ÍBK vinnur Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu 1964

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Árið 1964 vann ÍBK Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í fyrsta sinn. Hér verður örlítið gripið niður í fundargerðarbók bæjarstjórnar frá því í september á því herrans ári 1964, og síðan skoðuð umfjöllun dagblaðanna um tvo leiki liðsins á þessu sumri, en þeir voru nokkuð dramatískir. Og hefst þá leikurinn.

 Úr fundargerðabók bæjarstjórnar:

 Ár 1964, fimmtudaginn 24. september kl. 6 e.h. var bæjarstjórnin samankomin á aukafund í æskulýðsheimilinu að Austurgötu 14.

            Fundarefni: Sigur knattspyrnuflokks I.B.K. á Íslandsmótinu.

            Þar sem knattspyrnulið Keflvíkinga hefur á Íslandsmótinu í ár borið sigur af hólmi og hreppt Íslandsmeistaratitilinn í ár og þar með Íslandsbikarinn, þykir bæjarstjórninni tilhlýðilegt að sýna flokknum og þjálfara hans Óla B. Jónssyni nokkra viðurkenningu fyrir afrek sitt og þann ljóma sem sigur þeirra hefur varpað á Keflavík og keflvíska æsku. Telur bæjarstjórnin rétt, að viðurkenningin verði í því fólgin að hækkað verði framlag bæjarsjóðs til knattspyrnudeildarinnar svo henni verið kleift, að halda þjálfara sínum a.m.k. næsta ár.

            Bæjarfulltrúar eru allir sammála um, að knattspyrnudeild Í.B.K. skuli veitt í þakklætis- og viðurkenningarskyni fyrir frammistöðu sína á Íslandsmótinu kr. 150.000,00 aukaframlag úr bæjarsjóði er greiðist næstu 12 mánuði eða nánar tiltekið frá 1. okt. 1961 til 1. okt. 1965 og verði fé þessu varið til knattspyrnumála og áframhaldandi þjálfun knattspyrnumanna okkar.

            Bæjarstjóri upplýsti, að hann hefði gert ráðstafanir til að Íslandsmeisturunum verði haldið samsæti í Aðalveri n.k. sunnudag, er þeir koma heim með Íslandsbikarinn til Keflavíkur.

 Hér verður sagt frá leikjum Keflavíkurliðsins við Val þetta sumar, sem reyndust nokkuð ævintýralegir

Vísir mánudagur 15. júní

 Keflavík tekur forystuna í 1. deild – og KR dettur niður í 3. sæti.

 Keflavíkurliðið var í gær það lið, sem kom, sá og SIGRAÐI. Áhangendur liðsins komu einnig hundruðum saman frá Keflavík, sáu góðan leik sinna manna og sneru til baka sem sigurvegara, hæstánægðir með leikinn, enda er Keflavík nú búið að taka forystuna í 1. deild, og án efa verður erfitt að þoka liðinu þaðan aftur, a.m.k. verður þá að berjast betur en Valsmenn gerðu í gærkvöldi.

            Valsmenn sjálfir hjálpuðu Keflvíkingum á sporið. Árni Njálsson gerði einhver ljótustu mistökin á sínum bakvarðarferli, sem vissulega hefur verið blessunarlega laus við slíkt. Hann ætlaði að gefa til Gylfa markvarðar á augnabliki er virtist ekki hættulegt, en Gylfi var á leið út úr markinu til að hirða boltann og fór hann framhjá honum og inn. Þetta gerðist eftir 12. mín. leik. Á 34. mín. jafna Valsmenn. Ingvar skoraði með fallegu skoti innan vítateigs.

            Einar Magnússon, mjög skemmtilegur leikmaður, skorðar 2:1 3 mín. síðar.  Boltinn kom fyrir markið frá Karli Hermannssyni, sem einnig sýndi mjög skemmtilegan leik. Einar var fljótur að afgreiða óverjandi í netið, 2:1.

            Högni skoraði 3:1 úr vítaspyrnu á 1. mín. síðari hálfleiks. Mjög gott skot og öruggt. Vítaspyrnan kom vegna brots Gylfa markvarðar á Jóni Jóhannessyni, sem meiddist við þetta.

            Meiðslin á Jóni urðu til þess að hann varð að fara út á kantinn. Var hann þar sem eftir var draghaltur og háði það honum skiljanlega mikið. Samt var það hann sem skoraði við mikil fagnaðarlæti, 4:1 fyrir Keflavík á 31. mín. Mjög laglega gert hjá Jóni gott skot.

            Keflvíkingar unnu þarna verðskuldaðan sigur, áttu mjög fjörug tilþrif og í heild var liðið mjög gott. ...

 

Hér segir frá síðari viðureign Keflavíkur og Vals, og er byrjað á frásögn Vísis, en síðan haldið áfram í Morgunblaðinu.

 Fyrirsögn:

Ekkert virðist geta ógnað sigri Keflavíkur í 1. deild – Þróttur hjálpaði til með jafntefli gegn KR en það gerir tvísýna baráttu á botninum milli Fram og Þróttar.

 Enn breikkar bilið milli „keppinautanna“ í 1. deild, KR og Keflavíkur. Keflavík vann Val eftir nokkuð óvænta mótstöðu í fyrri hálfleik, með 5:1, en KR-ingar máttu heita góðir í gærdag með 2:2 gegn Þrótti, sem jafnframt eygir þó nokkra von um að halda sæti sínu í deildinni, enda hefur liðið ekki staðið sig sem verst tapað 5 af 9 leikjum og þar af nokkuð slysalega stundum. Verður baráttan milli Þróttar og Fram án efa mjög hörð og jöfn. Það er hins vegar af toppbaráttunni að segja að ég mundi þora að afhenda Keflvíkingum Íslandsbikarinn á stundunni, því KR-liðið kemur vart til með að vinna fyrst Akranes, síðan Keflavík á heimavelli og þá aftur Keflavík í úrslitaleik. Það er vart hægt annað en „bóka“ Keflvíkinga sem Íslandsmeistara 1964, ári eftir að þeir stóðu í fallbaráttu þar sem KR-sigur á Akureyri, færði þeim sætið í deildinni í sumar.

            Í Keflavík fór fram tilþrifamikill leikur við Val á laugardal. Fyrri hálfleikur bauð upp á jafna og skemmtilega keppni, sem leiddi þó ekki til marks. Bezta tækifærið áttu Keflvíkingar, en Högni Gunnlaugsson spyrnti úr vítaspyrnu beint í fang Gylfa Hjálmarssonar.

            Strax í seinni hálfleik, þegar Keflvíkingar áttu á móti golunni að sækja skoruðu þeir. Það var Sigurður Albertsson sem skoraði 1:0 eftir 5 mínútna leik. Örstuttu síðar varð Jón Jóhannesson að yfirgefa völlinn vegna meiðsla, sem hann hlaut nú aftur á fæti, en hann fótbrotnaði í fyrri leik þessara liða í sumar og hefur síðan verið frá. Myndataka leiddi þó í ljós að hér var aðeins um að ræða mar en ekki brot. Léku Keflvíkingar eftir þetta 10 gegn 11 Valsmönnum, – og það undarlega var, að nú fór að ganga í haginn. ...

 

Morgunblaðið þriðjudagur 8. sept. 1964

 Á 14. mín. skeði atvik, sem að líkindum hefur haft úrslitaþýðingu fyrir gang leiksins. Jón Jóhannesson fékk spark í fótinn í návígi við Árna Njálsson og varð Jón að yfirgefa völlinn.

            Eins og menn muna fótbrotnaði Jón í leik við Val á Laugardalsvellinum í sumar. Virtust Keflvíkingar ákveðnir í að hefna ófara félaga síns. Leikur liðsins gjörbreyttist, hraðar og nákvæmar sendingar rugluðu Valmenn algjörlega í ríminu. Á 22. mín. tók Jón Ólafur hornspyrnu, knötturinn stefndi í markið, Gylfi hafði hendur á knettinum, en missti hann í netið.

            Tíu mín. síðar skoraði Magnús Torfason þriðja mark Keflavíkur, með þrumuskoti af 25 metra færi. Ennþá pressa Keflvíkingar og nú skoraði Jón Ólafur með vinstrifótarskoti, eftir að hafa leikið á bakvörð Vals.

            Loksins á 44. mín. tókst Valsmönnum að komast á blað. Hermann miðherji lék laglega á tvo varnarleikmenn ÍBK og skoraði með rólegu og föstu skoti.

            Síðasta markið kom síðan, er örfáar sekúndur voru til leiksloka. Sigurður Albertsson var með knöttinn á vítateigslínu Vals og allir bjuggust við skoti. Í stað þess, renndi Sigurður knettinum aftur fyrir sig, til Magnúsar Torfasonar, sem ekki lét á sér standa að afgreiða knöttinn í netið. –

            Það má segja að sigur Keflavíkur hafi verið réttlátur. Bæði liðin áttu marktækifæri, nokkurn veginn í hlutfalli við mörkin, sem skoruð voru. Leikur Keflvíkinga síðustu 30 mín. leiksins er það bezta, sem ég hef séð hjá íslenzku liði á þessu ári. Samleikur Karls og Rúnars ruglaði algjörlega þunglamalega vörn Vals, og Einar Magnússon og Magnús Torfason áttu nú sinn bezta leik á sumrinu. Högni og Sigurður Albertsson stóðu vel fyrir sínu.

            Lið Vals er skipað leiknum einstaklingum, með góða og áferðafallega knattmeðferð. Samt er eins og liðinu takist aldrei að ná verulega vel saman nema örstutt augnablik í einu. Og það er eins og baráttuviljann vanti hjá flestum. Nái mótherji knettinum, þá er hætt og horft á hvernig næsta manni tekst. Þetta er þó ekki hægt að segja um Árna Njálsson, sem alltaf berst og stundum af full miklu kappi.

            Hermann, Reynir og Árni Njálsson voru beztu menn Vals í þessum leik.

            Dómari var Grétar Norðfjörð og dæmdi ágætlega.

            Áhorfendur voru fjölmargir.

 
Leikir Keflavíkurliðsins þetta sumar.

 Keflavík-Fram           6:5

Keflavík-Valur            4:1

Keflavík-Þróttur       0:0

Keflavík-KR                 2:3

Keflavík-ÍA                  2:0

Keflavík-ÍA                  3:1

Keflavík-Fram           0:0

Keflavík-Valur           5:1

Keflavík-KR                 1:1

 Lokastaðan í deildinni

 Keflavík           10        6          3          1          25:13   15

Akranes           10        6          0          4          27:21   12

KR                       10        4          3          3          16:15   11

Valur                10         3          2          5          19:24   8

Fram                10        2          3          5          16:20   7

Þróttur            10        2          3          5          14:24   7

 
Fram og Þróttur spiluðu úrslitaleik um fallsætið og vann Fram 4:1.

 

Árni Daníel Júlíusson
söguritari