MYNDIR ÚR SAFNI BRAGA GUÐLAUGSSONAR OG FLEIRI NÝJAR SÝNINGAR

Listasafn Reykjanesbæjar opnar n.k. fimmtudag fjórar nýjar sýningar. Aðal sýning safnsins er á verkum úr safneign Braga Guðlaugssonar. Bragi, sem er veggfóðrarameistari, hefur um langt skeið safnað listaverkum af mikilli ástríðu. Um árabil hefur hann verið fastagestur á öllum myndlistarsýningum á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem hann sækir heim myndlistarmenn til að kaupa af þeim myndir, skiptist á myndum við aðra safnara og verslar að auki við uppboðshús heima og erlendis. Í fórum hans er því að finna mörg ágæt verk frá ýmsum tímum. Heildstæðast er þó safn hans af verkum eftir íslenska listamenn á tímabilinu 1930-1960, þegar myndlistin í landinu stóð frammi fyrir meiri breytingum en nokkru sinni fyrr.

Listasafn Reykjanesbæjar hefur fengið að velja úr þessu safni nokkrar myndir, aðallega olíumálverk, eftir þrettán listamenn sem endurspegla mikið umbrotaskeið íslenskrar myndlistar, þegar umfjöllun um veruleikann er smátt og smátt að víkja fyrir hugmyndinni um listaverkið sem sjálfstæðan veruleika. Þarna er aðallega um að ræða verkin sem kynslóð eftirstríðsáranna gerði í aðdraganda myndlistarbyltingarinnar sem kennd er við Septembersýningarnar 1947-52, sem sagt „Ágústmyndir Septembermanna“. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur.

Við sama tilefni verður opnuð sýning Elvu Hreiðarsdóttur, FÖR, verk unnin með blandaðri tækni og einþrykk. Þá verður opnuð sýningin PERSÓNULEGAR SÖGUR, ljósmyndir og vídeóverk unnin af listakonunni Venu Naskrecka og Adam Calicki í tilefni pólskrar menningarhátíðar í Reykjanesbæ. Sýningin fjallar um með hvaða hætti persónuleg tengsl geta myndast á milli fólks af ólíkum uppruna. Vena og Adam eru bæði frá Póllandi en eru nú búsett í Reykjanesbæ. Þá verða einnig til sýnis skemmtileg verk eftir Jönu Birtu Björnsdóttur sem ætlað er að vekja athygli á fjölbreytileikanum í mannlegu samfélagi með því að sýna notkun hjálpartækja í jákvæðu samhengi.

Við þetta sama tilefni verða menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súlan, afhent auk þess sem styrktaraðilum Ljósanætur verður þakkaður stuðningurinn.

Ókeypis aðgangur er við opnun. Sýningin Persónulegar sögur stendur til 24.nóvember en hinar til 12.janúar.