Jólaboð Ásu. Gamaldags jólatrésskemmtun í Bryggjuhúsi.
Á sunnudag kl. 14 – 15 verður skyggnst um það bil 100 ár aftur í tímann, í Bryggjuhúsi Duus Safnahúsa, og boðið til jólatrésskemmtunar til að minnast slíkra skemmtana sem haldnar voru af Duusversluninni um 20 ára skeið upp úr aldamótunum 1900.
Hugmyndin er að njóta þess að koma saman í fallegu gamaldags umhverfi, dansa í kringum jólatré og syngja jólasöngva við píanóundirleik og reyna að laða fram hinn sanna jólaanda.
Frú Ása Olavsen tekur á móti börnunum eins og forðum og dansað verður í kringum jólatréð. Þá hefur fróðleikur um gömlu jólatrésskemmtanirnar sem haldnar voru í húsinu hér áður fyrrr verið settur fram þannig að fólk geti sagt börnunum sínum þessa skemmtilegu sögu. Auðvitað mætir svo jólasveinn af gamla skólanum á svæðið.
Allir eru hjartanlega velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.