Teikn

Sýningarár Listasafns Reykjanesbæjar árið 2019 byrjar á einkasýningu á verkum Guðjóns Ketilssonar myndlistarmanns. Sýningin nefnist „Teikn“ og er samsett úr 8 verkum sem öll fjalla með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur“ í víðasta skilningi þessara orða. Listamaðurinn hefur unnið jöfnum höndum að gerð þrívíddarverka og teikninga eins og sjá má á sýningunni. Verk hans eru hvorttveggja í senn völundarsmíði og hugleiðingar um tilvist manns, þau spor sem hann markar sér í raunheimi með gjörðum sínum og þær aðferðir sem hann notar til að gera sig skiljanlegan í menningarlegu nærumhverfi sínu. Mörg helstu verka Guðjóns eru uppfull af vísbendingum, táknum og tilvitnunum sem mynda eins konar huglæg rými sem áhorfandinn gerist þátttakandi í og upplifir á eigin skinni. Verkin á sýningunni „Teikn“ eru einmitt þess eðlis.

Guðjón er með allra markverðustu myndlistarmönnum þjóðarinnar og hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í samsýningum um allan heim. Hann hefur hlotið margar opinberar viðurkenningar og gert verk sem finna má í á opnum svæðum á ýmsum stöðum. Hann tók m.a. þátt í samsýningunni „Þríviður“ í Listasafni Reykjanesbæjar árið 2008, en sú sýning var kjörin ein af bestu listsýningum þess árs af fjölmiðlum. Verk hans er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins. Er okkur það mikil ánægja og heiður að fá hann með verk sín hingað suður í Reykjanesbæ og vil ég þakka honum frábært samstarf.  Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, en auk hans ritar skáldið Sjón hugleiðingu um „fundið myndletur“ Guðjóns í sýningarskrána þar sem Sjón grennslast fyrir um hugsanlegan boðskap þess og er þeim báðum þakkað þeirra framlag.

 

 

Teikn

„Rýmið hefur sín eigin gildi, rétt eins og hljóð og ilmur eiga sér liti og tilfinningar hafa þyngd.“ (Claude Levi-Strauss – Tristes Tropiques, bls. 154)

Ef undanskilin er upplausn hins gegnheila efnis, massans, þá er fátt sem hefur haft eins mikil og víðtæk áhrif á þrívíddarmyndlist síðustu áratuga eins og virkjun hins huglæga rýmis, sem er eitt af áhugaverðari eftirhreytum hugmyndalistarinnar. Þannig hafa áherslur flust frá merkingarbærum hlutum, ýmist hand-og hugverkum listamannsins eða tilfallandi tilnefningum hans  (sjá Duchamp), til rýmissins sem umlykur hlutina. Við þetta breytist rýmið í eins konar leikmyndir, sem ekki drepa á dreif þýðingu og áhrifamætti upprunalega hlutarins, eins og oft gerðist á blómaskeiði naumhyggjunnar, heldur mynda tilfinningaleg segulsvið með margþættu ívafi út frá honum. Sjálfur hluturinn í þungamiðju verksins – eða hlutamengið, ef um er að ræða innsetningu – felur ekki í sér sjálfstæða heild eða endanlegar niðurstöður, heldur er hann/það eins konar leiðarhnoða, margræð vísbending, sem varpað er út í tómið, áleiðis til viðstaddra.

Sem myndlistarmaður hefur Guðjón Ketilsson verið svo rækilega bendlaður við efnisheiminn, einkum og sérílagi aðskiljanlegar náttúrur trjáviðar, að farist hefur fyrir að skoða hve haganlega hann skapar verkum sínum huglæga rýmd. Grunnur þessarar rýmdar lagður, a.m.k. að stórum hluta, með hreinu og kláru handverki, nostursamlegri uppröðun eða meðhöndlun drumba, kubba og spýtna, grófri úrvinnslu þeirra, mótun og loks fágun yfirborðsins. Handverkið er Guðjóni nauðsyn; hann líkir því á einum stað við fornleifarannsóknir þar sem jarðlög eru fjarlægð uns eftir stendur einhver merkingarbær vísbending, væntanlega um eðlisþætti, aðlögunarhæfni og „dulda“ merkingu efnissins sem hann er með undir höndum. En hér á líka við það sem heimspekingurinn Adorno sagði um gott handverk: Þótt það sé forsenda góðs listaverks, dregur það aldrei athyglina að sjálfu sér. Í staðinn gerir það myndlistinni í verkunum kleyft að njóta sín til fullnustu.

Því má kinnroðalaust kalla verk Guðjóns hvorttveggja völundarsmíði og hugleiðingar um tilvist manns, þau spor sem hann markar sér í raunheimi með gjörðum sínum og þær aðferðir sem hann notar til að gera sig skiljanlegan í menningarlegu nærumhverfi sínu. Í nær öllum tilfellum stöndum við andspænis verkum sem ekki fela í sér gjörvalla merkingu sína, sem er í meginatriðum það sem málverkið gerir, heldur eru þau uppfull með vísbendingum, táknum og tilvitnunum – teiknum - sem mynda rými sem við göngum inn í og upplifum, smám saman, á eigin skinni.

Í verkum Guðjóns er skipan þessa rýmis aðallega tvenns konar. Annars vegar eru verk grundvölluð á fjarveru hlutanna, hins vegar mikilli nærveru þeirrra. Gott dæmi um hið fyrrnefnda eru tréskurðarmyndir hans (2000) út frá frægu 16 aldar málverki Peters Breughels eldra, Bændabrúðkaupið. Guðjón gerir eftirmyndir af höfuðfötum allra þátttakenda í málverkinu og raðar þeim saman á vegg með hliðsjón af upprunalegri staðsetningu þeirra í málverkinu. Hér verður fjarvera þeirra til þess að vekja með okkur meðvitund um hið horfna, líkamann, okkar eigin og annarra, og hvernig hann bregst við félagslegum og trúarlegum aðstæðum á hverjum tíma, smb. stéttaskiptinguna sem birtist í höfuðfötunum sem Breughel notar. Á endanum vekur verkið með okkur efasemdir um eignarhald okkar á líkamanum; hvort við eigum nokkuð í honum, heldur séum bara með hann að láni örstuttan tíma, eins og hvert annað höfuðfat.

Nokkur önnur verk Guðjóns, t.d. Yfirborð/Mannvirki (2011), verða síðan virk fyrir gnægð hlutanna, ekki fjarveru. Í því verki, samsafni trékassa og fundinna skápa úr ljósum viði, er búin til sérkennileg rýmd þar sem skarast makró-rými húsagerðar og míkró-rými aðskiljanlegra húsgagna og hirslna, þar sem sérhvert rými innan heildarinnar á sér eigin sögu og tíma. Sérhver eining er bæði lík og ólík öðrum einingum, og þessi núningur hins þekkta og óþekkta hreyfir við viðmiðum og vitund áhorfandans og skapar spennu milli hans og verksins.

Í sal Listasafns Reykjanesbæjar stendur Guðjón nú að eins konar yfirliti, sem þó er ekki „yfirlitssýning“ í hefðbundnu tilliti. Sýningin er sérstök að því leyti að listamaðurinn kýs ekki að draga saman gjörvallan feril sinn, heldur að tengja á milli nokkurra nýlegra „teiknaðra“ veggmynda og gólfverka frá síðustu árum. Tengslin árétta hugmyndalegt samhengi í myndlist Guðjóns milli teikninga hans, relief-verka og þrívíddarverka, um leið og áhorfandinn er dreginn inn í myndheim þar sem unnið er út frá skriftáknum, merkingu þeirra og menningarlegri virkjun. Og ef þetta hljómar eins og fræðilegur úrdráttur, verður ekki nógsamlega áréttað hve gjöfull, ófyrirsjáanlegur og skáldlegur þessi myndheimur er þegar inn í hann er gengið.

Í heild sinni kalla þessi verk á tvískiptingu sýningarinnar. Teiknuðu verkin liggja eftir endilöngum veggjunum, þrívíðu verkin eftir salnum endilöngum. Þau fyrrnefndu mynda grafíska klasa sem minna okkur á það hve mjög bæði skrift og teikning eru upp á rýmið og „óvissuna“ komin, ekki síður en þrívíddarverk. Í opnu rými salarins eru þau án upphafs og endis: takmarkalaus.  

Með ákveðnu skáldaleyfi mætti halda því fram að þessar veggmyndir drægju upp svipmynd af þróunarsögu skriftákna, þótt það hafi alveg örugglega ekki verið meðvitaður ásetningur Guðjóns. Umfangsmest á sýningunni er „náttúruletrið“, tilviljunarkennd skilaboð frá náttúrunni í formi tilklipptra hríslna sem listamaðurinn hefur hirt í garði sínum. „Skilaboðin“ hefur listamaðurinn málað með bláu bleki og raðað saman eins og hendingum í ljóðabálki. En hendingarnar fela ekki í sér neina frásögn eða framvindu, þær eru það sem Barthes hefði kallað „skrift við núllpunkt“.

Á næsta stigi, veggteikningunni um „Sköpunarsöguna“,  stöndum við andspænis skrift/teikningu sem er hrein og klár framvinda, en með tilvistarlegu ívafi. Þar ritar Guðjón á endilangan vegg – og í belg og biðu - sköpunarsögu fyrstu Mósebókar (fyrsta kafla), sem er ein af grunnstoðum kristnisögunnar og vestrænnar menningar. Hins vegar er ritun textans grundvölluð á nýrri formgerð, nýju grafísku tungumáli, sem felur í sér afbyggingu hans, en um leið myndræna nýsköpun. Sköpun og eyðing haldast í hendur, hringrás lífsins heldur áfram.

„Passíusálmar“ Guðjóns eru á endavegg hinu megin í salnum og kallast þannig á við „Sköpunarsöguna“ með margvíslegum hætti. Þeir eru í raun teiknaðir út frá sömu aðferð, að byggja og afbyggja í sömu andrá. „Sálmarnir“ urðu til í Róm, höfuðborg kristni og barokklistar, á föstunni árið 2016. Þar einsetti Guðjón sér að hylla texta séra Hallgríms Péturssonar, sem hann kallar „barokk okkar Íslendinga“, með því að skrifa upp sérhvern sálm á litla pappírsörk (17 x 24 sm), uns þeim hefði öllum verið gerð skil. Upprunalegur ásetningur Guðjóns var með konsept-ívafi, þar sem hann ætlaði sér að ljúka þessu mikla verki á níu vikum, tíma föstunnar. Á endanum var verkið 19 mánuði í vinnslu; fimmtugasta sálminn ritaði listamaðurinn á föstudaginn langa 2018 (30 mars). Hér er það textamagnið sem hrannast upp á hverri pappírsörk sem breytir hverjum sálmi í nær ólæsilega grafíska einingu, þ.e. texti verður mynd. Sálmarnir 50 eru hér innrammaðir og samtengdir, en listamaðurinn vinnur að því að gefa þá út á bók, sem er óneitanlega nýr kafli í þróunarsögu þessa verks. Texti verður mynd sem verður að bók.

Í báðum þessum verkum veltir Guðjón því upp hvort inntak þessara texta tapist fyrir fullt og fast með afbyggingu þeirra, eða hvort kynngi eða „ára“ þeirra verði eftir sem áður viðloðandi nýjar útsetningar þeirra.

Gólfverk Guðjóns eru síðan vistarverur ritlistarinnar í raunheimi. Að stofni eru þau endurgerðir skápar, kommóður og hirslur sem listamaðurinn hefur slípað til og hreinsað af skrauti, höldum og ýmsum aukaatriðum. Eftir standa frístandandi einingar sem innihalda/umlykja sértækar þrívíðar skrif-eða tákneiningar, sem í eðli sínu eru náskyldar áðurnefndum textamössum: bókastaflar, samsettar úr bókum sem rúnar hafa verið ytri einkennum sínum. Og þá má aftur spyrja: eru þessir bókhlaðar enn „læsilegir“ í einhverjum skilningi, eða rennur „bókmerking“ þeirra saman við formalisma/byggingarlist eininganna og skapar þannig ný viðmið? Víst er að í þessum verkum, eins og í svo mörgum öðrum verkum Guðjóns, er tæpt á leiðum til að endurmeta tengsl umhverfis og menningar.

Aðalsteinn Ingólfsson

FIMM ÞÝÐINGAR ÚR BÓKMENNTUM TRJÁA

Þegar ég þáði boð um að lesa úr trjámyndum Guðjóns Ketilssonar átti ég ekki von á að það yrði eins vandasamt og raunin varð. Ég treysti mér vel til verksins enda líktist það sem fyrir augu mín bar helst því af mannlegri sköpun sem nefnist ljóð: Raðir orða, stuttra og langra, í mislöngum línum sem saman mynda sjálfstæð erindi, styttri og lengri, sem oft tilheyra öðrum álíka löngum eða stuttum. Og þar sem ljóð eru eitthvað sem ég hef fengist við í rúm fjörutíu ár sem lesandi, skáld og þýðandi, tók ég ótrauður til starfa.

Það fyrsta sem ég þurfti að taka afstöðu til var sú staðreynd að áður en mér voru sýnd verkin hafði þegar verið unnið mikið starf í að ráða fram úr merkingu þeirra. Val Guðjóns á tilteknum sprekum, hvernig hann snýr þeim, hver hann lætur liggja saman, hversu mörgum hann raðar í eina línu og heild, liturinn sem hann málar þau með — allt beindi það túlkuninni í ákveðinn farveg um leið og það hlaut að setja mér skorður. En þar sem Guðjón hefur átt í lengri og nánari samskiptum við tré en flestir samtímamenn okkar varð niðurstaða mín sú að treysta í einu og öllu þessari frumvinnslu hans á efniviðnum.

Annað sem lét mig staldra við var að upptylling sprekana á hvítan vegg lokar á fullkomlega þrívíða sýn á „orðin“ — sem við nánari skoðun gátu verið stakir bókstafir eða heilar setningarnar, jafnvel málsgreinar og kaflar, stundum myndletur og táknmálsskýringar — en þar bættu úr skák skuggarnir sem ég ákvað að nota til þess að dýpka skilning minn og telja til merkingar- og/eða áhersluauka. Það má svo velta fyrir sér hvort texti af því tagi sem hér um ræðir verði aðeins skilinn til fulls (maður má láta sig dreyma) með því að farið sé um hann höndum.

Kannski var það hinn blái litur „orðanna“ sem gerði mig full bjartsýnan í upphafi. Hann kallaðist á við blátt blek pennans sem ég skrifaði með í barnaskóla. Það var eitthvað róandi við minninguna þótt samband okkar sjálfblekungsins hafi ekki alltaf verið sem best — þegar mér verður hugsað til hans verður fingurgómur vísifingurs hægri handar blár og handarjaðarinn líka — og ég sá fram á ljúfan eftirmiðdag í desembermánuði þar sem ég mundi eiga ánægjulega snúið en yfirvegað samtal við „ljóðin“ fimm sem listamaðurinn hafði valið mér úr safni sínu.

Við þýðingarnar sjálfar var ekki við margt að styðjast, engar orðabækur fundust, hvorki á íslensku né öðrum málum  — og þannig hlýtur starf brautryðjandans ávallt að vera —  en án þess innblásturs sem orðsifjafræði dr. Alexanders Jóhannessonar og verk prófessors Finns Magnússonar um rúnaristurnar í Runamo veittu mér hefði ég sennilega gefist upp. Á endanum reyndust „ljóðin“ vera mun flóknari og fjölbreyttari „bókmenntir“ en ég hafði búist við og þýðingarstarfið varð æ strembnara eftir því sem mér fór fram í málinu. Að því leiti var það eins og aðrar skriftir.

En ætli ég hafi ekki átt von á einhverskonar náttúrulýrík af japanska skólanum, einhverju tæru og þakklátu? Þar vanmat ég trén — og Guðjón Ketilsson, þeirra kæra vin.


A)

höfuð skilið frá bol

hin dauðu koma engum til bjargar

hálfur bolur, rótfastur sjóndeildarhringur, barn

þar sem við bjuggum vex lítið af miklu, börn okkar sofa í moldinni

óvæntur gestur birtist, sest um kyrrt

vestanvindur,  jarðlögum flett, erfiðisdagar 

bolur leitar nýs höfuðs

 

B)

(keðjusöngur)

áfram! syndum

syndum systur — syndum með ströndum

fram með ströndum!

til baka! ósigraðar til baka

syngjum systur

áfram! syndum — til baka / til ykkar

 

C)

Lesið neðan frá, frá hægri til vinstri. Saman mynda „stafirnir“

eitt nafnorð í kvenkyni, eintölu: „Vélbrúður“.

 

D)

líf — ísbreiða

klökknar og sundrast

aldingarðar — ský

 

af hafi til himins

fylgdu mér upp fyrir skýin

sól brennur í djúpi

 

E)

Þetta er inngangur að verki um fuglafræði eins og hún snýr við trjám. Inngangurinn er í þremur bindum. Sjálft fræðiverkið er sagt mun lengra, margir hillumetrar ef miðað er við mennskar bækur. Hér er ekki pláss nema fyrir stutt yfirlit. Fyrsta bindi segir frá því hvernig trén sköpuðu fuglana eftir að hafa sjálf orðið til í eldingaveðri. Í öðru bindi er rakin saga fuglafræði meðal trjáa og gerð grein fyrir helstu ritum fram að útgáfu þessa. Þriðja bindi fjallar um tilurð verksins og höfunda þess. Nýstárlegt flokkunarkerfi þeirra virðist hafa mætt andstöðu eldri fræðinga. Víða gætir fordóma í garð tiltekinna fuglategunda.

Sjón