Opnun sumarsýninga

Verið velkomin á opnun sumarsýninga Listasafns og Byggðasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum laugardaginn 4. júní kl. 14.00.

Sýning Listasafnsins ber heitið Mannfélagið. Þar má sjá verk eftir 21 listamann, aðallega málverk, en einnig er þar að finna skúlptúr og ljósmyndaverk. Listamennirnir eiga það sammerkt að vinna með margháttaðar birtingarmyndir mannlegra samskipta, ýmist beint og umbúðalaust eða með táknrænum hætti.

Sjá má verk eftir Aðalheiði  S. Eysteinsdóttur, Aron Reyr, Ásgeir Bjarnþórsson, Ásgrím Jónsson, Baltasar, Barböru Árnason, Birgi Snæbjörn Birgisson, Finn Jónsson, Gunnar Karlsson, Gunnlaug Scheving, Helga Þorgils Friðjónsson, Hlaðgerði írisi, Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur, Karen Agnete Þórarinsson, Karólínu Lárusdóttur, Söru og Svanhildi Vilbergsdætur, Sigríði Melrós Ólafsdóttur, Sigurð Guðmundsson, Stefán Boulter, Tryggva Magnússon og Þórdísi Aðalsteinsdóttur. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.

Sýning Byggðasafnsins ber heitið Sögur úr bænum. Farið er yfir nokkra þræði úr sögu bæjarins allt frá landnámi og skoðað hvernig sögunni vindur fram. Staldrað er við nokkra þætti með hjálp safngripa Byggðasafnsins, t.d. eru skoðuð brot úr sögu leikskólans Tjarnarsels, sögu Guðna málara, Norðfjörðaættarinnar, Gagnfræðaskóla Keflavíkur og sveitarfélganna.

Sýningarnar standa til 21. ágúst 2016.