Jólatrésskemmtun Duus
Jólatrésskemmtun í Duus
Fyrir um 100 árum stóð Duusverslun fyrir jólatrésskemmtunum fyrir börnin í þorpinu. Þá var öldin önnur og mörg börn sáu þar skreytt jólatré í fyrsta sinn á ævinni. Skemmtanirnar sem voru einstaklega veglegar voru haldnar frá því um aldamótin 1900 og um tuttugu ára skeið.
Upphafið að þessum jólaboðum má rekja til þess að hin danska frú Ása Olavsen, sem var eiginkona Ólafs Olavsens forstjóra og meðeiganda Duusverslunar bauð börnunum í Keflavík heim til sín í Fischershús einn sumarlangan sunnudag. Það var að vonum mikið ævintýri fyrir þau að vera hátíðlega boðin á fínasta heimili bæjarins. Marta Valgerður Jónsdóttir, sem ritaði greinar í Faxa um langt skeið með endurminningun sínum úr Keflavík, lýsir því hve vel frú Ása tók á móti þeim. Hún leiddi börnin til stofu þar sem kræsingar biðu þeirra og dreginn var fram lírukassi dansað var um allt hús. Þegar frú Ása kvaddi börnin sagði hún: „Ég ætla að muna eftir ykkur á jólunum.“
Og það gerði Ása, því næstu jól var börnunum búin fyrsta jólaveislan og prýddi þá salinn gullfallegt jólatré hlaðið fallegu skrauti og alls konar smá leikföngum sem skipt var á milli barnanna í veislulok.
Eftir því sem bærinn stækkaði, urðu veislurnar stærri og þá varð að taka í notkun stærsta húsnæðið sem völ var á, Bryggjuhúsið. Á neðsta gólfi var stór salur sem notaður var fyrir fiskgeymslu á sumrin. Hann var vandlega hreinsaður og þveginn áður en veislan skyldi haldin og stóru og miklu jólatré komið fyrir á miðju gólfi, en stoðir og veggir tjölduð dúkum.
Marta Valgerður lýsir einni skemmtuninni á þessa leið: „Það var mikil mannaferð á götum Keflavíkur veislukvöldið og allir, ungir og gamlir, stefndu til Bryggjuhússins, sem allt var ljósum prýtt, eins og kostur var á. Þegar hér var komið sögu, var öllum Keflvíkingum, ungum og gömlum, boðið til veislunnar, einnig Njarðvíkingum. Hátíðin hófst kl. 5 síðdegis. Byrjuðu þá börnin að dansa í kringum jólatréð, en flest fullorðna fólkið sat á bekkjum meðfram veggjum salarins og horfði á. Nokkrir fullorðnir voru þó með börnunum og báru yngstu börnin á handlegg sér. Fjórir menn stóðu við jólatréð og gættu að kertaljósunum og bættu nýjum kertum við eftir því sem þörf gerðist og var aldrei vikið frá trénu augnablik. Við og við var gert hlé á dansinum. Söfnuðust þá elstu börnin upp að orgeli, er stóð í einu horni salarins. Voru þá sungnir jólasálmar og ýmis önnur falleg kvæði, sungu börnin af hjartans list, enda voru þar margar fallegar raddir. Þá sungu börnin einnig nýtt kvæði á hverjum jólum, er hafði verið ort til frú Ásu og þeirra Olavsenshjóna. Lag og ljóð höfðu börnin vandlega æft og lært nokkur áður en hátíðin hófst.“ Oft voru ljóðin, sem ort voru, skrautrituð og send þeim Olavsenshjónum, einnig var þeim á síðari árum, sent símskeyti á sjálft hátíðarkvöldið.
Eitt þessara kvæða var sungið á þessari gleðisamkomu, eftir Guðmund Guðmundsson (kennara í Keflavík). Þetta eru fyrstu erindin:
(Lag: Ó blessuð vertu sumarsól)
Í barnsins sál er fólgið fræ,
í fyrsta vorsins morgunblæ
það blómagast, verður voldugt tré,
þar vinir finna hlé.
Á greinum þess sín ljúfu ljóð
mun lóan syngja um kvöldin hljóð,
og glæða öllum gleði hjá,
sem gleðja börnin smá.
Þið munið okkar auðu strönd,
sem ægir réttir kalda hönd;
þar raddir óma yfir höf
frá okkar feðra gröf.
Við erum fátæk, ofur smá,
en okkar dýpsta hjartans þrá
skal bera ykkur bljúg og klökk,
með blænum hjartans þökk.
Marta lýsir því einnig að í vesturenda Bryggjuhússins, hinum megin við ganginn (þar sem nú er anddyri), var stórt herbergi, sem sett var langborðum, þar var börnunum fyrst boðið til drykkju. Var þar veitt af mikill rausn súkkulaði og margs konar heimabakaðar kökur. Þegar börnin höfðu fengið nægju sína, var gamla fólkinu boðið til drykkju, en þar á eftir fengu allir kaffi og kökur, því að aldrei þraut hinar ágætu heimabökuðu kökur. Klukkan ellefu var farið að úthluta börnunum gjöfum og góðgæti af trénu, tók það að sjálfsögðu langan tíma, en klukkan tólf voru flest börnin ferðbúin til heimferðar. Eftir þann tíma tók unga fólkið við og dansaði oft til morguns. Elstu börnin fengu oft að vera dálítíð lengur, ef þau voru í fygld með fullorðnum, en þar kom að hátíðin rann sitt skeið og allir héldu heim, sælir og ánægðir yfir þessum yndislega sólarhring.
Jólatrésskemmtanir þessar sem frú Ása Olavsen stór fyrir voru haldnar um 20 ára skeið. Í upphafi voru þær ekki haldnar í Bryggjuhúsinu en ekki er vitað nákvæmlega hvar þær fóru fram. Ekki þó seinna en frá 1904 voru þær haldnar í Bryggjuhúsinu og til að gefa hugmynd um vinsældir skemmtunarinnar voru gestir um 300 talsins árið 1905.
Í dagblaðinu Ísafold 9. janúar 1904 er birtur kafli úr innsendu bréf um jólahaldið í Bryggjuhúsinu og er hann svohljóðandi:
„Á þriðja í jólum var hér jólatré fyrir börn í hinu stóra vörugeymsluhúsi Duusverzlunar (bryggjuhúsinu), og voru þar talsvert á annað hundrað börn. Er þessa vel vert að geta, þar eð hr. stórkaupmaður Ólafur Ólafsson og frú hans í Kaupmannahöfn, sem hér eiga verzlun, sendu nú, eins og að undanförnu, þetta fallega og stóra jólatré handa börnum hér í Keflavík. Voru á tré þessu alls konar ávextir (sælgæti), sem títt er á slíkum trjám, og var þeim skipt á milli barnanna; auk þess var öllum þessum stóra barnahópi gefið kaffi með alls konar brauði, og eftir það dönsuðu þau til kl. 12 um nóttina. Við Keflvíkingar erum þessum höfðingshjónum mjög þakklátir fyrir þessa fögru hugulsemi við okkur og börnin okkar og óskum þess, að þetta fagra dæmi þeirra megi vekja sem flesta kaupmenn í hinum mörgu smákauptúnum land vors til þess að gera hið sama."
Ári síðar, 9. febrúar 1905, berst blaðinu annað bréf um jólatrésfagnaðinn:
„Eins og að undanförnu (6-8 ár) létu þau stórkaupmaður Ó.Á. Ólafsson og frú Chr. F. Duus (eiginkona Duus yngra) systir hans í Kaupmannahöfn, efna til mikillar og fagurrar jólatrésskemmtunar og létu þangað bjóða öllum ófermdum börnum í Keflavík, með alls konar fagnaði. Og er það eftirtektarvert, að óviðkomandi menn skuli láta sér annt að gleðja svo börnin, jafnt ríkra sem fátækra, og verja til þess mörg hundruð krónum árlega, að ógleymdri þeirri viðleitni, sem bróðir þeirra, faktor Á. E. Ólafsson, hefir sýnt til þess að gera börnunum þetta tækifæri sem ánægjulegast.
Í lesbók Morgunblaðsins frá 23. desember 1973 skrifar Skúli Magnússon grein sem ber yfirskriftina Jólatré hjá Duus. Þar segir m.a. :
Gamall Keflvíkingur, Guðmundur Magnússon umsjónarmaður, hefur sagt mér, að á þessum skemmtunum Duusverzlunar hafi börnunum verið gefin leikföng, t.d. fengu strákarnir vagna og hesta og stelpurnar brúður. Var þetta innflutt frá Danmörku. Lengi munu leikföng þessi hafa verið til á heimilum hér í Keflavik, og að því er Guðmundur segir man hann til þess, að þau voru lengst til hjá hjónunum Guðmundi Kr. Guðmundssyni fiskmatsmanni og Þórunni Einarsdóttur. […] Fullorðnir voru heldur ekki skildir útundan í þessum fagnaði. Eftir að fólkið hafði etið nægju sína af kaffi og kökum og jólatrésskemmtunin var úti, skellti fólkið sér í dans og hamaðist fram undir morgun, en þá voru engin lög til, sem bönnuðu almenna dansleiki eftir kl. 2 að nóttu. Það var því engin furða þótt fólk hlakkaði almennt til þessarar skemmtunar, þar sem ekki var mikið um að vera í Keflavík þeirra daga, hvorki glymskratti né imbakassi þekktust þá og enn var síminn ókominn. Það voru því blöðin, sem opnuðu mönnum útsýn til heimsins. Er enginn vafi á því, að andrúmsloftið í Keflavík á milli hinnar hálfdönsku verzlunar og fátæks almúgafólks, sem þorpið byggði, hafi batnað vegna þessarar árlegu skemmtunar.
Allt er þó breytingum undirorpið; í lok ársins 1919 voru eignir verslunar H.P. Duus í Keflavík seldar og eftir áramótin var jólatrésskemmtunin haldin í síðasta sinn; eftir það var þessi geðþekki siður aðeins til í minningunni.
Heimildir:
Lesbók Morgunblaðsins 23. desmber 1973
Saga Keflavíkur 1890 – 1920, bls. 297-301
Keflavík í byrjun aldar, II bindi, Minningar frá Keflavík eftir Mörtu Valgerði Jónsdóttur, bls.451-454
Ísafold, 9. janúar 1904 og 9. febrúar 1905