SÖGUR ÚR SAFNASAFNI

Nýtt starfsár safnsins hefst með opnun þriggja sýninga föstudaginn 7.febrúar kl. 18. Það telst til nokkurra tíðinda að aðalsýning safnsins samanstendur af verkum frá Safnasafninu á Svalbarðsströnd en safnið fagnar í ár 25 ára afmæli sínu með ýmsum hætti. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Hálfdan Ármann Björnsson, Jón Eyþór Guðmundsson, Sæmundur Valdimarsson og Sigurður Einarsson. Þeir þrír fyrst nefndu má segja að séu afkomendur fornrar tréskurðarhefðar og í verkum þeirra renna saman fjörlegir hugarheimar þeirra og íslensk alþýðumenning, frásagnir af óvæginni lífsbaráttu almúgafólks og tilraunum þess til að gera sér lífið bærilegra með frásögnum af „kynlegum kvistum“ og íbúum í álfabyggð. Málverk Sigurðar Einarssonar  umlykja þessar veraldarsýnir þrívíddarlistamannanna, uppfull með síkvikt samspil mannsækinnar náttúru og náttúrutengds mannlífs, ekki ósvipað því sem við sjáum í málverkum Jóhannesar Kjarvals. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur.