Skrápur / Second skin

Sýningin fjallar um flótta og tilfærslur þjóða í heiminum. Nafnið Skrápur vísar í skjól sem líkaminn býr til sjálfur yfir tíma, fyrir utanaðkomandi áreiti. Einnig vísar orðið í skráp sem manneskjan kemur sér upp huga sínum til varnar. 

Báðir listamennirnir hafa gert málefni þjóðaflótta og átaka sem af því hlýst að umfjöllunarefni í fyrri sýningum.  

Híbýli eða skjól er sá rammi sem heldur uppi tilveru lista samkvæmt ástralska heimspekingnum Elizabeth Grosz. Í bók sinni Chaos, Territory, Art: Deleuze and the framing of the earth, frá árinu 2008, segir hún að skilgreindir kraftar eins og þjóðarsvæði rammi inn og dragi fram gæði annarra hluta eða atburða; Það er ramminn sem byggir upp innihald, efni í samskáldaða sögu þjóða.  

Ef land væri ekki rammað inn, þá væru ekki til nein yfirráðasvæði. Það myndi ekki koma í veg fyrir það að hlutir væru til, en þeir hefðu ekki sömu merkingu og væru án sjálfstæðrar tjáningar sem væri fær um að magna og breyta hinum lifandi líkama. Afmörkun yfirráðasvæðis gerir það að verkum að litir, áferðir, taktur, massi og þyngd fá aðra merkingu innan síns afmarkaða svæðis. Þetta gerir þeim mögulegt að hafa áhrif á manneskjuna, koma af stað hughrifum sem eru dregin út frá svæðinu sem, þegar best lætur, verður túlkað á sviði lista. 

Listasafn Reykjanesbæjar er staðsett við alþjóðaflugvöll Íslendinga sem gerir Reykjanesbæ að fjölmennasta landamærabæ landsins. Íbúasamsetning bæjarins er sú fjölmenningarlegasta á Íslandi en um 30% íbúa með fasta búsetu eru erlendir, einnig tekur Reykjanesbær á móti flóttamönnum með stórtækari hætti en flest önnur bæjarfélög á landinu. 

Með umhverfi bæjarfélagsins í huga ákvað safnstjóri að setja upp sýningu sem fjallar um hugmyndina að leita skjóls. 

Verk eftir Igor Antić, á sýningunni Skrápur, er unnið í samvinnu við Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum. 

Sýningin stendur til og með 30. janúar 2022. 

Sýningarstjóri er Helga Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar. 

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.  

 

Igor Antić (1962) kannar hugtök í staðbundnum (e. site-specific) verkum, innan tiltekins samhengis sem getur verið pólitískt, efnahagslegt, menningarlegt og samfélagslegt. Verkin birtast í mismunandi miðlum, eins og ljósmyndum, myndböndum og innsetningum. 

Antić hefur haldið fjölmargar einkasýningar og verið valinn til þáttöku á samsýningar víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Þar á meðal hefur hann áður sýnt á Íslandi í Nýlistasafninu á sýningunni Polylogue 158 árið 1999. Antić var sýningarstjóri Values: 11th Biennial of Visual Arts í Pancevo, Serbíu, árið 2004. 

Antić nam myndlist á árunum 1984–1991, við Novi Sad Academy of Fine Arts, Serbíu, École Nationale Supérieure des Beaux-Arts, París, og Institut des Hautes Etudes en Arts Plastiques, París. Árið 1995 stofnaði hann Pokret Encounter Centre í Novi Sad, Serbíu, hreyfingu listamanna á stríðstímum. Antić hefur unnið til ýmissa verðlauna m.a. hlaut hann The Pollock-Krasner Foundation’s Grant í New York árið 2000. Antić er fæddur í Novi Sad, Serbíu, hann býr og starfar í París.