Listahátíð barna í Reykjanesbæ

Listahátíð barna, sem nú verður haldin hátíðleg í 13. sinn, er samvinnuverkefni  Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins, allra 6 grunnskólanna, Tónlistarskólans, dansskólanna og listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Myndlistarsýningar tengdar hátíðinni eru staðsettar í Duus Safnahúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar.

 

Leikskólar

Á hverju ári er ný yfirskrift valin fyrir sýningu skólanna. Ýmis viðfangsefni hafa orðið fyrir valinu m.a. vináttan, hafið, himinninn, sögur og ævintýri, umhverfið, afmæli, tröllin og fjöllin og dýrin. Í ár ber sýningin heitið Börn um víða veröld og er viðfangsefnið hluti af starfi barnanna stóran hluta úr vetri. Í starfi sínu kafa börnin ofan í viðfangsefnið frá ýmsum sjónarhornum og afraksturinn birtist m.a. í glæsilegum skúlptúrum sem settir eru fram í formi listsýningar í samstarfi við Listasafn Reykjanesbæjar. Úr verður ævintýraheimur sem lætur hvorki fullorðna né börn ósnortin.

Sýningin er opnuð með formlegum hætti í Duus Safnahúsum fimmtudaginn 26. apríl kl. 10.30 að viðstöddum elstu börnum leikskólanna sem syngja þar söngva sérstaklega valda í tilefni sýningarinnar. Í tengslum við hátíðina verður boðið upp á listasmiðjur og skemmtiatriði fyrir börn og fjölskyldur laugardaginn 28. apríl. Listahátíðin sjálf stendur hins vegar til 13. maí. Daglega á meðan á henni stendur koma leikskólarnir í heimsókn og bjóða aðstandendum sínum að fagna með sér.

 

Grunnskólar

Í fjórða sinn verða grunnskólarnir með samsýningu í Gryfjunni í Duus Safnahúsum, eftir að hafa áður sýnt á hinum ýmsu stöðum í bæjarfélaginu. Þeir vinna undir sömu yfirskrift og leikskólarnir en listaverkin eru af öllu tagi og koma úr hinum ýmsu list- og verkgreinum. Nemendur 4. bekkjar úr öllum skólunum fengu það verkefni að vinna hjörtu fyrir sýninguna sem tákn um ástina sem sameinar allt fólk og verður spennandi að sjá afraksturinn. Á sýningunni má sjá gott yfirlit yfir vinnu vetrarins, margvísleg vinnubrögð og óþrjótandi sköpunargleði barnanna í bænum.  Sýningin verður opnuð með formlegum hætti fimmtudaginn 26. apríl kl. 12:30.

 

Framhaldsskólinn

Það var sérlega ánægjulegt þegar nemendur á listnámsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja bættust við sem þátttakendur á Listahátíð barna fyrir þremur árum. Þótt ekki séu þeir beinlínis börn lengur, byggja þeir listsköpun sína á því veganesti sem þeir hlutu á fyrri skólastigum um leið og verk þeirra geta orðið yngri nemendum innblástur. Á sýningunni í Stofunni sjáum við verk eftir nemendur á listnámsbraut skólans. Sýning fjölbrautaskólans verður opnuð með formlegum hætti fimmtudaginn 26. apríl kl. 16:00.

 

Sýningarnar standa til 13. maí og opið er 12-17 alla daga.