Fróði ÍS 454

Fróði ÍS 454

Líkan af bátnum   Fróði ÍS 454  smíðað af Grími Karlssyni.

Fróði ÍS 454 var smíðaður í Englandi árið 1922 úr stáli. 98 brl. 200 ha. 2 þjöppu gufuvél. Eigandi var Jóhann J. Eyfirðingur & Co. h/f, Ísafirði, frá 27. nóv 1925. Skipið var selt 23. des 1934 Þorsteini J. Eyfirðingi, Karvel Jónssyni og Jóni Jónssyni, Ísafirði. 30. jan 1941 var skráður einn eigandi Þorsteinn J. Eyfirðingur, Ísafirði. Árið 1941 var skipið lengt og mældist 123 brl. eftir það. 11. mars 1941, þegar skipið var statt 192 sjómílur suðvestur af Vestmannaeyjum, varð það fyrir árás frá þýskum kafbáti. 5 menn af áhöfninni létust af skotsárum og skipið stórskemmdist. 6 menn af áhöfninni sluppu lifandi úr þessari fólskulegu árás. Skipið strandaði á Vesturboða við Grundarfjörð 9. feb 1942 og eyðilagðist. 9 manna áhöfn skipsins bjargaðist á land heil á húfi.

 Árásin á Fróða ÍS 454

Þriðjudaginn 11. mars 1941 var línuveiðarinn Fróði ÍS 454 á leið til Englands með fiskfarm. Klukkan sex um morguninn þegar skipið var statt um hundrað og áttatíu sjómílur frá Vestmannaeyjum gerði þýski kafbáturinn U-74 árás á Fróða. Árásin stóð í klukkustund. 

Af ellefu manna áhöfn Fróða biðu 5 menn bana. Þeir voru Gunnar Árnason, skipstjóri, 33 ára, Sigurður V. Jörundsson, stýrimaður, 23 ára, Steindór Árnason, háseti, 38 ára, Gísli Guðmundsson,háseti, 34 ára, Guðmundur Stefánsson, háseti, 23 ára, auk þess særðist fyrsti vélstjóri, Sveinbjörn Davíðsson, fékk skot í báða handleggi. Fimm menn sluppu ósærðir úr árásinni: Guðmundur Einar Guðmundsson, háseti, Jón Guðmundsson, annar vélstjóri, Benedikt Halldórsson, Sverrir Torfason,  matsveinn og Jón Guðmundsson.

Um birtingu eða í ljósaskiptunum blésu skipverjar út af katlinum til að forðast ketilsprengingu, litlu seinna hætti árásin og er ekki ólíklegt að kafbátsforinginn, Eitel Friedrichs Kentrats hafi haldið gufuna vera reyk og álitið skipið búið að vera. Þótt skipið hafi verið mikið laskað tókst skipverjum á Fróða að komast af eigin rammleik til Vestmannaeyja. Fróði ÍS 454 var eina íslenska skipið sem lenti í árás kafbáts í stríðinnu og átti afturkvæmt heim.

Heimildir: Víkingur feb 1942, 2. tbl., Víkingur mars 1841, 3. tbl., Víkingur 1989, 5.-6. tbl., Faxi jólablaðið 1975,  Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1845.

Vígdrekar og vopnagnýr,  Íslensk skip eftir Jón Björnsson.

Þegar smellt er á myndirnar hér fyrir neðan birtast stærri myndir.