Listahátíð barna í Reykjanesbæ - fjölskyldudagar

Í tilefni Listahátíðar barna í Reykjanesbæ verða fjölskyldudagar helgina 28. - 29. apríl.

Laugardaginn 28. apríl verður boðið upp á skemmtilegan fjölskyldudag á svæðinu í kringum Duus Safnahús með alls kyns listasmiðjum og uppákomum. Skessan í hellinum verður auðvitað í hátíðarskapi og hrærir í lummusoppu og býður gestum og gangandi upp á rjúkandi lummur og Sóla tröllastelpa spjallar við börnin og gefur þeim blöðrur. Auk þess verður hægt að taka þátt í ratleik, Sirkus Íslands kemur í heimsókn, skátarnir ætla að grilla pylsur, tívolítæki verða á staðnum og í lok dags verður sérstök gleðistund með dýrunum í Hálsaskógi.

Á sunnudag, 29. apríl, verður blásið til skemmtilegra fjölskyldutónleika með poppívafi í Stapa. Þar mun Tónlistarskóli Reykjanesbæjar í samstarfi við Magnús Kjartansson dusta rykið af gömlum og góðum barnalögum sem eiga rætur sínar að rekja til Suðurnesja með einum eða öðrum hætti en Magnús var öflugur þegar kom að útgáfu slíkrar tónlistar á árum áður m.a. í samstarfi við barnastjörnuna Ruth Reginalds. Magnús tekur þátt í tónleikunum sem þýðir bara eitt, að þetta verður stórskemmtilegt. Ókeypis aðgangur er á tónleikana og allir velkomnir.

Dagskrá helgarinnar má nálgast hér.