Fríða Sigurðsson, þýskur sagnfræðingur í Keflavík

Í nóvemberhefti Faxa árið 1968 birtist grein eftir konu að nafni Fríða Sigurðsson. Greinin bar með sér að þar hélt á penna bæði vel ritfær og vel menntuð kona. Í henni fjallar Fríða um mannsnafnið Eyjólfur, og hefst greinin á þessum orðum: „Eyjólfur heitir keflvískur maður, en hvorki honum né konu hans þykir þetta rammíslenzka nafn fallegt, og enginn afkomandi hans hefur verið skírður í höfuðið á honum, svo ekki mun nafnið eiga langt í land héðan af.“ Nafnið var raunar þekkt í ætt Eyjólfs og hafði verið í 550 ár. Fríða rekur feril og uppruna Eyjólfsnafnsins í þessari ætt.

            Nafnið var komið til Keflavíkur með langömmu Eyjólfs þess sem var á dögum í Keflavík árið 1968. Hann var sonarsonur Eyjólfs nokkurs í Merkinesi, sem var Símonarson. Símon þessi átti konu sem hét Björg, og var dóttir Eyjólfs í Bitru í Hraungerðishreppi. Nafnið var semsagt komið úr Flóanum til Keflavíkur. Það átti mikla sögu um Suðurland í þessari ætt, og rekur Fríða þá sögu allt aftur til Eyjólfs sýslumanns Einarssonar í Dal undir Eyjafjöllum. Eyjólfur þessi var ættaður úr Eyjafirði en bjó frá 1474 í Dal, og varð hirðstjóri yfir öllu Íslandi 1485. Nafnið á einnig sögu á Vestfjörðum, frá Haga á Barðaströnd, en þar bjó Eyjólfur mókollur Gíslason, og er því bæði komið að vestan og norðan um Flóann til Keflavíkur. Eyjólfur þessi var tengdur Magnúsi biskupi, sem Fríða segir að hafi fengið páfann í Róm til að leyfa Íslendingum að eta selkjöt á föstu. Þess má geta að sé mannsnafnið Eyjólfur slegið inn á já.is koma upp 17 Eyjólfar í Reykjanesbæ, þannig að Fríða reyndist ekki alveg sannspá með að nafnið væri að deyja út.

            Fríða ritar síðan í Faxa nokkrar greinar um önnur mannsnöfn, Einar, Jón og Arnbjörn, og eru greinarnar allar fróðlegar og skemmtilegar. Einnig ritar hún gagnmerka grein um lok konungsútgerðar 1769 og upphaf Keflavíkurbyggðar. Sú grein birtist í jólablaði 1969, á tvö hundruð ára afmæli þessa merka atburðar. Þar fjallar Fríða m.a. um kvaðir á bændum, sem skyldu útvega menn í róður á skip konungs um Suðurnes. Kvaðir voru raunar á þessum tíma á bændur víða um sunnan- og vestanvert landið en óvíða norðan og austanlands.

            Í maíblaði Faxa árið 1970 fjallar Fríða nánar um upphaf Keflavíkur. Hún hefur fundið gamla bók sem hún kallar sveitarbók Rosmhvalanesshrepps í Þjóðskjalasafninu. „Hún er fallega skrifuð og auðlæsileg, þó að skriftin sé auðvitað gotnesk og með styttingum.“, segir Fríða. Bókin sé frá árunum 1772 til 1778 og hin eina sem varðveist hafi frá Suðurnesjum. Þar sé staðest að danski kaupmaðurinn Jakobæus hafi sest að í Keflavík árið 1772 og fljótlega eftir það hafi orðið til þéttbýlisstaður í Keflavík með um 80 til 90 íbúum. Í bókinni er skrá yfir skattgreiðendur í hreppnum, í Bátsendum, Miðnesi, Garðinum og Leirunni til Keflavíkur. Þar er reikningshald fyrir tekjur og gjöld hreppsins, skrá yfir bæi á Suðurnesjum og skattskyldu ábúenda.

            Hver var Fríða Sigurðsson? Hún var Þjóðverji að uppruna, eiginkona Bjarna Sigurðssonar, sem var fyrsti sjúkrahúslæknir í Keflavík. Í októberblaði Faxa 1970 er viðtal við Fríðu, sem hér er nefnd Frida. Fram kemur að Bjarni starfaði öll stríðsárin á stóru sjúkrahúsi í Þýskalandi, nánar tiltekið í Berlín, þar sem hann öðlaðist dýrmæta reynslu í meðferð sjúkra og slasaðra. Þar kynntist hann einnig konu sinni, dr. Fríðu Sigurðsson, sem kom með honum til Íslands „og var hans trúi lífsförunautur meðan hann var ofar moldu“, segir í Faxa. Þá segir:

 

„Frú Frída er stórvelgefin kona og hámenntuð. Hún býr yfir mikilli og staðgóðri tungumálakunnáttu og er t.d. doktor ... Íslenzkuna hefir hún tileinkað sér svo vel, að með eindæmum mál kalla, og í íslenzkri ættfræði er hún hreinasti galdrameistari. ... Fyrir staka tilviljun komst ég að því snemma í sumar, að nú í október 1970, eru liðin rétt 25 ár frá því að þau hjónin komu til landsins ... “

Í tilefni af þessu afmæli var tekið viðtal við Fridu fyrir , með yfirskriftinni Frá Berlín til Búðardals. Kaflar úr því fara hér á eftir.

            „– Hvernig atvikaðist það, að þú komst til Íslands dr. Frída?

            – Ég var gift íslenzkum manni, Bjarna Sigurðssyni sjúkrahúslækni ... Við stríðslok, þegar Rússarnir komu, flúðu allir innlendir skurðlæknar, sem unnu við þetta sjúkrahús. Eðlilegast hefði verið, að Bjarni gerði slíkt hið sama, og því fremur, sem hann var útlendingur og kom þessi harmleikur því minna við en þeim, enda voru þá líka allir þeir Íslendingar, sem við þekktum löngu farnir heim á leið. Hinsvegar var þörfin fyrir læknishjálp við þetta sjúkrahús átakanlega brýn um þessar mundir og Bjarna fannst hann ekki með neinu mót geta yfirgefið sjúklinga sína við svo erfiðar aðstæður, enda þótt honum væri fullljóst, að þessi afstaða hans gat kostað hann lífið.

            –En samt hafði þið síðar látið verða af brottför úr landinu?

            –Þar kom að lokum, að við þurftum að taka ákvörðun um það, hvort við vildum vinna austur í Rússlandi fyrir „föður Stalín“ eða reyna, að komast vestur á bóginn, var svo sannarlega horft löngunaraugum til Íslands, þótt möguleikarnir fyrir heimför væru þá í fyrstu litlir sem engir.

–En svo hefir ræzt úr þessu fyrir ykkur?

–Já, eftir margvísleg umsvif, sem hér verða ekki rakin. Við lögðum af stað frá heimili okkar í Þýzkalandi þann 13. ágúst 1945 og aðfaranótt 24. október lagði Lagarfoss gamli að bryggju í Reykjavík. Það verða því í þessum mánuði 25 ár, sem ég hef verið búsett á Íslandi, en ekki grunaði mig þá, að mér mundi auðnast að lifa svo lengi, sloppin að heita mátti lifandi úr helvíti stríðs og hernáms.

–Hvar á Íslandi var ykkar fyrsta heimili?

–Fyrsta veturinn áttum við heima í Búðardal í Dalasýslu. Það var munur á Berlín og Búðardal! Svo mikill munur, að ekki þýddi annað en að steingleyma stórborginni, kennslukonunni, doktornum. Hér varð ég að vera ráðskona, og það við vatnsleysi, olíumaskínu og olíulampa. Og það fyrsta, sem maður minn keypti handa mér, voru vaðstígvél, en slík hafði ég aldrei séð fyrr, ekki einu sinni heyrð nefnd, en þau voru ómissandi í Búðardal, ef ég vildi fara meðfram fjörunni til kaupfélagsins.

–Hvernig gekk þér með íslenskuna fyrst í stað?

–Illa, ég var mállaus, en gat talið við hundinn Labba, sem birtist einn kaldan vetrardag frá því hinum megin við hólinn og fylgdi mér í fjöruferðum mínum, og get ég ekki gert upp á milli, hvort okkar var glaðara yfir kunningsskapnum, hundurinn eða ég. Í Búðardal var ég allt í senn: matreiðslukona, gangastúlka, hjúkrunarkona, næturvakt, skrifstofustúlka og aðstoðarstúlka í lyfjabúðinni. Auðvitað kauplaus, en það gerði ekkert til. ... Ég var hamingjusöm í Búðardal. Hér var friður og samlyndi. Mér þótti afskaplega vænt um Dalafólkið. Aldrei þennan langa vetur heyrði ég styggðaryrði. Enginn skammaði mig vegna þjóðernis míns, enginn lét sér til hugar koma, að ég væri glæpamaður ... Og svo var það ævintýrið mikla, að vera stödd á söguslóðum Laxdælu.“

Þau hjón fluttu síðan til Ísafjarðar og bjuggu þar nokkur ár, en fluttu síðan til Keflavíkur þar sem þau bjuggu upp frá því.

Sé flett upp í doktorsritgerðaskrá Landsbókasafnsins kemur upp ritgerðin Studien zu Der Saelden Hort: Ein Beitrag zur gesellschaftlichen Bestimmtheit mittelalterlicher Dichtung eftir Fríðu Sigurðsson, 1910–1993. Ritgerðin var gefin út 1938 af Rudolph Pfau og fjallar um miðaldakvæðið Der Saelden Hort. Hún hafði verið varin við Friedrich Wilhelms Universität í Berlín sama ár og hún kom út. Sá háskóli er enn starfandi í Berlín undir nafninu Humboldt háskólinn, og var á árum þýska alþýðulýðveldisins einn háskóla þess. Háskólinn heitir eftir einum merkasta vísindamanni af þýskum uppruna, Alexander von Humboldt.

Samantekt:
Árni Daníel Júlíusson
söguritari