Skreytum saman í Bryggjuhúsi

Sunnudaginn 26. nóvember frá kl. 14 – 16 er fjölskyldum boðið að stíga út úr amstri hversdagsins og njóta þess að koma saman í Bryggjuhúsi þar sem búin verða til kramarhús, jólahjörtu og músastigar og salurinn skreyttur. Helgina 2. og 3. desember verður síðan haldið gamaldags jólaball í anda Duusverslunar.


Fyrir um 100 árum síðan stóð Duusverslunin, sem þá var starfrækt, fyrir jólatrésskemmtunum fyrir bæjarbúa í Bryggjuhúsi sem er elsta húsið í Duushúsalengjunni. Allt upp undir 300 börn komu þar saman og dönsuðu í kringum jólatréð og voru mörg þeirra að sjá þar jólatré í fyrsta sinn. 

Í fyrra var þessi saga rifjuð upp og haldið var gamaldags jólaball í Bryggjuhúsi. Helgina áður var boðið upp á föndurstund þar sem fjölskyldur föndruðu skreytingar á jólatréð og í salinn en einnig til að taka með heim. Var þetta einstaklega vel heppnað og því verður leikurinn endurtekinn í ár.