Er eldgos væntanlegt á Reykjanesskaga

Faxi, héraðsblaða Suðurnesjamanna fjallar um eldgosahættuna 1967.

 Suðurnesjamenn vöknuðu upp við vondan draum skömmu eftir áramót þegar tilkynnt var að vart hefði orðið við jarðskjálfta og landris í grennd við Grindavík, rétt við Bláa lónið. Það fór um ýmsa, helst leit út fyrir að von væri á eldgosi eða jafnvel eldgosahrinu. Eldgosasaga Reykjanessins var rifjuð upp og minnt á eldgosahrinur á 12. og 13. öld, en síðan hefur ekki gosið á skaganum sjálfum. Raunar varð gos á Reykjaneshrygg í grennd við Eldey svo seint sem 1830 og annað nokkru fyrr, árið 1783. Þá myndaðist þar eyja sem kölluð var Nýey og var ofansjávar um skeið. Jafnvel er talið að smágos hafi orðið við Eldey árið 1926, en þá var ólga í sjónum nokkrar klukkustundir þar. Ekki hefur hins vegar gosið á landi á Reykjanesi síðan 1226–1227, en þá mynduðust Yngra Stampahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun.

 Í nóvemberhefti Faxa árið 1967 var grein með fyrirsögninni: „Er eldgos væntanlegt á Reykjanesskaga?“ Vitnað var í viðtal við Jón Jónsson jarðfræðing, sem „eitt dagblaðanna“ í Reykjavík hafði þá átt við hann fyrir skömmu. Jón hafði þá verið við rannsóknir á Reykjanesi og hafði unnið að því allmörg ár að gera jarðfræðikort af Reykjanesskaga með aðstoð Karls Grönvold. Blaðamaður spyr hvort eitthvað hafi komið Jóni á óvart við rannsóknirnar.

 „Nei, ég get varla sagt það. Við Lönguhlíð autanverða og suðvestur með Þríhnúkum er þó mikið um ketilmynduð sig, sem ekki eru algeng hér á landi. Askja er eitt slíkt sig, en þessi komast að sjálfsögðu ekki í hálfkvisti við hana. Það má eiginlega segja, að það hafi komið mér á óvart, hvílík firn af eldstöðvum er á þessum slóðum, margar þeirra eru ekki merktar á neitt kort, og liggja mjög þétt víða.

En hefur þú orðið var við einhverjar breytingar á jarðveginum á þessum slóðum?

-Á hluta af svæðinu held ég að umbrot eða hræringar séu að aukast og hiti að hækka. Það er meiri kraftur í hverunum, en því miður höfum við ekki eldri hitamælingar yfir svæðið, svo að það er erfitt að segja nákvæmlega til um. Ég er þó ekki einn um þessa skoðun, því að einn af mönnunum, sem fæst við innrauðu „hitaljósmyndunina“ nefndi þetta sama við mig að fyrra bragði. Við vitum ekkert um ástæðun ennþá, en ég myndi ætla, að svona yrði undanfari eldgosa. Það hafa ekki orðið eldsumbrot þarna síðan um 1340, þegar Ögmundarhraun rann. Þá rann hraun yfir bæ suð-vestur af Krísuvík, og ég held að það gæti orðið gaman fyrir fornleifafræðinga að líta nánar á þann stað. Það eru til Húshólmi og Brennishólmi í hrauninu, og bæjarrústirnar standa að nokkru leyti út undan hrauninu og má telja víst, að undir því sé einhverja muni að finna frá þessum tíma. Hraunlagið er ofur þunnt á þessum stað, innan við metra held ég og það væri ekki mikið verk að rífa það ofan af bænum. Ég býst ekki við að neitt fólk hafi farist, en það ætti t.d. að vera hægt að finna þarna viðarkol, sem hægt væri að aldursákvarða og jafnvel eitthvað af húsunum. Mér myndi þykja mjög gaman að taka þátt í rannsókn á staðnum. Jarðvegurinn undir hrauninu er valllendi, þurrlendismói.“

 Faxi getur í framhaldi af þessu mikilla jarðhræringa sem áttu sér stað þá um haustið á Reykjanesi. Þessar jarðhræringar hófust fimmtudagskvöldið 28. september með jarðskjálftum sem varð vart bæði norðanlands og sunnan, og áttu raunar upptök sína bæði fyrir norðan og sunnan. Voru skjálftarnir á forsíðum blaða og aðalfréttir í útvarpi og sjónvarpi. Faxi vitnar í umfjöllun í Morgunblaðinu, en þann 30. september mátti lesa eftirfarandi í blaðinu:

„Mesta jarðskjálftahrina á Reykjanesi í langan tíma.

 Jarðhræringar hófust á Reykjanesskaganum í fyrrakvöld og stóðu þær fram eftir degi í gær. Sterkasti kippurinn varð klukkan 22:22 í fyrrakvöld og mældist hann 4,2 stig á Richterkvarða. Þá urðu einnig nokkrar jarðhræringar norðanlands og mældist fyrsti og sterkasti kippurinn klukkan 22:28 og var hann tæp 4 stig. – Upptök jarðskjálftanna á Reykjanesi voru skammt norðaustur af Grindavík, en upptökin fyrir norðan voru stutt suður af Grímsey um 330 km frá Reykjavík. Síðasti kippurinn sunnanlands, sem nokkkuð kvað að kom um hálf fjögur í gær og þegar Mbl. hringdi suður í Grindavík laust fyrir kl. 10 í gærkvöldi, hafði allt verið með kyrrum kjörum síðan um kvöldmat. Um hádegisbilið í gær höfðu talsvert á annað hundrað kippir komið fram á jarðskjálftamæli Verðurstofunnar, þar af fimm fyrir norðan. Engin tjón urðu af jarðhræringum þessum.

 Þriðjudaginn 10. október birti Tíminn eftirfarandi umfjöllun:

 Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði í viðtali við Tímann í dag, að enn væru talsverðar breytingar á hverasvæðinu á Reykjanesskaga, þótt ekki væru þær stórvægilegar, og fremur í rénun en aukningu. M.a. hefur hverinn frá 1918 gosið með auknum krafti, og gufumökkurinn á svæðinu er nokkuð mikill. Sagði Jón, að búast mætti við því að breytingar þarna myndu halda áfram í einhverjum mæli, e.t.v. í nokkur ár, en ekki væri líklegt að nein stórmerki gerðust þar syðra.

 Sprunga sú, sem hverabreytingarnar urðu eftir, er alls u.þ.b. 35 km á lengd, nær frá klettasvæðinu niður við sjóinn, upp undir Sýrfell [Sýrfell er um 3 km norðaustur af Reykjanesvita], en hverfur þar undir nýrra hraun, en heldur samt áfram allt fram undir Vatnsleysu. Við breytingarnar hefur sprungan breikkað ögn á köflum, og sigið og að sögn Jóns Jónssonar er hún sums staðar um 80 cm á breidd. Síðan um fyrri helgi hefur ekki orðið vart neinna breytinga utan hverasvæðisins, en þar gætir umbrota að sjálfjögðu mest, þegar slíkar breytingar verða.

Ekki er unnt að segja fyrir um, hvað þarna gerist, en sennilega fjarar þetta út smátt og smátt, enda þótt það geti tekið nokkur ár, unz ástandið kemst í algerlega eðlilegt horf.“

Faxi vitnar einnig í Alþýðublaðið 3. október 1967:

„Gufumökkurinn, sem kemur upp úr sprungum þeim, sem myndazt hafa á hverasvæðinu við Reykjanesvita, jókst um allan helming í gær og á sunnudag. Nýir leirpyttir höfðu einnig myndazt. – Aðrar breytingar hafa ekki orðið á svæðin frá því vart varð við nýju hverina svo sl. laugardagsmorgun.

Faxi lætur þess getið að eftir þetta hafi mjög tekið að draga úr eldsumbrotum á Reykjanesi og jarðhræringar verið litlar að undanförnu, hvað sem síðar kunni að ske. Undir greinina skrifar „H. Th. B.“, eða Hallgrímur Th. Björnsson sem þá var ritstjóri Faxa og hafði verið um langt skeið.

Samantekt: Árni Daníel Júlíusson
söguritari