List í 365 daga

List í 365 daga inniheldur verk eftir 365 listamenn. Þar á meðal eru verk eftir myndlistarmenn, hönnuði, skáld, ljósmyndara, kvikmyndagerðarmenn, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta fólk kemur úr ólíkum áttum en það tengist íslensku listalífi á einn eða annan hátt.
Verkið kom út árið 2014 og 2015 í formi dagatals. Tilgangur verkefnisins er að sýna hversu fjöl- og margbreytilegt íslenskt listalíf er og viljum við stuðla að því að færa listina inn í hversdagslífið og á staði þar sem hún hefur alla jafna ekki greiðan aðgang. Reynslan hefur sýnt okkur að þegar árið er liðið þá stendur verkið eftir sem mikilvæg samtímaheimild um íslenska list.
 
List í 365 daga er verkefni sem er erfitt að lýsa, þetta er verk sem að þú þarft að sjá og upplifa en þannig er jú listin. Um er að ræða listaviðburð sem að stendur ársins hring þar sem að þú nýtur þess að upplifa nýtt verk á hverjum degi.
Verkefnið er unnið af einskærri ástríðu fyrir list. Listamennirnir sem að taka þátt í verkefninu láta okkur í té endurgjaldslaust afrit af þeim verkum sem að birt eru og við sem sjáum um uppsetningu og útgáfu á List í 365 daga vinnu okkar vinnu endurgjaldslaust
Það stóð til að hefja aftur útgáfu á dagatalinu List í 365 núna á þessu herrans ári 2020. Þetta ár tók hins vegar aðra stefnu en við öll áttum von á. Því miður reyndist ómögulegt að gefa verkið út í því formi sem að upphaflega var áætlað. Sú útgáfa verður að bíða betri tíma.

Nú í lok ársins 2020 vildum við samt sem áður birta verkið í einhverri mynd. Við ákváðum því í samstarfi við Listasafn Reykjanesbæjar og þá listamenn sem að starfa með okkur að setja upp sýningu á List í 365 daga 2020.
Okkur þykir við hæfi að hefja aðventuna og kveðja þetta ár umvafin sköpun og list úr ólíkum áttum frá 365 listamönnum sem hafa ólíka nálgun og sýn á list.

Sýningastjórar eru Tim Junge og Lind Völundardóttir.