Að hlusta á líkamann, og hlusta á efni og rými er galdur sem við fremjum öll á hverju augnabliki en veitum því hins vegar sjaldnast athygli. Ef til vill veitum við því ekki athygli vegna þess að okkur hefur verið kennt að aftengjast líkömum okkar, að gleyma þeirri staðreynd að við erum skynjandi líkamar. Kerfin sem við ölumst upp við í vestrænum samfélögum telja okkur trú um að rökvís hugur okkar sé aðskilinn frá líkamanum og að öll hugsun og þekking verði til í gegnum meðvitaða rökvísina. En þessi kerfi standa á sífellt valtari fótum, ekki síst vegna þess að sá mannskilningur sem þau byggja á er smátt og smátt að víkja fyrir nýjum mannskilningi. Við skiljum ekki lengur mannveruna sem rökhugsandi huga, sjálfstæðan einstakling sem stendur utan við umhverfi sitt og hefur stjórn á því í gegnum rökvísina, heldur skiljum við núna að mannveran er skynjandi líkamleg tengslavera sem er órjúfanlegur hluti af umhverfi sínu og að hugur hennar er samofinn líkamanum.
Þessi mannskilningur sýnir okkur að á hverju augnabliki erum við sem líkamar að taka á móti áhrifum frá umhverfi okkar um leið og við höfum áhrif á það. Einmitt núna hafa birtan, litirnir og hlutirnir í rýminu sem ég sit í, myrkrið í rýminu fyrir utan gluggann og hljóðin sem ég heyri hinum megin við vegginn áhrif á hvernig ég skynja mig og hugsanir mínar hér og nú. Sömuleiðis hafa öll rými sem ég hef áður verið í, öll hljóð sem ég hef áður heyrt, allar hugsanir sem ég hef lesið úr verkum annarra, áhrif á það sem ég hugsa og skrifa einmitt núna. Frá því ég var fóstur í legi móður minnar hafa lög eftir lög af því sem ég hef skynjað í rýmunum sem ég hef dvalið í (hvort sem þau eru efnisleg eða andleg) byggt upp heildina sem það er að vera ég og vita það sem ég veit og hugsa það sem ég hugsa. Þetta gildir um okkur öll. Allt sem við gerum og hugsum sprettur af því sem við höfum heyrt í kringum okkur hvort sem við vorum að hlusta á meðvitaðan hátt eða ekki. Öll okkar þekking býr í líkamanum sem er tenging okkar við efnin og rýmin sem við höfum bundist í gegnum tíðina. Sem líkamar erum við tengslaverur.
Þegar við hugsum og sköpum getum við verið meðvituð um þetta, eða ekki. Við getum talið okkur trú um að sem aðskildir hugar fáum við hugmyndir eins og eldingar inn í heilann og að í kjölfarið taki við ferli sem felur í sér að finna rétta efnið eða réttu orðin til að festa hugmyndina í form. Við getum líka viðurkennt fyrir okkur sjálfum að hugmyndirnar koma ekki utan frá eins og eldingar, þær koma innan frá, uppsprettan er líkaminn og það sem hann hefur skynjað í gegnum hlustun sína (meðvitaða eða ómeðvitaða) á umhverfi sitt.
Hvað gerum við þegar við hlustum á meðvitaðan hátt sem líkamar á efni og rými? Í stað þess að byrja á hugmynd til að efnisgera, byrjum við á því að hlusta á efnið í kringum okkur og hvernig við tengjumst því í rýminu sem við deilum með því. Við beinum allri okkar athygli að efninu, opnum öll skynfærin, leyfum okkur að vera með efninu og rýminu sem það skapar með okkur, og hlustum á viðbrögð líkamans og skynvísina sem í honum býr. Rökvísin fær að taka sér hlé um stund og við hlustum bara með einbeittri athygli þar til eitthvað fer að hreyfast; hjartað fer að slá hraðar, maginn tekur kipp eða fiðrildi fara að fljúga um hann og í kjölfarið birtist þörf til að móta eitthvað, segja eitthvað, flæða saman við efnið og leyfa því að tala í gegnum sig. Þörf til að deila því sem maður upplifir innra með sér með öðrum þannig að þetta samtal við efnið og rýmið fái að verða að nýju samtali við aðra líkama. Í þess konar hlustun býr fegurðin.
Þversögnin í þessu öllu er að við erum alltaf að hlusta, heyra, taka á móti merkingu efnis og rýmis í gegnum líkamann – jafnvel þegar við teljum okkur vera að byrja á hugmynd til að efnisgera er þessi hugmynd í raun sprottin úr þessu eilífa samtali sem við eigum í við efni og rými á hverri einustu stundu. En það er sérstakur galdur í því falinn að hlusta á meðvitaðan hátt, að taka eftir því hvernig við erum í þessu samtali, að leyfa sér að finna fyrir skynvísinni tala í gegnum líkamann á meðvitaðan hátt. Og það er líka sérstakur galdur falinn í því að vera minnt á að hlusta á efni og rými á meðvitaðan og opinn hátt, að bíða spennt eftir því hvað þau segja okkur og taka eftir því hvernig þau geta talað á ólíkan hátt til hvers og eins okkar. Það er einmitt það sem þær Eygló, Ólöf Helga og Sólveig gera með verkum sínum. Takk fyrir áminninguna.
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir