WATRA - pólskir þjóðlagatónleikar
Hér er nokkuð sem unnendur þjóðlagatónlistar eða bara tónlistar almennt ættu alls ekki að láta framhjá sér fara.
Sunnudaginn 2. júní kl. 15 býðst okkur einstakt tækifæri til að hlýða á tónleika með pólska þjóðlagahópnum WATRA sem kemur hingað til lands á vegum pólska sendiráðsins á Íslandi í tilefni þess að 30 ár eru liðin frá því að Jóhannes Páll páfi II heimsótti Ísland árið 1989. Tónleikarnir fara fram í Bíósal Duus Safnahúsa og eru allir velkomnir. Aðgangur á tónleikana er ókeypis.
WATRA flokkurinn kemur úr fjallaþorpinu Czarny Dunajec og leikur þjóðlagatónlist frá Podhale og Carpathian héruðum Póllands. Stjórnandi er Stanislaw Bukowski. Á þrjátíu ára starfsævi flokksins hefur hann haldið meira en 500 tónleika í Póllandi, Svíþjóð, Úkraínu, Austurríki, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku. Flokkurinn er jafnan skipaður 12 tónlistarmönnum og munu fimm þeirra koma fram á Íslandi 1. og 2. júní við þetta tilefni.
Þjóðlagahópurinn kemur fram þennan sama dag í kaþólskri messu á Ásbrú en sóknarkirkjan þar er einmitt kirkja heilags Jóhannesar Páls II og starfar undir vernd hans en páfinn var tekinn í dýrlingatölu þann 27. apríl 2014.