„Þau eru bæði ljót og léleg.“ Jólatrésskemmtun á Keflavíkurflugvelli árið 1949

„Þau eru bæði ljót og léleg.“ 

Jólatrésskemmtun á Keflavíkurflugvelli árið 1949

 

Þann 18. desember 1949 var haldin jólatrésskemmtun á Keflavíkurflugvelli á vegum Bandaríkjamanna. Þeir höfðu þá enn nokkra viðveru á Keflavíkurflugvelli, þótt stærstur hluti hersins hefði horfið á braut 1946. Raunar var allur her formlega séð á brott en bandarísku (eða „amerísku“) starfsmennirnir á Vellinum voru borgaralega klæddir, ekki í einkennisbúningum. Frá skemmtuninni er greint í 1. tbl. Faxa, janúar 1950, í dálki sem kallaðist „Raddir kvenna“. Inga Pálsdóttir heitir höfundur dálksins. Hún byrjar á því að þakka amerísku starfsmönnunum „velvild þeirra og rausn“ í garð barnanna í Keflavík og Njarðvíkum, sem var boðið ásamt með foreldrum sínum til skemmtunarinnar. Þarna hafi verið stórt og fallegt jólatré, allir salir skreyttir smekklega og ekta jólasveinn. Síðan segir:

            „Heyrst hefur að skemmtun þessi hafi verið algjörlega misheppnuð, þrátt fyrir góðan vilja þeirra, sem að henni stóðu. Má þar kenna um hinni geysilegu aðsókn að þessum stað. Það hafði frézt um þetta til næstu bæja og héraða og má segja að fólk gerði sig æði heimakomið. Enda var engin leið að koma neinni reglu á vegna mannfjöldans.

Þarna var hverju barni veittur stór skammtur af öllu mögulegu sælgæti. Og var það eitt sannarlega nóg til að gleðja börnin. En sýndu bönin þakklæti sitt? Ég efast um að þau hafi sagt „þökk fyrir“, er þau fengu skammtinn sinn. Hafi þó svo verið þá sýndu mörg þeirra vanþakklæti sinn á svo ljósan hátt, því að góðgætið lá um allt gólf í aðalskemmtisalnum.

Gjafapökkum var úthlutað á meðan þeir entust. Urðu fjöldamörg börn héðan úr Keflavík frá að hverfa án þess að þau fengju pakka. Geri ég ráð fyrir að gefendum hafi mislíkað það, að einmitt þau börn, er gjafanna áttu að njóta, fóru á mis við þær.

Heyrt hef ég almenna óánægju hér vegna þess hve þessi skemmtun var misheppnuð, því augsýnilegt var að ætlast yrði til að dansað væri í kring um jólatréð. Vafalaust hefðu konur ekki búið börn sín jafn fallega og þær gerðu, hefðu þær búist við, að enginn jólatrésfagnaður yrði“.

Ingu finnst eðlilegt að almenn óánægja sé með fagnaðinn. En annað sé blátt áfram skammarlegt, og það er hversu margir séu vanþakklátir. Ein konan hafi sagt við sig að það sem sín börn hefðu fengið hefði verið ómerkilegt. „Ekki veit ég hvað það var, sem börnin fegnu,“ segir Inga, „en ég veit hvernig íslenzku leikföngin eru. Þau eru ómerkileg [feiletrun í frumheimild]. Því að þau eru bæði ljót og léleg. ... Er hægt að búast við þroskuðum unglingum frá heimtufrekum mæðrum, sem telja allt einskis virði, sem gert er fyrir börnin?

Ég vildi óska þess að þessar jólatrésskemmtanir yrðu haldnar á annan hátt eða hreint og beint lagðar niður. Úr því að Reykvíkingar o g aðrir íbúar úr nágrannahéruðum og bæjum eru að seilast til þess, sem öðrum er ætlað, væri æskilegt, að hægt væri a.m.k. að útiloka að þeir ryddust inn þar, sem þeim er ekki ætlað að koma. Það er öðru máli að gegna með þá sem er sérstaklega boðið.

Hannes á Horninu og Víkverji myndu efalaust reka upp skræk ef Keflvíkingar ryddust inn á skemmtanir þeirra Reykvíkinga. Já og minnumst þess hve mikið hefir verið talað um Keflavíkurflugvöllinn í höfuðstaðnum, og á hvern hátt. Líklega hælist svo þetta fólk yfir því að hafa komið þarna. Það lætur nógu vel í munni þá.

Það sem ég vildi gera með þessum línum er að þakka þessar góðu og miklu gjafir og í öðru lagi að áminna börn og þeirra aðstandendur um að meta þetta á réttan hátt. Börnin eru móttækileg fyrir öllum ytri áhrifum. Kennum þeim að meta rétt það, sem fyrir þau er gert, hver svo sem gerir það.“

Vera Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli var afleiðing af svokölluðum Keflavíkursamningi, sem Ólafur Thors forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins stóð að ásamt með stjórnmálaleiðtogum landsins öðrum en leiðtogum Sósíalistaflokksins. Samningurinn var gerður síðla ár 1946. Í honum var gert ráð fyrir að Bandaríkjamenn hefðu sig af landi brott með allt sitt herlið. Bandaríkjamenn fengju þó lendingarréttindi á Keflavíkurflugvelli á meðan ekki væri búið að semja um frið við Þýskaland. Talið var að það gæti dregist á langinn, og var því samningurinn uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila þegar sex og hálft ár væru liðin. Einnig var gert ráð fyrir að Bandaríkjamenn gætu haft allt að 600 „starfsmenn“ á Keflavíkurflugvelli, en Bandaríkjamenn vantreystu Íslendingum til að reka flugvöllinn. Þeir vildu hafa sína eigin menn í þeim rekstri. Samningurinn olli gríðarlegum deilum á sínum tíma, því mikil andstaða var í öllum flokkum gegn því að hafa hér herstöðvar á friðartímum. Mest var andstaðan í Sósíalistaflokknum, sem var alfarið á móti bæði herstöðum og lendingarréttindum, en andstaðan var einnig mjög mikil bæði í Framsóknarflokki og Alþýðuflokki. Tveir ungir forystumenn Sjálfstæðismanna, þeir Gunnar Thoroddsen og Sigurður Bjarnason frá Vigur, lýstu jafnvel yfir andstöðu við það að herstöðvar yrðu hér friðartímum í ræðum 1945, að því er kemur fram í riti Vals Ingimundarsonar, „Í eldlínu kalda stríðsins“ frá 1996.

Keflavíkursamningurinn leiddi til stjórnarslita milli Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks annars vegar og Sósíalistaflokks hins vegar. Þessir flokkar höfðu verið saman í stjórn frá 1944 í svokallaðri Nýsköpunarstjórn. Þegar jólaskemmtunin fór fram á Keflavíkurflugvelli hafði það einnig gerst að Ísland hafði gerst aðili að NATO, Norður-Atlantshafsbandalaginu. Það var samþykkt á Alþingi 30. mars 1949 og hafði valdið gríðarlegum mótmælum og óeirðum á Austurvelli, þeim mestu á lýðveldistímanum, a.m.k. fram að hruni 2008. Jólaskemmtun á Keflavíkurflugvelli var því pólitískt séð mjög viðkvæmt mál, eins og fram kemur í grein Ingu, þegar hún talar um hve mikið sé talað um Keflavíkurflugvöll og á hvern hátt í höfuðstaðnum.

Hannes á horninu, sem Inga getur um var dálkur sem ritaður var í Alþýðublaðið 1937–1966 og var Vilhjálmur S. Vilhjálmsson blaðamaður höfundurinn. Um þennan dálk segir í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttir: „Merkasta framlag [Vilhjálms] til íslenskrar blaðamennsku vou daglegir dálkar í Alþýðublaðinu er hann hélt úti frá 1937 til dauðadags er hann skrifaði undir dulnefninu Hannes á horninu. Dálkurinn var nýjung á Íslandi er hann hóf göngu sína. Hann var í senn vettvangur fyrir almenning til að koma á framfæri skoðunum sínum, umkvarti, lofi og lasti og jafnframt leið fyrir Vilhjálm sjálfan til að koma á framfæri áhugamálum sínum. Blaðaviðtöl hans við alþýðufólk voru einnig merk nýjung.“

Árni Daníel Júlíusson
söguritari