Hugleiðsla og ör-spádómar í heilsu- og forvarnarviku

Í tilefni af heilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar býður Listasafn Reykjanesbæjar upp á hugleiðslu í safninu sunnudaginn 6. október kl. 14. Það er Reynir Katrínar, galdrameistari og skapandi listamaður sem stýrir hugleiðslunni. Þennan sama dag frá kl. 12-17 býður Reynir jafnframt upp á ör-spádóma gegn vægu gjaldi.

Nú stendur einmitt yfir sýning á verkum Reynis í Stofunni, einum sala Duus Safnahúsa. Andleg málefni hafa alla tíð átt huga og hjarta Reynis og bera verk hans þess sterk merki. Reynir sem hefur stundað hugleiðslu um árabil segir frá því að í gegnum hugleiðsluna hafi hann m.a. kynnst ljósverum og litríkum heimi þeirra. Reynir velur að vinna einungis með náttúruleg efni, þ.e. steina, rekavið, ull og egg temperu og notast við liti sem hann finnur í íslenskri náttúru.

Ókeypis aðgangur er að sýningu Reynis þennan dag og um að gera að mæta í andlega heilsubót.

Allir velkomnir