Kópur BA 138

Kópur BA 138

Líkan af bátnum  Kópur BA 138  smíðað af Grími Karlssyni.

Kópur BA 138 var smíðaður í Noregi árið 1912 úr eik og furu. 134 brl. 95 ha. Compound vél. Eigandi var Kópur h/f, Tálknafirði, frá 21. maí 1917. Skipið fórst nálægt Krísuvík 12. október 1917. Áhöfnin, 9 menn, bjargaðist í land á skipsbátnum. 

Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson

 Selveiðiskipið Kópur BA 138

Árið 1916 stofnaði Pétur A. Ólafsson hlutafélag um selveiðar í Norður-Íshafinu. Fest voru kaup á svo til nýju selveiðiskipi, Axla frá Álasundi. 134 rúmlestir, smíðað í Rosendal í Harðangursfirði 1913. Kaupverð með öllum búnaði til selveiða og síldveiða með herpinót, var 140.000-kr sem þótti geipi hátt verð. Skipið hlaut nafnið Kópur BA 138, og félagið, Fiskiveiðahlutafélagið Kópur, Tálknafirði. Áhöfn skipsins var í upphafi tólf manns, þar af tíu Norðmenn og tveir Íslendingar, skipstjóri var í upphafi norskur, Abrahamsen. En Íslendingarnir voru Andrés Guðmundsson frá Hvallátrum verðandi skipstjóri á Kóp og Jón Guðmundsson bróðir Andrésar.

Eftir fyrsta úthaldið í strætisísnum milli Íslands og Grænlands kom skipið með ævintýralega mikinn afla sem vakti mikla athygli í Noregi og víðar. Reyndu Norðmenn að fá skipið keypt aftur og buðu vel en það gekk ekki. Urðu þá miklir erfiðleikar að fá riffla og skot hjá Norðmönnum, svo að kaupa varð slíkt frá Kanada. En þeir rifflar sem voru bandarískir reyndust afar illa, voru ekki nógu kraftmiklir. Þegar Kópur var síðast í ísnum lenti hann í ísskrúfu. Ísinn þéttist kringum og að skipinu, undir bóga og skut og lyfti skipinu hátt upp. En að lokum greiddist úr ísnum og skipið seig niður. Þótti það kraftaverki næst að skipið skildi ekki molast niður. En það skemmdist mikið og tók það áhöfnina langan tíma að gera skipið fært til heimsiglingar.

Þegar Kópur fórst 12. október 1917 út af Selvogi var austlæg átt og vonsku veður. Óstöðvandi leki kom öllum að óvörum og varð ekki við neitt ráðið. Var talið að það væri afleiðing þess er skipið lenti í ísskrúfunni. Skiphöfnin á Kóp var Andrés Guðmundsson, skipstjóri, Einar Magnússon, stýrimaður, Skúli Einarsson, vélstjóri, Ólafur Jóhannesson, vélstjóri, Steindór Ingimundsson, matsveinn, Jón Guðmundsson, háseti, bróðir skipstjóra, Jakob Gíslason, háseti, Árni Dagbjartsson, háseti og Valdimar Kristjánsson, háseti. Áhöfnin komst frá borði í stærri selabátnum sem var sex róinn, og náði landi eftir miklar mannraunir við Hvalbás, rétt austan við Seltanga. Settu þeir bátinn undan sjó upp á hraunstall sem tók við af fjörunni, báru grjót í og gengu trygglega frá öllu. Rúmlega 80 árum síðar hugaði undirritaður að hraunstallinum við Hvalbás, en þá var aðeins lítið hreytur eftir af bátnum. Þar á meðal þessi fjöl sem hér er. Einnig er til sýnis hlutabréf í félaginu um Kóp, ásamt 100 gömlum norskum selveiði og herriffli sömu gerðar og skipverjar á Kóp notuðu í upphafi við selveiðarnar. Selveiði saga Íslendinga var því stutt, aðeins tveir vetur. Kópur var fyrsta og eina selveiðiskipið sem Íslendingar hafa átt.

 Grímur Karlsson
Heimildir: Egill Ólafsson Hnjóti. Dr. Jón Dúason einn af hluthöfum,  Skútu öldin. Þrautgóðir á raunastund. Íslensk skip. 

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.