Heimilið
„Heimilið“ er heiti á nýrri sýningu Byggðasafnsins sem opnaði föstudaginn 11. nóvember í Duus safnahúsum og stendur til 23. apríl 2017.
Hvert heimili á sína sögu, sitt fólk, atburði og tímaskeið, upphaf og endi. Engin tvö heimili er eins en þó eru þau öll byggð á sama grunni. Það má nota mörg orð og ólík til að lýsa heimilum og hvað þau eru fyrir hvert okkar en eitt sameinar þau öll, heimilið er alltaf mikilvægt.
Saga heimila er samofin því samfélagi sem umlykja þau. Þau endurspegla tíðarandann, tæknistigið og söguna. En það sem er kannski áhugaverðast er að heimilið segir persónulega sögu; sögur um áherslur, smekk, viðhorf, drauma, martraðir, gleði og sorgir. Heimilið er eins og efnisleg gátt inn í hugarheim okkar og verður þannig merkileg söguleg heimild.
Á þessari sýningu leggjum við áherslu á vinnuna á heimilinu. Við erum ca á tímabilinu 1930-1980 en lengst framan af á því tímabili var það enn nauðsyn að fólkið gæti gert sem mest sjálft. Matur var eldaður frá grunni, föt voru saumuð, stöguð, bætt, endursaumuð og híbýlaprýði voru heimagerð. Fátt var keypt út í búð, bæði var framboðið takmarkað en einnig var lítið um laust fé. Í dag er það val hjá flestum hvort þeir búi til eða kaupi tilbúið.
Við leggjum áherslu á þá gripi sem eru heimagerðir en mikilvægt er að varðveita þá sérstaklega þar sem ekkert kemur í staðinn fyrir hvern einstakan grip. Fjöldaframleiddir hlutir eru líka mikilvægir en auðveldara er að finna annan eins eða sambærilegan.