Listahátíð barna í Reykjanesbæ
„Hreinn heimur – betri heimur“ á Listahátíð barna í Reykjanesbæ
Skessan í hellinum býður til fjölskyldudags laugardaginn 4. maí
Listahátíð barna í Reykjanesbæ verður sett með pompi og prakt í fjórtánda sinn fimmtudaginn 2. maí. Hátíðin er samvinnuverkefni Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins, allra 7 grunnskólanna, Tónlistarskólans, dansskólanna Bryn Ballett Akademíunnar og Danskompanís og listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Duus Safnahús undirlögð
Duus Safnahús verða undirlögð undir listsýningar leik-, grunn- og listnámsbrautar framhaldsskólans sem hafa unnið hörðum höndum stóran part úr vetri að verkefnum sínum. Yfirskrift sýninganna í ár er Hreinn heimur – betri heimur og hafa krakkarnir kafað ofan í viðfangsefnið og fræðst um nýtingu, endurvinnslu, grænu tunnuna, plastnotkun og fleiri af þeim brýnu málefnum. Verkefni þeirra var að sjá fyrir sér hreinni heim – betri heim og verður áhugavert að sjá lausnir þeirra settar fram á listrænan hátt.
Fjölskyldudagur laugardag
Margt verður til skemmtunar laugardaginn 4. maí þegar boðið verður upp á skemmtilegan fjölskyldudag á svæðinu í kringum Duus Safnahús og víðar með listasmiðjum og margvíslegri skemmtidagskrá. Skessan í hellinum verður auðvitað í hátíðarskapi og hrærir í lummusoppu og býður gestum og gangandi upp á rjúkandi lummur og Fjóla tröllastelpa spjallar við börnin. Auk þess verður skapað risastórt útilistaverk úr „rusli“, hægt að taka þátt í ratleik, Sirkus Íslands kemur í heimsókn, skátarnir grilla pylsur, boðið verður upp á Fortnite danskennslu, pop-up leikvöll og leiksýningu um Siggu og Skessuna svo eitthvað sé nefnt.
Á sunnudeginum verða sýningar áfram opnar auk þess sem sýndar verða örmyndir barna, á tjaldi í Duus safnahúsum, en örmyndasamkeppni fyrir börn fór fram í tengslum við hátíðina. Verðlaunamyndir úr þeirri keppni verða einnig sýndar í sjónvarpsþættinum Suðurnesjamagasín sem sýndur er á Hringbraut.
Hæfileikahátíð grunnskólanna
Fimmtudaginn 9. maí fer svo fram Hæfileikahátíð grunnskólanna í Stapa þar sem úrval stórglæsilegra árshátíðaratriða úr öllum grunnskólum bæjarins verða sýnd fyrir fullu húsi.
Ýmsir fleiri viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar sem stendur til 19. maí og má nálgast upplýsingar um þá á facebook síðunni Listahátíð barna í Reykjanesbæ og á vefsíðunni reykjanesbaer.is og vert er að geta þess að ókeypis er á alla viðburði.
Ókeypis aðgangur í safnahúsin á meðan á sýningunni stendur.