Hverra kvenna ert þú?
Megin uppistaða sýningar Erlu Sylvíu eru málverk þar sem hluti myndefnisins er sóttur í gamlar ljósmyndir. Í sýningunni Fjölskyldumynstur vinnur hún meðal annars út frá ljósmyndum, sem eru teknar á rúmlega fjörutíu ára tímabili, frá 1910 og fram á miðjan sjötta áratug aldarinnar. Þar má sjá konur í fjölskyldu hennar í íslenskum þjóðbúningum. Bakgrunnur verkanna vísar til menningararfs kvenna í Suður Afríku, það er Ndbele mynstra sem alfarið eru verk kvenna og hafa lítið breyst í gegnum tíðina. Þannig er stefnt saman menningarheimum kvenna úr ólíkum áttum - norðri og suðri. Aðrar myndir Erlu Sylvíu sýna munstur og myndir sem Íslenska teiknibókin (2013) hefur að geyma, en þær teikningar höfðu konur sem fyrirmyndir við útsaum á öldum áður. Í þessum verkum er umfjöllunarefnið einnig heimur kvenna; myndir af konum, bréf þeirra og teikningar sem þær nýttu í listhandverk.
Erla Sylvía hefur búið í Berlín á annan áratug, en er alin upp í Svíþjóð og menntuð þar og í Bandaríkjunum. Á ferli sínum hefur hún dvalið á listavinnustofum víða um heim, til dæmis í Suður Afríku. Myndir sem hún sýnir nú eru meðal annars tilkomnar vegna áhuga hennar á að kynnast uppruna sínum; formæðrum og ættkonum. Við skoðun myndanna gefst áhorfandanum tækifæri á að rannsaka ættarmót þeirra. Bera saman andlitsfall, nef, augu og athuga hvað sé líkt með skyldum. Mynstrin frá Suður Afríku sem finna má í mörgum verkanna, kynna bæði menningararf kvenna í annarri heimsálfu og minna á að nú til dags lifum við í heimsþorpi þar sem ólíkir menningarheimar þurfa að vinna saman og geta það.
Með því að sýna myndir af ættkonum sínum í íslenskum búningum vísar Erla Sylvía til uppruna síns. Á myndum ferðamanna til landsins frá 18. og 19. öld má iðulega sjá konur klæddar búningum fagurlega skreyttum útsaumi. Á þessum tíma voru samskipti við umheiminn að aukast, sem meðal annars olli því að innlendur klæðnaður vék fyrir erlendum fatnaði. Í sjálfstæðisbaráttunni skipti miklu að gefa þjóðinni tilfinningu fyrir því þjóðlega og upphafna, enda talið að með því færi hún að virða sjálfa sig og skilja að henni bæri að öðlast fullveldi. Í þeim tilgangi að vekja upp þjóðerniskennd fóru konur að gera og bera búninga sem báru sterkt svipmót þess sem tíðkaðst hafði hjá formæðrum þeirra og tóku þannig á sýnilegan hátt þátt í baráttunni. Frá þeim tíma hafa þjóðbúningar verið stolt íslenskra kvenna og sterkt tákn í sjálfsmynd þjóðarinnar.
Þrátt fyrir að konur hafi getað lagt lóð á vogarskálarnar í sjálfstæðisbaráttunni var langt í land að þær stæðu jafnfætis körlum. Í ritinu (Sérherbergi, 1927) færir Virginia Woolf rök fyrir því að gildismat kvenna og karla sé frábrugðið. Karlar líti niður á gildismat kvenna og telji listræn störf þeirra og það sem þær hafi áhuga á ómerkilegt. Hún bendir á að margar konur tileinki sér þetta karllæga viðhorf. Skrif hennar voru innlegg í jafnréttisbáráttu kvenna, en baráttunni hefur verið skipt niður í bylgjur. Í lok sjötta áratugar síðustu aldar reis önnur bylgja femínismans. Í broddi fylkingar voru konur sem töldu að lagaleg réttindi (sjálfsákvörðunarréttur, réttur til menntunar og kosningaréttur) sem náðst hefðu með fyrstu bylgjunni, um aldamótin nítján hundruð, væru ekki nóg. Konum væri mismunað á grundvelli kynferðis síns og rætur kynjamismunar lægju í samfélagsgerðinni - ekki væri borin virðing fyrir konum og þær ekki sýnilegar í þjóðfélaginu. Rannsaka þyrfti hvert framlag kvenna væri í raun og gera það sýnilegt. Athyglinni var meðal annars beint að list- og listhandverkskonum og verk þeirra skoðuð með kvenlægt gildismat að leiðarljósi. Útkoman var að fjölmargt sem áður hafði verið utan listasenunnar, svo sem textíll, keramik og ýmis skreytilist, fékk þar sinn verðskuldaða sess. Slagorð annarrar bylgjunnar var hið persónlega er pólitíkst og í samræmi við það varð sértæk reynsla kvenna margri myndlistarkonunni yrkisefni. Með breyttum tíðaranda hefur reynsluheimur kvenna smám saman orðið gilt myndefni. Fullvíst er að ýmislegt af því myndefni sem Erla Sylvía setur fram í verkum sínum hefði vart talist gjaldgengt á listasenunni fyrir tíma áhrifa annarrar bylgju femínismans.
Litanotkun Erlu Sylvíu er persónuleg og í list sinni beitir hún aðferðafræði sem kom inn með hugmyndalistinni. Hún gefur sér fyrirmæli við gerð verka sinna. Ekki ósvipað og listakonan Yoko Ono setti fram í bók sinni Grapefruit (1964), en þar eru leiðbeiningar fyrir ákveðin hugmyndaverk. Leikreglurnar sem Erla Sylvía setur sér við það að mála fígúratíf verk eru ekki augljós, en hafa samt sem áður áhrif á endanlega útkomu verkanna á strigann og hughrif sem þau vekja hjá áhorfandanum.
Guðrún Erla Geirsdóttir
Fjölskyldumynstur: Nýleg málverk Erlu S. Haraldsdóttur
'Við höfum tilhneigingu til að gera ráð fyrir að það hljóti að vera eitthvað sameiginlegt með öllum leikjum og að þetta eitthvað sé réttlæting á því að nota hið almenna hugtak 'leikur' um hina ýmsu leiki; þar sem leikir mynda saman fjölskyldu og innan hennar deili meðlimir ákveðnum líkindum. Sumir þeira hafa sama nef, aðrir sömu augabrúnir og enn aðrir hafa sama göngulag; og þessi líkindi skarast.' —Ludwig Wittgenstein, The Blue Book (1934).
Nýleg málverk Erlu S. Haraldsdóttur fást við fyrirbærið fjölskylda. Sem útgangspunkt notar hún fjórar ljósmyndir af skyldmennum sínum og ef þessi nýjustu verk listamannsins eru skoðuð með tilliti til kenningar Wittgenstein þá er hægt að segja að þessi nýja málverkasería eigi það sameiginlegt með hópi skyldmenna að hún líkist fyrri verkum listamannsins.
Tengsl
Erla S. Haraldóttir, sem hefur verið búsett í Berlín um árabil, leggur í verkunum áherslu á að sýna kvenkyns meðlimi föðurættar sinnar. Hin fjögur málverk í seríunni eru titluð Þóranna Ein, 1910; Þóranna, móðir hennar og systur, 1915; Sulla og Fjölskylda, 1948; og Saumaklúbbur, 1956.
Síðast talda málverkið er frávik frá hinum ströngu reglum fjölskylduportretts að því leyti að það byggir á ljósmynd af saumaklúbbi. Sulla og Fjölskylda, 1948, byggir á ljósmynd sem tekin var árið 1948 og sýnir fimm kynslóðir í fjölskyldu listamannsins stilla sér upp fyrir myndavélina. Sulla (gælunafn ömmu Erlu) stendur fyrir aftan föður Erlu, Harald. Á hægri hönd Sullu stendur faðir hennar Þorsteinn og á stól fyrir framan hann situr faðir hans Sigurður. Þóranna, móðir hennar og systur, 1915, 1915, er portrett af tveim kynslóðum sem sýnir langa-langömmu og langömmu listamannsins saman með eldri systrum hans. Þóranna ein, 1910 er portrett af langömmu Erlu sem unglingi.
Mynstur
Þessar ljósmyndir úr einkasafni fjölskyldu Erlu eru settar upp á bakgrunn sem einkennist af djörfum geometrískum mynstrum. Þessi mynstur eru fengin úr list Ndebele fólksins, minnihlutahóps svartra kvenna sem mála heimili sín í sveitum Suður-Afríku í sterkum abstrakt mynstrum. Á tímum aðskilnaðarstefnunnar lifðu margar Ndebele konur í lélegu húsnæði og unnu sem árstíðabundnir farandverkamenn á landi í eigu hvítra bænda. Þrátt fyrir strit hversdagsins þá skreyttu þær leirveggina í búðunum, ekki bara af stolti heldur einnig sem tjáningarform.[1] Litir og hönnun, sem Ndeble konurnar notuðu í skreytingu heimila sinna, tóku mið af perluskreyttum búningum og hefðbundnum klæðum Ndebele málara. Krosslaga formin, sem fengin eru að láni úr Ndeble menningunni, ramma inn persónurnar í málverkum Erlu eins og sést í verkinu Þóranna alone, 1910. Línuleg og geislandi formin skapa ákveðna dýnamík sem er nánast eins og klippt út úr teiknimyndahefti og myndar gólfmynstur fyrir hinar sitjandi og standandi konur í Þóranna her mother and sisters, 1915. Sama málverk sýnir einnig stór form sem spegla arkitektúrform sem eru algeng í veggmyndum Ndebele kvenna. Mynstrin, sem líkjast helst aðskildum böndum sem streyma áfram, mynda bagkrunn í miðhluta málverksins Sulla and Family, 1948, og kallast á við hæð, aldur og uppstillingu persónanna fimm sem sýndar eru í verkinu. Forgrunnur úr blómum staðsettur fyrir framan fjölskylduna myndar mótvægi við harðar abstrakt línurnar sem umlykja annars fjölskylduna og kemur á jafnvægi í verkinu.
Ljósmyndir
Á árdögum ljósmyndunar voru myndavélar fyrirferðamiklar og plöturnar og efnin sem notuð voru til að grípa myndir voru ekki eins ljósnæm og gerist í dag. Það þýddi að það þurfti að festa myndavélar á þrífót til að ná að mynda í nægilega langan tíma til að fá skýra mynd. Það þótti líka betra ef lifandi myndefni væri eins kyrrt og mögulegt væri svo svipbrigði yrðu ekki óljós. Því var ljósmyndurum á stofu oftast treyst fyrir því vandasama verkefni að taka myndir. Patterns of the Family sýnir mengi mynda sem ná yfir fjörutíu ára tímabil frá 1910 til lok sjötta áratugarins þegar tækniframfarir í ljósmyndun leiddu til nýs markaðar tómstunda- og tækifærisljósmyndunar heima fyrir. Í málverkunum er hægt að sjá breytingar í klæðnaði fólksins á myndunum. Saumaklúbbur, 1956 sýnir íslenskar konur á peysufötum.
Konurnar eru klæddar í þjóðlegan búning og minna á þá tíma þegar meirihluti íbúa landsins bjó í torfbæjum. Kvennahópurinn er samansettur af mæðrum, dætrum, frænkum og vinkonum og útlit og búningar eru líkir þeim konum sem sýndar eru í Þóranna alone, 1910 og Þóranna, her mother and sisters, 1915. Sulla and Family, 1948 er eina málverkið í röðinni þar sem íslenskir þjóðbúningar koma ekki fyrir: fjölskyldan er klædd í nútímaleg vestræn föt og á meðan einstaklingarnir eru smekklega klæddir þá tengja þeir fólkið ekki við hið sér-norræna eða hið sér-íslenska. Á sama tíma og jakkafötin sem karlmennirnir klæðast og kjólarnir sem konurnar klæðast líta gamaldags út þá eru þeir ekki svo langt frá því að líkjast formlegum klæðnaði eða jafnvel klæðnaði sem þykir við hæfi í viðskiptaumhverfi dagsins í dag.
Málun sem leikur
Erla S. Haraldsdóttir er listamaður sem notar reglur og leiðbeiningar til að skapa listaverk. Leiðbeiningarnar geta komið frá samstarfsmönnum þegar hún vinnur í samstarfi eða frá henni sjálfri. Vegna þessara földu reglna þá má flokka nálgun hennar á fígúratívum málverkum með nálgun konseptlistamanna á borð við þá sem tilheyra Oulipo hreyfingunni til listamanna eins og Yoko Ono en bók hennar Grapefruit inniheldur leiðbeiningar um hvernig eigi að skapa konseptlist. Reglurnar eru 'faldar' þar sem þær eru á margan hátt ekki sýnilegar í lokaútkomunni á striganum.
Patterns of the Family tekur upp suma af þeim eiginleikum sem sjást í fyrri verkum Erlu en ekki alla. Ndebele mynstur sem birtust í verkum hennar strax árið 2012[2] koma hér aftur fyrir sem áberandi forgrunnur í fjölskylduportrettunum. Ljósmyndir sem teknar eru úr fjölskyldusafninu eru þeir þættir sem þessi sería á sammerkt með Day Four úr seríunni Genesis. Plöntulíf sem kemur fram á áberandi hátt í Sulla and Family, 1948, átti einnig stóran þátt í fyrri verkum eins og The Mangrove Tree og The Ocean and Sun. Patterns of the Family er ný og sannfærandi viðbót við ævistarf listamannsins sem rannsakar flókið kerfi kynslóðanna í íslenskum fjölsyldum á nýstárlegan hátt.
Craniv Boyd
[1] Sjá Margaret Courtney Clarke, Ndebele: Art of an African Tribe (New York: Rizzoli, 1985) og Wolfger Pöhlmann et al., amaNdebele: Signals of Color from South Africa (Berlin: Haus der Kulturen der Welt, 1991).
[2] Sjá framlag listamannsins til M.E.E.H. samstarfsverkefnisins sem var hluti af (I)ndependent People á Listahátíð í Reykjavík , sem sett var upp í sýningarstjórn Jonatan Habib Engqvist.