Leiðarljós Byggðasafns Reykjanesbæjar
Tilgangur Byggðasafnsins er að vera vettvangur allra þeirra sem áhuga hafa á sögu bæjarfélagsins, hvort sem þeir eru bæjarbúar, almennir gestir, grúskarar nemendur eða fræðimenn, ungir sem aldnir. Með vinnu okkar viljum við leggja okkar af mörkum til að fólk uppgötvi og njóti sögu samfélagsins, fræðist um hana og geti rannsakað. Við viljum taka þátt í að njóta sögunnar með öðrum og fræðast af gestum okkar og samverkafólki.
Þetta gerum við með því að vera með áhugavekjandi sýningar, þar sem við leggjum okkur fram um að vera opin fyrir margvíslegum sjónarhornum og efla gagnrýnið viðhorf. Í skipulagi vinnunnar leggjum við áherslu á að efla og auðvelda aðgengi að sögunni og þeim heimildum við varðveitum. Við tökum vel á móti gestum sem heimsækja safngeymslurnar og við leggjum áherslu á að efla aðgengi af margvíslegu tagi í gegnum vefinn.
Við varðveitum sögu bæjarins með því að taka á móti, skrá og halda utan um með skipulögðum hætti; munum, myndum, skjölum og upplýsingum sem varða söguna. Við rannsökum heimildirnar til að læra meira og til þess að geta miðlað til gesta okkar, fjölbreyttari sýn og dýpri.
Við hugsum til framtíðar með því að leggja áherslu á varðveislu og skráningu gripa með faglegum hætti, þannig að öruggt verði að komandi kynslóðir hafi úr fjölbreytilegri flóru heimilda að moða til uppgötva og njóta sögu þessa samfélags.