Mannfélagið

Laugardaginn 4. júní kl. 14.00 verður opnuð  sumarsýning Listasafns Reykjanesbæjar, sem að þessu sinni  ber heitið Mannfélagið.  Á sýningunni eru verk eftir 21 listamann, aðallega málverk, en einnig er þar að finna ljósmyndaverk og skúlptúr. Elstur þessara listamanna er Ásgrímur Jónsson (1876-1958), en yngstur Aron Reyr (f. 1974). Listamennirnir eiga það sammerkt að vinna með margháttaðar birtingarmyndir mannlegra samskipta, ýmist beint og umbúðalaust eða með táknrænum hætti. Sjónarhorn þeirra getur verið einkalegt, faglegt eða félagslegt.

Líta má á þessa sýningu sem eins konar framhald á hinni vinsælu sýningu Kvennaveldið, sem sett var upp í safninu í byrjun árs. Í báðum tilfellum er grennslast fyrir um hlutlæga myndlist á Íslandi, og hvað það er sem höfundar slíkra mynda vilja segja okkur um hugmyndir sínar og viðhorf.

Á þessari sýningu fjalla 10 konur og 11 karlmenn um samskiptamáta manneskjunnar  og  þær aðstæður  sem kveikja mannleg samskipti. Flestir listamannanna  virðast þeirrar skoðunar að Íslendingar myndi náin tengsl sín á meðal  fyrst og fremst gegnum sameiginlega iðju, vinnu eða tómstundir, fremur en brýna tilfinningalega þörf. En sýning af þessu tagi er ekki félagsfræði; fyrst og fremst vekur hún okkur til umhugsunar um tungumál og sýnileika tilfinninganna.

Flestar myndanna á sýningunni eru fengnar frá tveimur helstu söfnum landsins, auk þess sem listamennirnir sjálfir hafa lánað nokkrar myndir sem ekki hafa fyrr komið fyrir almennings sjónir. Á sumarsýningunni eru verk eftir Aðalheiði  S. Eysteinsdóttur, Aron Reyr, Ásgeir Bjarnþórsson, Ásgrím Jónsson, Baltasar, Barböru Árnason, Birgi Snæbjörn Birgisson, Finn Jónsson, Gunnar Karlsson, Gunnlaug Scheving, Helga Þorgils Friðjónsson, Hlaðgerði írisi, Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur, Karen Agnete Þórarinsson, Karólínu Lárusdóttur, Söru og Svanhildi Vilbergsdætur, Sigríði Melrós Ólafsdóttur, Sigurð Guðmundsson, Stefán Boulter, Tryggva Magnússon og Þórdísi Aðalsteinsdóttur. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson

Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duus Safnahúsum og þar er opið alla daga frá kl. 12.00-17.00.

 

Umsagnir um sýninguna

Íslensk myndlist er mannfælin. Að mestu leyti fjallar hún um landslag, dauða hluti eða huglæg hugðarefni myndlistarmanna, sennilega í meira mæli en í nágrannalöndum okkar. Portrettmyndir eru að sönnu hluti af íslenskum myndheimi  frá upphafi akademískrar myndlistar, en það er eðlismunur á þeim og  „mannamyndum“ eins og ég skilgreini þær, því portrett verða til fyrir félagslega nauðsyn og þrýsting, sjaldnast  listræna þörf. Þó geta þau auðvitað náð listrænum hæðum. Fyrir  mannamyndum er löng hefð í flestum Evrópulöndum: Danmörku, Noregi, Finnlandi, Bretlandi , Írlandi og Þýskalandi, ég nefni aðeins fjölskyldumyndir Gainsboroughs  í Bretlandi og hópmyndir dönsku Skagen-listamannanna.  Með mannamyndum á ég við myndir af fólki þar sem öll myndskipanin, uppröðunin í myndrýminu, fas, handahreyfingar og augnatillit, jafnvel klæðnaður og umgjörð, eru notuð til að gefa til kynna innbyrðis tengsl viðstaddra, hugsanir þeirra, tilfinningar, jafnvel  togstreitu tilfinninga. Í leiðinni er oftlega dregin upp mynd af hlutverki þessa sama fólks í hinu stóra mannfélagi.

Fyrir mannfælni  íslenskrar myndlistar eru vísast margar ástæður. Engin hefð er fyrir mannamyndum á borð við þær sem hér er lýst í eldri sjónlistum á landinu. Íslensk myndlist kemst síðan til þroska þegar allar aðstæður, einkum og sérílagi sjálfstæðisbaráttan, kölluðu á einingu myndistarmanna um afmarkað viðfangsefni, nefnilega íslenska náttúru, sem ásamt tungunni  skyldi vera sameiningartákn nýfrjálsrar þjóðar. Það er ekki fyrr en í kjölfar fullveldis, á úthallandi þriðja áratugnum og allan fjórða áratuginn, sem þéttbýlismenning og ný samfélagsleg vitund skapar grundvöll fyrir mannamyndir.  En þá er tæplega fyrir hendi kunnátta til sköpunar slíkra mynda, né áhugi fyrir þeim hjá hinni nýju íslensku borgarastétt, sem helst var fær um að kosta þær.

Engu að síður sjáum við fyrstu drög að íslenskum mannamyndum  einmitt um þetta leyti. En það er sennilega einkennandi fyrir ástandið hér – og kannski fyrir það sem kalla mætti íslenskan „þjóðarkarakter“, að í þessum myndum birtast okkur sjaldnast  nánir vinahópar, fjölskyldur eða viðskiptafélagar, heldur óskyldir einstaklingar sem sameinast tímabundið við einhverja iðju, heyskap, sjósókn, síldarsöltun eða vegavinnu. Nöfn eins og Gunnlaugur Blöndal og nafni hans Scheving koma upp í hugann. Mest er nálægð vinnufélaganna í tímabundnum hléum, yfir kaffi og skrínukosti. Ekkert í þessum myndum bendir þó til náinna tengsla þeirra þess utan.

Á seinni árum hafa mannamyndir  einnig átt undir högg að sækja í samhengi íslenskra sjónlista, þar sem myndlistarþróunin  hefur verið á skjön við hvorttveggja hlutlæga málaralist og félagslega/sálfræðilega  virkjun myndlistar.  Helst er von til þess að listljósmyndarar, og þá helst þeir sem vinna í stóru sniði, finni hjá sér hvöt til að vinna á þessum „manneskjulega“ grundvelli.

Á sumarsýningu Listasafns Reykjaness 2016 eru dregin saman nokkur málverk, ljósmyndaverk og  eitt skúlptúrverk sem sýna viðleitni  íslenskra myndlistarmanna, lífs og liðinna, til að draga upp myndir af mannlegum samskiptum, annað hvort beint og umbúðalaust eða með misjafnlega táknrænum hætti, í samhengi sem er ýmist einkalegt, faglegt eða félagslegt. Nokkur þessara verka hafa ekki áður komið fyrir almennings sjónir.

Umsagnaraðili - Aðalsteinn Ingólfsson