Opnun nýrra sýninga og afhending menningarverðlauna, Súlunnar

Listasafn Reykjanesbæjar opnar samsýninguna LÍKAMI, RÝMI OG EFNI í Listasal Duus Safnahúsa. Á sýningunni eru leiddar saman myndlistarkonurnar Eygló Harðardóttir, Ólöf Helga Helgadóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir. Það sem tengir þær helst er afar sterk efniskennd og hvernig verk þeirra hverfast um lögmál myndlistar, forms, lita, rýmis og tíma. Sýningarstjórinn Inga Þórey Jóhannsdóttir og myndlistarkonurnar verða með leiðsögn 25. nóvember kl.15.00. Sýningin stendur til 13. janúar 2019.

Byggðasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna VIÐ MUNUM TÍMANA TVENNA í Gryfjunni í Duus Safnahúsum. Sýningin er sett upp til að minnast þess að nú eru 40 ár liðin frá því að bæjarstjórnir Njarðvíkur og Keflavíkur ákváðu að setja sameiginlega á stofn byggðasafn. Á sýningunni er farið yfir tildrög og sögu safnsins, en ekki síður er vakin athygli á mikilvægu starfi byggðasafns í veröld og samfélagi sem breytist ört. Sýningin stendur til 23.apríl 2019.

Ljósmyndasýningin LJÓS OG NÁTTÚRA REYKJANESS verður opnuð í Bíósal Duus Safnahúsa. Myndefnið er landslag og náttúra Reykjanesskagans á síðustu tveimur árum. Ljósmyndarinn Jón Rúnar Hilmarsson verður með leiðsögn 21.nóvember 15.00-17.00.

Formaður menningarráðs Reykjanesbæjar Elfa Hrund Guttormsdóttir opnar sýningarnar. Við sama tækifæri afhendir bæjarstjórinn, Kjartan Már Kjartansson menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna, fyrir árið 2018. Þá verður styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur færðar þakkir fyrir sitt framlag.

Safnið er opið alla daga 12.00-17.00.