Saga húsanna

Duushúsalengjan

Duushúsalengjan samanstendur af röð merkilegra bygginga frá ýmsum tímum en elsta húsið, Bryggjuhúsið var byggt 1877 og það yngsta, aðalinngangurinn var byggður 2017. Segja má að þarna megi sjá 140 ára byggingarsögu í sjávarbyggð á Íslandi.

 

1877 Bryggjuhús     


Bryggjuhúsið er elsta húsið í Duushúsalengjunni. Það var byggt 1877 af Hans Peter Duus, forstjóra Duusverslunar. Húsið var mjög stórt á þeirra tíma mælikvarða, 250 m2 að grunnfleti og alls tvær hæðir og ris. Mikið er eftir af upprunalegu efni í húsinu sem eykur varðveislugildi þess. Húsið var byggt sem pakkhús eða lagerhús fyrir verslunina og var bryggja (Duusbryggja) byggð við húsið sem þá stóð á sjávarkambinum. Enn má sjá merki um þessa gömlu sögu í húsinu, m.a. er þar forn vatnsbrunnur,  og í risi stór vöruvinda sem notuð var til að hífa varning milli hæða.

1890 Bíósalur  

                                                                                                                                        

Húsið var í upphafi port sem síðar var byggt yfir og notað sem salthús. Salurinn telst einn elsti bíósalur landsins en árið 1927 innréttaði Elínmundur Ólafsson húsið fyrir kvikmyndasýningar og er bíóloftið enn til staðar í salnum. Það gegndi því hlutverki í 2-3 ár. Síðar var það notað til fiskverkunar. Árið 2006 var húsið endurbyggt sem fjölnota menningarsalur. 

1954 - Gryfjan, Listasalur og  Bátasalur

                   

 Þessi yngri hús Duushúsalengjunnar eru öll steinsteypt og voru byggð sérstaklega fyrir fiskverkun. Þau voru byggð við eldri húsin en þó ekki í röð. Elst þessara húsa er bátasalurinn byggður 1954 en hinir tveir salirnir eru byggðir síðar. Gryfjan er næst í aldri en Listasalurinn er yngst þessara húsa frá því um 1970. Erfitt hefur verið að fá nákvæmri ársetningar á þessi hús. Áður en húsin voru byggð var þarna skúrabyggingar sem notaðir voru til fiskverkunnar en líklega aðallega til beitninga og sem geymslur, kölluðust þeir einu nafni Lönguskúrar. Þessi þrjú hús eru þannig tæknilega séð ekki hluti af húsum Duusverslunar enda byggð eftir að sú verslun lagði upp laupana. Duusverslun keypti Keflavíkurjörðina árið 1848 og þegar verslunin var seld um 1920 þá fylgdi landið með í kaupunum. Fyrirtækið sem lengst af átti þessar eignir á 20 öld hét, Keflavík hf og gekk undir nafninu HF. Eigendur þess fyrirtækis voru þeir: Guðmundur Kristjánsson, Huxley Ólafsson og Finnbogi Guðmundsson.

1997 Kaffi Duus veitingastaður                                                                                                                                       

Veitingastaður samtengdur húsunum en í sjálfstæðum rekstri.  

 

Hús í næsta nágrenni 

1870 Gamla búð   

                                                                                                                                                     

Gamla búð stendur stök, sunnan við Duus Safnahús. Hún var byggð árið 1870 af Duusverslun og var þar m.a. rekin verslun eins og heiti hússins gefur til kynna. Verslun var á neðri hæð en kaupmaðurinn bjó á efri hæð. Húsið er einkum merkilegt fyrir þær sakir að það hefur haldist að mestu óbreytt frá fyrstu tíð. Grunnflötur hússins er um. 80 m2, á tveimur hæðum auk lítils kjallara. Nú er unnið að endurbyggingu hússins í samvinnu við Minjastofnun Íslands.

1882 Fischershús 

                                                                                                                                                         

Waldemar Fischer lét byggja þetta hús fyrir verslun sína og sem íbúðarhús árið 1882. Fischershús var þá talið fallegasta húsið á öllu Suðurlandi. Húsið var flutt hingað tilsniðið frá Danmörku, hver spýta var merkt áður en húsinu var pakkað niður og það síðan reist í Keflavík án þess að nokkur nagli væri notaður í grindina  en húsið var allt geirneglt. Árið 1900 var Fischersverslunin seld til Duusverslunar sem þá flutti starfsemi sína í húsið. Nú er unnið að endurbyggingu hússins í samvinnu við Minjastofnun Íslands.