Leiðsögn um sýninguna Svo miklar drossíur

Sunnudaginn 30. september n.k. mun Thelma Björgvinsdóttir bjóða upp á leiðsögn og ræða við gesti um sýninguna svo miklar drossíur“ frá kl. 14.00 til 17.00. Sýningin opnaði á Ljósanótt í Stofunni í Duus Safnahúsum og hefur hefur vakið mikla athygli. Sýningin er unnin upp úr verkefni Thelmu í þjóðfræði við Háskóla Íslands um Silver Cross barnavagna og þann sess sem vagnarnir hafa í hugum margra, og þá ekki síst á Suðurnesjum. Á sýningunni má sjá um 20 Silver Cross barnavagna og dúkkuvagna, auk fjölda mynda af fólki af Suðurnesjum sem eiga og/eða hafa átt Silver Cross vagna. Leitað var til fjölmargra við öflun efnis á sýninguna, en allir vagnar og myndir eru frá Suðurnesjum. Thelma er höfundur sýningarinnar en hönnuður og sýningarstjóri er Eiríkur P. Jörundsson, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar. Sýningin er samstarfsverkefni Thelmu og Byggðasafnsins og sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Nafnið eitt, Silver Cross, fær fólk til þess að brosa við hlýjum minningum sem tengjast vagninum. Sérstakar tilfinningar vakna þegar ungabarn er  lagt til svefns í fallegum vagni, umvafið fatnaði sem þeir sem standa barninu næst hafa lagt ást og kærleika í. Áhugaverðar sögur og dýrmætar minningar fylgja oft vögnum sem hafa tilheyrt sömu fjölskyldu. Oft á tíðum er búið að leggja mikla vinnu í viðhald og varðveislu á þessum fallegu vögnum sem tengjast fólki tilfinningaböndum.

Sýningin verður opin í Duus Safnahúsum til 4. nóvember n.k.