Iceland defence force – Ásbrú

 ICELAND DEFENSE FORCE – ÁSBRÚ

 „Ára yfirgefinna staða“

Snemma árs 2015 hélt Bragi Þór Jósefsson, ljósmyndari, sýninguna „Varnarliðið“ í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þar sýndi hann myndir sem hann hafði tekið á herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, stuttu eftir að Bandaríkjamenn yfirgáfu landið eftir 55 ára hersetu. Þar skráði Bragi Þór andrúmsloftið sem ríkti í yfirgefnum húsakynnum varnarliðsins, áður gegnsýrðum af bandarískum lífsmáta, nú mannlausum og framandi.

Þar sem Suðurnesjamenn voru í nánara sambandi við varnarliðið en flestir aðrir Íslendingar, þótti Listasafni Reykjanesbæjar ástæða til að setja upp nýja útgáfu af þessari sýningu Braga Þórs í Duus Safnahúsum í Keflavík, og féllst hann á að auka við myndröðina ljósmyndum af „framhaldslífinu“ á flugvallarsvæðinu, svipmyndum af lifnaðarháttum nýrra íbúa þar sem nú heitir að „Ásbrú“.

Í þessum ljósmyndum skrásetur Bragi Þór það sem sýningarstjóri, Aðalsteinn Ingólfsson, kallar „áru yfirgefinna staða“, hina þöglu nærveru horfinna einstaklinga úr öðrum menningarheimi, hverra daglega líf og örlög setja mark sitt á eyðilegar vistarverur og opinbera staði. Í framhaldinu sýnir hann hvernig ný kynslóð Íslendinga mótar þessa fyrrum útvarðastöð Bandaríkjamanna með sínum hætti.

Bragi Þór Jósefsson lauk námi í ljósmyndun frá Rochester Institute of Technology í Bandaríkjunum árið 1987 og hóf í kjölfarið störf sem atvinnuljósmyndari. Hann hefur myndað fyrir fyrirtæki og einkaaðila, jafnt sem íslensk og erlend tímarit. Auk þess hefur hann haldið sýningar á ljósmyndum sínum, tekið þátt í samsýningum samtímaljósmyndara og komið að bókaútgáfu.

Sýningin „Iceland Defense Force – Ásbrú“ stendur frá 6. febrúar til 24. apríl og er í Duus Safnahúsum þar sem opið er alla daga frá 12.00-17.00.