Almannavarnir komast á dagskrá í Keflavík

Almannavarnir komast á dagskrá í Keflavík.

 

 

Við erum öll almannavarnir“, dynur nú á okkur frá öllum hliðum og úr öllum miðlum. Þetta er nýtt slagorð, en almannavarnir komust á dagskrá bæjarstjórnarinnar í Keflavík fyrir löngu. 

Einhvern tímann vorið 1963 barst bæjarstjórninni bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins varðandi ráðstafanir til almannavarna.

Söguritara hefur enn ekki lánast að grafa það bréf upp, enda Þjóðskjalasafnið lokað og læst utanaðkomandi fram að 4. maí.

Þann 22. maí stóð til að ræða málið á bæjarstjórnarfundi, bréfið var 7. mál á dagskrá bæjarstjórnarfundar þann dag.

           

Dagskrá fundarins var þannig:

 1. Eignarnám bæjarlandsins

2. Kjörskrárkærur

3. Kosning kjörstjórnar

4. Bréf Guðm. Haraldssonar og Kjartans Ásgeirssonar varðandi bæjarábyrgð á víxilskuld

5. Bréf Búnaðarsambands Kjalnesinga varðandi áburðardreifingu úr flugvél

6. Bréf Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur varðandi uppsögn á samningi

7. Bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins varðandi ráðstafanir til almannavarna

8. Sumardvalarheimili barna

 

Í fundargerðarbók segir: „7. mál. Lesið bréf Dóms og kirkjumálaráðuneytisins um almannavarnir, þar sem leitað er álits bæjarstjórnar um það hvort hefja beri ráðstafanir til almannavarna hér í bæ. Bæjarstjórnin er því samþykk að ráðstafanir verði gerðar ... og felur bæjarstjóra og lögreglustjóra að hafa samband við almannavarnaráð varðandi þetta mál.“

            Forsaga málsins er sú að árið 1959 tók Fidel Castro og uppreisnarflokkur hans völdin á Kúbu. Fljótlega skarst í odda milli Bandaríkjanna annars vegar og Kúbverja hins vegar og studdi leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, innrás kúbverskra andstæðinga Castro í Kúbu, svokallaða Svínaflóainnrás. Hún var gerð í apríl 1961. Stuðningur Bandaríkjamanna átti að heita leynilegur, en var á flestra vitorði. Sú innrás mistókst hrapallega en jók á spennuna sem ríkti milli Bandaríkjastjórnar með forsetann John F. Kennedy í broddi fylkingar og byltingarstjórnarinnar á Kúbu. Kúbverjar brugðust við með því að leita aðstoðar Sovétmanna, og sumarið 1962 var ákveðið að koma upp kjarnorkuvopnum á Kúbu til að hindra frekari innrásartilraunir af hálfu Bandaríkjamanna. Bandaríkjamenn komust að því að verið var að smíða skotpalla fyrir kjarnorkuflaugar á Kúbu og ákváðu þann 22. október 1962 að setja hafnbann á Kúbu til að hindra að skip frá Sovétríkjunum gætu komið með kjarnorkuflaugar og annan útbúnað til Kúbu. Heimurinn var skyndilega kominn á barm kjarnorkustyrjaldar.            

            Fyrirsagnir í íslenskum dagblöðum dagana 23. og 24. október voru nokkuð ískyggilegar. Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 23. var flennifyrirsögn yfir alla forsíðu; „Engin vopn til Kúbu“. Undirfyrirsögn var „Yfirlýsing Bandaríkjaforseta í gær“, og síðan sagði: „Kennedy Bandaríkjaforseti skýrði þjóð sinni frá því í útvarps- og sjónvarpsræðu í gærkvöldi, að Bandaríkjastjórn hefði óyggjandi sannanir fyrir því, að Sovétríkin hefðu með leynd byggt árásarstöðvar fyrir kjarnorkueldflaugar á Kúbu. Sagði hann að kommúnistar hefðu breytt þessu fangelsaða landi í eldflaugastöð, sem öllum Ameríkuríkjum stæði ógn af. Lýsti hann því yfir að bann yrði lagt við öllum flutningum hergagna til Kúbu til þess að tryggja öryggi Vesturálfu og friðinn í heiminum. „Öllum skipum, hverrar þjóðar sem þau eru og hvaðan sem þau koma, verður snúið aftur, ef í ljós kemur, að í farmi þeirra eru árásarvopn“, sagði forseti Bandaríkjanna í ræðu sinni. ... Kennedy sagði að eldflaugastöðvarnar, sem Sovétríkin hefðu byggt á Kúbu væru ætlaðar fyrir eldflaugar, sem flutt geta kjarnorkusprengjur meira en þúsund mílna vegalengd og væri með þeim hægt að gera árásir á Mexíkó, Mið-Ameríku og Suðausturhluta Bandaríkjanna, þar á meðal Canaveralhöfða og Washington.“ Í Alþýðublaðinu sama dag var enn ískyggilegri fyrirsögn:„Kennedy boðar vopnabann á Fidel Castro: Rússneskar atómstöðvar á Kúbu.“ Efnislega var umfjöllun blaðsins svipuð þeirri sem var að finna í Morgunblaðinu.

Daginn eftir stóð í Þjóðviljanum yfir þvera forsíðuna: „Kjarnorkustríð vofir nú yfir öllu mannkyni. Bandaríkjafloti hefur slegið hring um Kúbu, sovézk skip nálgast eyna óðum.“ Þá fjallar blaðið um viðbrögð Sovétmanna við hafnbanni Bandaríkjastjórnar. Sovétstjórn hafi lýst ábyrgð á hendur Bandaríkjamönnum varðandi afleiðingar af hafnbanninu. Á hverri stundu megi búast við því að í hart slái milli sovéskra og bandarískra skipa á Karíbahafi. Hafnbann Bandaríkjanna hafi vakið ugg og ótta um allan heim segir blaðið, meiri en nokkru sinni síðan síðari heimsstyrjöld lauk. Jafnvel nánir bandamenn Bandaríkjanna hafi látið í ljós andúð sína á athæfi þeirra. Flest bresku blöðin séu sammála um að gagnrýna hafnbannið og sama máli gildi um blöð annars staðar á Vesturlöndum. Tvö stærstu ríki Rómönsku Ameríku, Brasilía og Mexíkó, hafi heldur ekki viljað lýsa stuðningi við hafnbannið.

Varðandi afstöðu Breta þá kom í ljós 1993 að þeir höfðu verið mjög óánægðir með það hvernig Bandaríkjamenn tóku á málinu og gáfu það til kynna við bandarísk yfirvöld. Ef til styrjaldar hefði komið hefði bandarískum kjarnorkuflaugum verið skotið frá Bretlandi og Bretland því í stórhættu. Slíkt og þvílíkt var ekkert grín. Heimurinn stóð á öndinni næstu daga, eða þar til Krúsjeff leiðtogi Sovétríkjanna tilkynnti 28. október að Sovétríkin hefðu ákveðið að taka niður vopnin og senda þau frá Kúbu. Síðar kom í ljós að afar litlu munaði í raun og veru að til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Sem dæmi má nefna að Bandaríkjamenn sprengdu handsprengjur yfir sovéskum kafbát við hafnbannslínuna, en hann var búinn kjarnorkuvopnum og skipstjórinn hafði skipun um að skjóta þeim ef ráðist yrði á bátinn. Skipstjórinn þurfti þó að ráðfæra sig við tvo aðra yfirmenn, og fá samþykki þeirra beggja. Kafbáturinn hafði ekki loftskeytasamband við Moskvu, en svo vel vildi til, fyrir mannkynið, að annar þessara foringja tók ekki í mál að skjóta kjarnorkuvopnum.

Það er varla tilviljun að þann 29. desember þetta sama ár, 1962, samþykkti Alþingi Íslendinga fyrstu lög um almannavarnir. Þar segir í 1. grein: „Hlutverk almannavarna er að skipuleggja og framkvæma ráðstafanir, sem miða að því að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eigna af völdum hernaðaraðgerða og veita líkn og aðstoð vegna tjóns, sem orðið hefur, enda falli þau störf ekki undir aðra aðilja samkvæmt lögum. Almannavarnir skulu veita aðstoð samkvæmt fyrirmælum dómsmálaráðherra, ef tjón vofir yfir eða hefur orðið af náttúruhamförum eða annarri vá.“

Þjóðviljinn svaf ekki á verðinum og sagði í þingsjá sinni þann 3. janúar 1963 að mitt í jólaönnunum hefðu „stjórnarflokkarnir [Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur] drifið í gegn á Alþingi hinn illa undirbúna lagabálk um almannavarnir“. Í fyrirsögn er spurt hvort byggð verði loftvarnabyrgi í Reykjavík fyrir 100 milljónir, en til samanburðar má nefna að álagt útsvar þetta ár í Keflavík var 23,5 milljónir króna. Samkvæmt Þjóðviljanum stóð til að hola Arnarhól að innan og byggja þar kjarnorkubyrgi, og það dygði ekki, því í ofanálag þyrfti þrjú eða fjögur önnur slík byrgi í Reykjavík. Ekki kemur fram hvernig hlífa átti Keflvíkingum við geislum, hita og öðrum afleiðingum kjarnorkustríðs, en varla hefur það kostað mikið minna en eitt slíkt byrgi eins og átti að gera í Arnarhól. Þjóðviljinn staðhæfir að besta almannavörnin sé að hætta vígbúnaði og taka niður kjarnorkuvopn, og má það svo sem til sanns vegar færa, en var varla raunhæft á þessum tímum kalds stríðs og harðra átaka milli kommúnisma og kapítalisma.

„Við erum öll almannavarnir“ er viðhorfið í dag, en á þessum tíma var viðhorfið nokkuð annað. Og það er athyglisvert að tímarnir hafa breyst svo mikið að nú er ekki minnst á kjarnorkuvá eða hættu af kjarnorkuvopnum á heimasíðu Almannavarna. Þó eru ennþá til milli 3000 og 4000 slík vopn, sem reyndar er talsvert minna en þegar mest var í kalda stríðinu (1947–1989). Þá voru alls 70.000 kjarnorkusprengjur vígbúnar og tilbúnar í stríð hjá NATO og Varsjárbandalaginu.

Í áðurnefndum lögum um almannavarnir var gert ráð fyrir almannavarnanefndum í hverju sveitarfélagi, sem skyldi hafa umsjón með brottflutningi af hættusvæðum í viðkomandi sveitarfélagi, skýlum, hjálparstarfi, viðvörunum o.s.frv. Kostnaður skyldi greiðast úr ríkissjóði skv. 5. grein og 25. grein, en sveitarfélög áttu að endurgreiða þriðjung alls kostnaðar og máttu gera það með sjúkrahúskostnaði sem þegar hafði verið lagt í. Ekki eru handbærar tölur um það hversu mikið fé var lagt á fjárlögum til almannavarna 1963.

Árni Daníel Júlíusson
söguritari