Próf / Tests
Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 31. ágúst kl. 18:00 ásamt öðrum sýningum í Duus Safnahúsum og eru allir hjartanlega velkomnir.
Myndlistarsýning Fríðu Dísar Guðmundsdóttur, myndlistar- og tónlistarmanns en hún er ef til vill mörgum kunn fyrir hlutverk sitt sem söngkona hljómsveitarinnar Klassart.
"Á sýningunni Próf/Tests er að finna 57 olíumálverk, öll í sömu stærð og í tveimur litum: hvítum og rauðum. Fyrirmynd málverkanna eru 57 þungunarpróf. 56 verkanna eru með einu rauðu lóðréttu striki á hvítmáluðum striga og liggja þau líkt og rauður þráður í gegnum sýninguna en 57. verkið sker sig úr enda sýnir það tvö rauð, lóðrétt strik. Hvert málverk táknar einn mánuð í því 57 mánaða ferli sem það tók okkur hjónin að verða barnshafandi. Málverkin bera því heiti þess mánaðar og árs sem hvert þungunarpróf var tekið, allt frá febrúar 2012 til októbers 2016. Verkin eru persónuleg en um leið lýsa þau reynsluheimi margra. Sýningin Próf/Tests er fyrst og fremst hugsuð til að finna tilfinningum og erfiðri reynslu farveg og í leiðinni vekja athygli á málefnum sem varða ófrjósemi í formi myndlistar."