Um sameiningu Keflavíkur og Njarðvíkur, úr Faxa jan. 1971

Hér að neðan fer grein úr tímaritinu Faxa eftir Gunnar Sveinsson, sem birtist í janúar 1971. Þar er rædd möguleg sameining Keflavíkur og Njarðvíkur og hún talin mjög æskileg. Ekki er frekari umræða um málið í blaðinu, sem bendir til að málið hafi ekki verið mjög umdeilt. Annars hefðu ef til vill birst greinar til andsvara, ef menn voru mjög heitir á móti sameiningunni.

            Í stóra samhenginu þá er þessi grein nokkuð á undan sínum tíma. Raunar var sú þróun að sveitarfélög sameinuðust hafin, eins og nefnt er í greininni. Fram að 1970 var hins vegar annað uppi á tengingum. Allt fram að síðari heimsstyrjöld var fremur um að ræða að ný sveitarfélög voru stofnuð. Sú þróun hófst um og upp úr aldamótunum 1900. Fjöldi nýrra þéttbýlisstaða myndaðist um það leyti, t.d. mörg þorp og kaupstaðir á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Flest þessi þorp og kaupstaðir urðu fljótlega sjálfstæð sveitarfélög. Um miðja öldina fór ný tegund þéttbýlis að gera vart við sig, þéttbýlisstaðir í sveitum, eins og Selfoss, Egilsstaðir og aðrir slíkir bæir. Þeir urðu einnig fljótlega sjálfstæð sveitarfélög sem klufu sig út úr þeim hreppum þar sem þeir byggðust upp.

            Eftir 1970 eða svo er sjaldgæft að ný sveitarfélög hafi myndast. Hins vegar hafa mörg sveitarfélög horfið inn í önnur og stærri sveitarfélög. Skagafjörður er t.d. nær allur orðinn eitt sveitarfélag, nema Akrahreppur, o.s.frv. Á Suðurnesjum hefur Keflavík og Njarðvík ásamt með Höfnum myndað eitt sveitarfélag, eins og það sem Gunnar ræðir í greininni, en Vatnsleysuströnd, Garður og Sandgerði eru ekki með í þeim félagsskap hvað sem síðar verður, og ekki heldur Grindavík.

 

Reykjaneskaupstaður

 

Um all langt skeið hafa staðið yfir umræður um sameiningu sveitarfélaga í landinu, hefir þar sitt sýnst hverjum. Sumir telja sameiningu til lítilla bóta, aðrir segja hana vera allra meina bót. Hlýtur þessi skoðanamunur að fara nokkuð eftir aðstöðu hvers og eins.

            Það er engum vafa bundið, að þróunin, bæði hér og erlendis, er í þá átt, að stækka sveitarfélögin, bendir margt til þess. Hér á landi hafa t.d. ekki verið mynduð ný sveitarfélög undanfarin ár og a.m.k. hafa tvö stór sveitarfélög ákveðið sameiningu á þessu eða næsta ári, þ.e. Ísafjörður og Eyrarhreppur.

            Fyrir tæpum þrjátíu árum skeði það óhapp, að ég tel, að í Stakksfirði voru tvö sveitarfélög mynduð úr einu, Njarðvíkurhreppur og Keflavíkurhreppur. Ástæðurnar fyrir þessari sundrungu voru að mínu viti mjög léttvægar, og að því er kunnugir herma, mun það hafa haft úrslitaáhrif á skiptingu hreppsins, að 30 ha. díslimótor, er keyptur var gamall frá Stokkseyri, var staðsettur í rafstöðinni í Keflavík til ljósaframleiðslu þar, í stað þess að koma honum fyrir í Njarðvíkum og láta hann framleiða rafmagn til götulýsingar þar.

            Á því er enginn efi, að skipting hreppsins á þessum tíma hefir haft ýmis neikvæð áhrif á framgang margra góðra mála hér í Stakksfirði og jafnvel Reykjanesi öllu, ýmsum framkvæmdum, sem hefðu getað fullnægt þörfum allra íbúa við Stakksfjörð, hefðu þær verið leystar sem eitt verkefni, hefir verið skipt í tvennt og hafa íbúar hvorrar víkurinnar um sig leyst þau án samráðs eða samvinnu við fólk í hinni víkinni.

            Daglega höfðu við þetta fyrir augunum: Tvö íþróttasvæði, tvær sundlaugar (báðar litlar), tvær rafveitur og svo mætti lengi telja. Ég held að íbúum Stakksfjarðar sé orðið ljóst, að þessi skipting fólksins í tvö sveitarfélög er úrelt og að hér þarf að gera á breytingu. Margir góðir menn hafa um þetta rætt og ritað og flestir komist að þessari niðurstöðu.

            Allir íbúar við Stakksfjörð eiga að vera í einu sveitarfélagi, sama hvort þeir búa í Njarðvíkum eða Keflavík. Fjarlægðir eru sáralitlar og atvinnusvæðið það sama, höfnin sú sama og sama prestakall, svo nokkuð sé nefnt. Þrjátíu ára kritur milli víkanna á ekki lengur að hafa áhrif á okkur, sem nú byggjum Stakksfjörð. Við eigum að sameinast og stofna Reykjaneskaupstað!

            Sameinuð gætum við leyst verkefnin á hagkvæmari hátt, en við nú gerum, skipulagt framtíðarmálefni okkar betur, gert þjónustueiningarnar stærri og þá um leið ódýrari í rekstri. Út á við yrði þá bæjarfélagið mun áhrifameira og þróttugra, jafnt í iðnaði, framleiðslu og fræðslumálum. Þar má m.a. benda á byggingu og rekstur menntaskóla í Innri-Njarðvík, sem er nú mjög aðkallandi verkefni, er heimtar okkur til samstarfs. Í síðasta tbl. Faxa er grein um þetta brýna hagsmunamál og vonandi verður oftar um það fjallað, þar til sigur vinnst. Einnig þyrfti að breyta lögsagnarumdæminu.

            Eins og flestum er kunnugt ver ríkið nokkru fé til styrktar vinnurannsóknum. Árlega útskrifast hópur vinnuhagræðingarmanna. Þeir koma á vinnustaðina, mæla skref og telja sekúndur til að vita, hvort ekki sé hægt að fækka skrefum og þannig gera ýmis verk á styttri tíma. Þetta sama ríkissamfélag lætur viðgangast, að maður með búsetu í Njarðvík þurfi að aka 40 km. leið til að fá svo einfalda þjónustu, sem eitt veðbókarvottorð.

            Allir, sem við Stakksfjörð búa, eiga að sameinast um eitt bæjarfélag, Reykjaneskaupstað og og fá sitt eigið lögsagnarumdæmi, er nái yfir allt svæðið sunnan Hafnarfjarðar. Að því skulum við vinna.      Gunnar Sveinsson.

 

Árni Daníel Júlíusson
söguritari