LÍFANGAR

Leirlistakonan Arnbjörg Drífa Káradóttir opnar sýninguna „Lífangar" í stofu Duushúsa föstudaginn 7. febrúar kl.18:00.

Til sýnis verða verk unnin úr leir og postulíni, en innblástur þeirra er jörðin, jurtaríkið og dýraríkið. Form eru stílfærð út frá náttúrufyrirbærum og frjálslega túlkuð með blandaðri tækni. Tilraun er gerð til að ná fram hughrifum, ýmist á nærgætinn eða áleitinn hátt, frá hugarkyrrð til hræringa. Lífangi, listaverkið sem sýningin dregur nafn sitt af, er samsett úr nokkrum skúlptúrum og leitast við að laða fram augljósar tengingar við sjávar- og jurtaríki. Verkið er unnið úr postulíni og mun á leikandi hátt teygja anga sína út í rýmið.

Arnbjörg Drífa hefur unnið með leir í yfir tuttugu ár, hún er menntaður keramiskur hönnuður frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Drífa var í starfsnámi í Kaupmannahöfn hjá Christian Bruun 2016 – 2017. Hún er í hópi Raku-skvísanna sem koma reglulega saman og holu- og rakúbrenna leir og sýndu þær m.a. á Ljósanótt 2019. Drífa rekur eigin vinnustofu í Reykjanesbæ, þar sem hún leggur megin áherslu á rennslu bæði með postulín og steinleir. Lífangar er fyrsta einkasýning Drífu.

Sýningin stendur til 19.apríl.