Nýsköpunartogarinn Keflvíkingur

Nýsköpunartogarinn Keflvíkingur

 

Nýsköpunartogarinn Keflvíkingur

 

Árið 1948 fengu Keflvíkingar togara. Hann fékk nafnið Keflvíkingur og var gerður út frá Keflavík næstu átta árin.

            Keflvíkingur var þó ekki fyrsti togarinn í eigu Keflvíkinga. Í sögu Keflavíkur, 3. bindi, greinir Bjarni Guðmarsson frá því að eftir umbætur í hafnarmálum Keflavíkur 1944 hafi verið ákveðið að stofna þar til togaraútgerðar. Árið 1944 var keyptur togarinn Hafsteinn frá Hafnarfirði. Það gerði Ólafur E. Einarsson. Skipið kom þó sjaldan til Keflavíkur og var áfram gert út frá Hafnarfirði. Árið 1945 var togarinn svo seldur til Reykjavíkur.

            Seint í júlí 1946 var Keflavík úthlutað togara úr hópi nýsköpunartogara. 25% hlutur hreppsins, sem stóð að kaupunum, var fenginn að láni í Sparisjóði Hafnarfjarðar gegn veði í hafnarmannvirkjum bæjarins. Það var því sveitarfélagið sem hafði forgöngu um að togarinn yrði keyptur. Togaravæðing í nafni nýsköpunar var hluti af átaki ríkisvaldsins til eflingar atvinnulífsins í lok síðari heimsstyrjaldar. Árið 1944 var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks og lagði hún fram mikið fé til að efla atvinnulífið. Meðal annars var ákveðið að kaupa togara sem gerðir skyldu út frá helstu sjávarplássum. Fram að þessu hafði togaraútgerð nær eingöngu verið í Reykjavík og Hafnarfirði – reyndar voru togarar einnig eitthvað gerðir út frá Akranesi og Patreksfirði. Mikil þörf var orðin á að endurnýja skipaflotann og hugmyndin var að gera út togara víðar en frá hinum hefðbundnu togarabæjum. Fyrst voru 30 togarar pantaðir frá Bretlandi 1945 en síðar bættust fleiri við. Alls voru 42 togarar keyptir til landsins eftir stríð. Nú var farið að gera út togara frá bæjum eins og Keflavík, Vestmannaeyjum, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri og Neskaupstað. Þessir bæir höfðu fyrst og fremst verið bátaútgerðarstaðir, og átti það við um alla fiskibæi utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þar voru nú stofnaðar bæjarútgerðir. Flestir nýsköpunartogararnir voru gerðir út af bæjarútgerðum, en gömlu togaraútgerðirnar keyptu aðeins tvö skip.

            Í Sjómannadagsblaði Vestmanneyja 1997 segir frá nýsköpunartogurunum. Þeir voru síðutogarar, og af 42 togurum höfðu 38 gufuvélar. Aðeins fjórir voru dísilskip, en þau eyddu mun minna eldsneyti en gufutogararnir. Á hverju skipi var 33 manna áhöfn, og alls fengu því um 1400 sjómenn vinnu á nýju togurunum. Togararnir voru 650 til 799 rúmlestir. Vestmannaeyingar eignuðust tvo togara, Elliðaey og Bjarnarey, og skipti mjög í tvö horn með gengi þessara skipa. Útgerð Elliðaeyjar gekk mjög vel þar til skipið var selt til Hafnarfjarðar, en útgerð Bjarnareyjar gekk jafn illa og útgerð Elliðaeyjar gekk vel. Menn kvörtuðu yfir litlu skjóli á þilfari, sjórinn gekk yfir skipið og mjög blautt var að vera á þilfarinu. Smám saman fór að verða erfiðara og erfiðara að manna togarana, því tekjur af þeim voru  litlar miðað við það sem fékkst á síld. Sjómenn leituðu frekar á síldina.

            Í Keflavík var samþykkt á borgarafundi 29. maí 1946 að kaupa togarann, að sögn Bjarna Guðmarssonar eftir snarpar umræður. 75 greiddu atkvæði með því að kaupa togarann, en 1 var á móti. 10 greiddu ekki atkvæði. Nefnd var kosin á hreppsnefndarfundi til að annast framkvæmdina. Í henni sátu Elías Þorsteinsson, Huxley Ólafsson og Ragnar Guðleifsson. Togarinn kom til Keflavíkur 31. mars 1948. Hann var smíðaður í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen, sömu stöð og smíðaði hina gæfuríku Elliðaey.

            Fljótt tók að síga á ógæfuhliðina varðandi útgerð togarans, sérstaklega hvað viðkom fjármálum. Á fundi hreppsnefndar 9. des. 1949 (bæjarstjórnin var nefnd hreppsnefnd í fundargerðum til að byrja með eftir að bærinn varð kaupstaður vorið 1949) var lögð fram skýrsla útgerðarnefndar um fjárhagsafkomu togaraútgerðarinnar. Þar kom fram að útgerðin hefði safnað miklum skuldum, sem ekki boðaði gott svo skömmu eftir upphaf útgerðarinnar.

            Á fundi bæjarstjórnar 18. apríl 1950 (bæjarstjórnin var nú farin að kalla sig bæjarstjórn) kom fram tillaga um að kaupa annan togara af ríkisstjórninni. Þann 16. maí 1950 var á bæjarstjórnarfundi samþykkt að kaupa togarann, en á sama fundi kom síðan fram önnur tillaga frá Sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn um að hætta við kaupin. Ástæðan sem Sjálfstæðismenn báru fram var sú að hinn togarinn hefði ekki borgað sig. Tillaga þeirra var samþykkt, og ekkert varð úr kaupum á öðrum togara. Þann 20. júní var þetta mál enn til umræðu, og vildu fulltrúar Alþýðuflokksins í bæjarstjórn að bæjarútgerðin keypti annan togara. Þessi tillaga var nú samþykkt með því skilyrði að hagstæð kjör fengjust til kaupanna. Hagstæðu kjörin fengust hins vegar aldrei og því varð ekkert af kaupunum á nýjum togara.

            Um haustið kom fram beiðni frá útgerðarnefnd bæjarins um að bærinn tæki rekstarlán vegna togarans Keflvíkings, sem enn var í eigu bæjarins. Sumarið eftir, í júlí 1951, óskaði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Guðmundsson að bókað yrði að „þar sem komið hefur í ljós að togarinn hefur árlega þurft til rekstrar síns háar upphæðir úr bæjarsjóði, þá tel ég rétt að þessar upphæðir séu teknar á fjárhagsáætlunina.“

            Árið eftir 1952, var samþykkt á bæjarstjórnarfundi að taka enn lán til útgerðarinnar, nú 200.000 kr.  Árið 1953 var fjallað um rekstur togarans á bæjarráðsfundi þann 1. desember. Þar kom fram „Fundargerð útgerðarnefndar varðandi fjárhag togarans. Kom það fram í fundargerðinni að 1,4 milljónir af fé vantar til greiðslna á Stofnlánadeildarlánum og öðrum aðkallandi skuldum. Leggur nefndin til að leitað sé aðstoðar atvinnumálaráðuneytisins með aðstoð til þess að ráð a fram úr fjárhagsvandræðum. Takist sú leið ekki, þá telur meirihluti nefndarinnar að taka beri til athugunar að selja skipið og eignir þess. (Allar skuldir pr. 29/10 ´53 kr. 5,215 milljónir, framlag bæjarins meðtalið).“

            Nú var ljóst í hvað stefndi. Útgerð togarans hafði safnað gríðarlegum skuldum. Kvartað var yfir því að skipstjóri og margir úr áhöfn væru ekki úr Keflavík. Um haustið árið eftir voru lausaskuldir togarans 600 til 700 þúsund, og stöðugt var rætt um lántökur vegna togarans á bæjarstjórnarfundum. Árið 1955, nánar tiltekið í júní, fól bæjarstjórnin útgerðarnefnd að gera sitt ítrasta til að koma Keflvíkingi á saltfiskveiðar við Grænland („ á veiðar í salt á Grænlandsmið“) . Gerð var grein fyrir sölumöguleikum togarans til Siglufjarðar á bæjarstjórnarfundinum og deilt á bæjarstjórn um að senda lækkað sölutilboð til Siglufjarðar án þess að bera undir fund í bæjarstjórn. Greinilegt var því að unnið var að sölu togarans. Togarinn var svo seldur árið eftir, í febrúar 1956. Í fundargerð bæjarstjórnarfundar í apríl það ár kemur fram að Alþýðuflokkurinn var ekki samþykkur sölu togarans, en hann var í minnihluta í bæjarstjórninni og fékk þessu ekki ráðið.

            Saga Keflvíkings var því svipuð sögu Bjarnareyjar. Útgerðin gekk illa og safnaði skuldum. Almennt séð mun útgerð nýsköpunartogaranna hafa gengið brösuglega. Ýmislegt varð til þess, m.a. útfærsla landhelginnar 1952. Íslensku togararnir máttu ekki veiða í landhelgi fremur en enskir eða þýskir, enda ástæða útfærslunnar m.a. sú að vernda veiðarfæri báta á grunnslóð fyrir togurum og veiðarfærum þeirra. Þá var verð á þorski ekki hátt og mun betra verð fékkst fyrir síld. Einnig virðist svo sem víða hafi skort aðstöðu, þekkingu og reynslu á togaraútgerð í bæjum þar sem henni hafði lítið verið sinnt fram að þessu. Togaraútgerð lagðist því af, a.m.k. um skeið, í Keflavík við sölu togarans Keflvíkings 1956.

 

Árni Daníel Júlíusson
söguritari