Áhyggjur vegna endaloka kalda stríðsins

Árið 1989 lauk kalda stríðinu með falli múrsins á milli Austur- og Vestur-Þýskalands. Mörgum létti þegar hættunni á kjarnorkustyrjöld stórveldanna linnti. En aðrar áhyggjur vöknuðu þá. Hvaða áhrif myndu endalok kalda stríðsins hafa á af atvinnuástand á Suðurnesjum, hvernig myndi fara þegar herinn færi? Hér er grein úr Morgunblaðinu frá fimmtudeginum 1. febrúar 1990.

 

1.740 Íslendingar hafa atvinnu af varnarliðinu. Um 1.300 þeirra búsettir á Suðurnesjum

Rúmlega 1.740 Íslendingar hafa atvinnu í tengslum við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og þar af eru rúmlega 1.300 búsettir á Suðurnesjum. Alls bú um 14.000 manns á Suðurnesjum. Bæjarstjórinn í Keflavík segir það hafa alvarleg áhrif á atvinnuástand á Suðurnesjum verði samdráttur í umsvifum varnarliðsins.

            Í ljósi atburða í Austur-Evrópu er talið að dregið geti úr framkvæmdum og umsvifum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að draga úr fjárframlögum til varnarmála, og kynnt tillögur um að herstöðum erlendis verði lokað eða dregið verulega úr framkvæmdum þar. Herstöðin við Keflavík er þó ekki þar á meðal.

            Guðfinnur Sigurvinsson bæjarstjóri í Keflavík sagði við Morgunblaðið, að mjög dökkt útlit væri í atvinnumálum á Suðurnesjum vegna samdráttar í sjávarútvegi. Þannig væru flest sjávarútvegsfyrirtæki í gjörgæslu hjá Atvinnutryggingarsjóði og Byggðastofnun og ef samdráttur í störfum í tengslum við varnarliðið bættist við, yrði útlitið enn dekkra.

            Nú vinna 1.098 Íslendingar fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Þar af eru 815 búsettir á Suðurnesjum, 283 eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Hjá Íslenskum aðalverktökum starfa 544, þar af búa 413 á Suðurnesjum og 113 á höfuðborgarsvæðinu og 18 manns búa annars staðar. Hjá Keflavíkurverktökum starfa 114, þar af eru 97 búsettir á Suðurnesjum en 7 annars staðar.

            Guðfinnur sagði að ekki væri fyrirsjáanlegur samdráttur í framkvæmdum í náinni framtíð. Hafnar eru framkvæmdir við nýjar íbúðablokkir á Keflavíkurflugvelli, nýja flugbraut og einnig er verið að ljúka við byggingu nýrrar ratsjármiðstöðvar.

            Þá sagði hann að verið væri að kanna ýmsar leiðir við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Þar væri m.a. horft á stóriðju og í því sambandi hefðu verið kannaðar aðstæður fyrir álver í Helguvík.

Árni Daníel Júlíusson
söguritari