Opnun afmælissýninga
Listasafn Reykjanesbæjar opnar í tilefni 15 ára afmælis safnsins þrjár sýningar í Duus Safnahúsum föstudaginn 1. júní kl. 18:00. Verkin á sýningunum þremur koma öll úr safneigninni og hafa flest komið inn á síðustu árum. Verkin eru af margvíslegu tagi, s.s. olíuverk, vatnslitamyndir, skúlptúrar og grafík og eru eftir tæplega 60 samtíma listamenn. Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir.
Þá opnar Byggðasafn Reykjanesbæjar sýninguna "Hlustað á hafið" í einum sala Duus Safnahúsa en safnið verður 40 ára síðar á árinu. Sýningin fjallar um náin tengsl sjómanna árabátatímans við sjóinn og fórnir þeirra við að ná í gull hafsins, sem öllu máli skipti fyrir lífsafkomuna. Sýningarstjóri er Eiríkur Páll Jörundsson.
Mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir mun opna allar sýningarnar. Boðið er upp á lifandi tónlist og léttar veitingar.
Sýningarnar eru jafnframt sumarsýningar safnanna og eru opnar til 19. ágúst. Safnið er opið alla daga 12-17.