Atvinnuleysi á Suðurnesjum: Ástandið hefur aldrei verið svona slæmt

Morgunblaðið þriðjudagur 14. janúar 1986

 Atvinnuleysi á Suðurnesjum:

Ástandið hefur aldrei verið svona slæmt

-          segir Karl Steinar Guðnason, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur

 „Ástandið hefur aldrei verið svona slæmt, síðan ég hóf afskipti af verkalýðsmálum, enda má segja að öll fiskvinnsla hér á Suðurnesjum sé í rúst,“ sagði Karl Steinar Guðnason, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur um hið mikla atvinnuleysi, sem nú er á Suðurnesjum.

              Um áramótin voru um 600 manns á atvinnuleysisskrá, en þeim mun eitthvað hafa fækkað á síðustu dögum þar sem vinnsla hefur hafist á ný á nokkrum fiskvinnslustöðum. Karl Steinar sagði að yfir 400 manns væru þó enn á atvinnuleysisskrá af félagsmönnum Verkalýðs- og sjómannafélagsins og væru þá ótalið fólk úr öðrum starfsstéttum. Útlitið væri svart framundan og óvíst um hvort þetta fólk fengi vinnu í bráð, en margt af því hefur verið atvinnulaust frá því um miðjan desember.

Flest eru þetta konur úr fiskvinnslunni, en einnig er um að ræða fólk úr ýmsum öðrum atvinnugreinum svo sem bílstjórar og hafnarverkamenn. Eins og áður greinir voru um 600 manns á atvinnuleysisskrá um áramótin á Suðurnesjum, það er í Keflavík, Sandgerði, Grindavík, Njarðvík, Garði, Vogum og Höfnum. Bátar eru nú farnir að róa á ný eftir jólaleyfi en þó er talið að það muni ekki bæta atvinnuleysisástandið nema að litlu leyti.

 

Árni Daníel Júlíusson
söguritari