann, tæknistigið og söguna. En það sem er kannski áhugaverðast er að heimilið segir persónulega sögu; sögur um áherslur, smekk, viðhorf, drauma, martraðir, gleði og sorgir. Heimilið er eins og efnisleg gátt inn í hugarheim okkar og verður þannig merkileg söguleg heimild.
Á þessari sýningu leggjum við áherslu á vinnuna á heimilinu. Við erum ca á tímabilinu 1930-1980 en lengst framan af á því tímabili var það enn nauðsyn að fólkið gæti gert sem mest sjálft. Matur var eldaður frá grunni, föt voru saumuð, stöguð, bætt, endursaumuð og híbýlaprýði voru heimagerð. Fátt var keypt út í búð, bæði var framboðið takmarkað en einnig var lítið um laust fé. Í dag er það val hjá flestum hvort þeir búi til eða kaupi tilbúið.
Við leggjum áherslu á þá gripi sem eru heimagerðir en mikilvægt er að varðveita þá sérstaklega þar sem ekkert kemur í staðinn fyrir hvern einstakan grip. Fjöldaframleiddir hlutir eru líka mikilvægir en auðveldara er að finna annan eins eða sambærilegan.
Sögur úr bænum. Stiklað á stóru og smáu í sögu bæjarins. Opnuð 4. júní 2016
Sýning Byggðasafnsins ber heitið Sögur úr bænum. Farið er yfir nokkra þræði úr sögu bæjarins allt frá landnámi og skoðað hvernig sögunni vindur fram. Staldrað er við nokkra þætti með hjálp safngripa Byggðasafnsins, t.d. eru skoðuð brot úr sögu leikskólans Tjarnarsels, sögu Guðna málara, Norðfjörðaættarinnar, Gagnfræðaskóla Keflavíkur og sveitarfélganna.
Herstöðin sem kom og fór , opnuð laugardaginn 6 febrúar 2016 í Gryfjunni Duus Safnahúsum
Sýningin fjallar um sögu Keflavíkurstöðvarinnar sem hófst á stríðsárunum með byggingu tveggja flugvalla, rúmlega hálfrar aldar sögu varnarliðsins og hvað gerðist eftir að herstöðin lokaði. En í ár eru 10 ár liðin síðan herstöðinni var lokað. Sýningin stendur til 24. apríl 2016.
Þyrping verður að þorpi, opnuð í Bryggjuhúsi Duus Safnahúsum 29. maí 2014.
Á uppstigningardag 29. maí 2014 var opnuð ný grunnsýning í Bryggjuhúsi Duushúsa. Á sýningunni er stiklað á stóru um sögu svæðisins allt frá umfjöllun um níundu aldar skála í Höfnum fram undir miðja síðustu öld. Fjallað er um torfbyggingar, eldamensku, verslun og viðskipti, fiskveiðar og vinnslu, ferðalög og náttúruna. Ólík tímabil flæða saman sem og náttúra og menning.
Sýningar- og ritstjóri: Sigrún Ásta Jónsdóttir
Sýningarhönnuðir: Inga Þórey Jóhannsdóttir, Gunnar Ottósson
Grafísk hönnun: Inga Þórey Jóhannsdóttir
Smíðar: Sparri ehf
Safnasjóður og Menningarráð Suðurnesja styrktu sýninguna
Á vertíð - þyrping verður að þorpi í Gryfjunni í Duus Safnahúsum 2012-2014
Þann 2. júní síðastliðinn opnaði Byggðasafn Reykjanesbæjar sýninguna Á vertíð í sal safnsins í Duushúsum. Á sýningunni er sagan fyrir vélvæðingu skoðuð, áhersla er lögð á 19. öldina, þegar þyrpingar við sjávarsíðuna urðu að þorpum og grunnur er lagður að þeim samfélögum sem við þekkjum í dag.
Það er löng og áhugaverð saga sem þorpin byggðu á. Saga árstíðarbundinnar sjósóknar þegar fleiri hundruð manns kom til Suðurnesja ár hvert um aldir til að róa á vetrarvertíð. Það hlýtur að hafa verið kærkomin tilbreyting frá fámenninu til sveita að koma hingað og hitta fyrir fjölda manns víðs vegar að af landinu og eiga saman góðar og erfiðar stundir í rúma 3 mánuði. Á vorin komu svo kaupskip með erlendan varning og fólk í ýmsum erindagjörðum. Margir heimamenn fóru í heyskap til dæmis norður í land. Það sem einkennir sögu svæðisins er einmitt ferðalög og tengsl ólíkra hópa.
Sýningar- og ritstjóri : Sigrún Ásta Jónsdóttir
Sýningarhönnuður: Ólafía Ólafsdóttir, Studiola
Grafísk hönnun: Ólafía Ólafsdóttir og Svavar Ellertsson
Smíðar: Sparri ehf
Safnasjóður, Menningarráð Suðurnesja og Útvegsmannafélag Suðurnesja styrktu sýninguna.
Fornleifarannsóknir í Höfnum, opnuð 24. mars 2012 í Víkingaheimum
Fjöldi fólks ferðaðist um Norðurslóðir á víkingatíma í leit að skjótfengnum gróða. Á sumrin var gnægð matar, fuglar í björgum, selir og fiskur í sjó og vötnum, í fjörum mátti finna rekavið og hræ af hvölum. Sérstaklega hafa menn leitað að tönnum úr rostungum og hvölum sem voru afar verðmætar, enda oft kallaðar fílabein norðursins eða hvíta gullið. Þær voru notaðar til að smíða margvíslega dýrgripi.
Rannsóknin var styrkt af: Menningarráði Suðurnesja, Fornleifasjóði, Magma Energy, Þjóðhátíðarsjóði og Safnasjóði. Nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands, fengu verklega þjálfun við rannsóknirnar.
Tekið var á móti öllum 10 ára börnum Reykjanesbæjar í fræðsluheimsókn árin sem rannsóknirnar fóru fram.
Bíó í Keflavík, opnuð á Ljósanótt 2011
Í tengslum við töku kvikmyndar Clint Eastwood "Flags of our fathers, sem tekin var upp að hluta á Reykjanesi, var sett upp sýning um sögu bíóreksturs í Keflavík í Bókasafni Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri var Ólafía Ólafsdóttir.
Völlurinn, nágranni innan girðingar í Gryfjunni í Duus Safnahúsum 2009 - 2012.
Einn einkennishlutur sýningarinnar var girðingin sem notuð var til að afmarka Völlinn frá umhverfi sínu, en hún var ekki bara efnislegur gripur hún var líka tákn um tvo heima sem þannig voru aðgreindir.
Fjölmargir lögðu lið við undirbúning og uppsetningu sýningarinnar, þar voru fremst í flokki Helga Ingimundardóttir sem tók m.a. 30 viðtöl við fyrrverandi starfsmenn varnarliðsins og Tómas Knútsson sem þekkir flestum betur allar byggingar á svæðinu. Björn G. Björnsson var sýningahönnuður.
Vagg og velta, rokkárin á Íslandi. Sýning Poppminjasafns Íslands, opnuð 31. mars 2007 í Duushúsum
Rokkbylgjan sem skall á landinu af fullum þunga vorið 1957 fól í sér mikla ögrun við íslenskt samfélag. Þessi bylgja, sem í upphafi var ýmist kölluð vagg og velta, rugg og ról eð rokk og ról, markaði að mörgu leyti tímamót.
Sýningarhöfundur: Ólafur J. Engilbertsson
Stuð og friður , sýning Poppminjasafns Íslands opnuð 17. júní 2005
Sýningin fjallaði um tímabilið 1969-1979. Í upphafi tímabilsins er róttækni, barátta fyrir betri heim, blómabörnin, tilraunir í tónlist og eiturlyfjum. Upp úr 1973 breytast áherslur, létari tónlist, minni alvara, glysið, diskóið, vinsældirnar í bland við uppreisn pönkara og manna eins og Megasar. Inn í litrófið blandast tónlist Stuðmanna og fleiri.
Á milli tveggja heima, afmælissýning safnsins í Gryfjunni í Duus Safnahúsum 2004-2005
Á 10 ára afmæli Reykjanesbæjar var opnuð sýningin "Milli tveggja heima. Á fortíðin erindi við nútímann?". Við fögnum því að 25 ár eru liðin frá því að safnið var fyrst opnað almenningi 17. nóvember 1979. Á sýningunni getur að líta afrakstur starfsins og hugleitt er hvert skuli halda næstu 25 árin.