Taktu jólamyndina í Bryggjuhúsinu
Frá 1. desember stendur fjölskyldum til boða að taka jólamyndir af börnunum eða fjölskyldunni allri í uppábúinni gamaldags jólastofu.
Bryggjuhúsið var byggt árið 1877 og þar voru upp úr aldamótum haldnar jólatrésskemmtanir fyrir bæjarbúa um 20 ára skeið. Það var kaupmannsfrúin, hin danska frú Ása Olavsen, sem stóð fyrir skemmtununum sem í upphafi voru jólaboð fyrir börnin í þorpinu og haldin voru heima í stofunni hennar í Fischershúsi. Brátt sprengdu þau utan af sér húsnæðið og voru þá flutt yfir í Bryggjuhúsið og voru stórviðburðir á þeim tíma, þar sem allt upp undir 300 börn úr þorpinu og nágrannaþorpum komu saman og sáu þá mörg þeirra jólatré í fyrsta sinn.
Það er í anda þessa tíma sem við bjóðum bæjarbúum til stofu og gefum þeim kost á að taka fallegar jólamyndir sem má nota til að senda ættingjum og vinum rafrænar jólakveðjur.
Verið velkomin!