Eitt ár á Suðurnesjum

Ein mynd segir meira en 1000 orð!

Ljósanætursýning Listasafns Reykjanesbæjar í ár er ljósmyndasýningin Eitt ár á Suðurnesjum og verður hún opnuð fimmtudaginn 30.ágúst kl. 18.00.  Sýningin er afrakstur samkeppni sem safnið stóð fyrir árin 2017-18 og var öllum Suðurnesjamönnum boðið að senda inn ljósmyndir sem teknar yrðu eftir ákveðnum reglum.  Skilyrðin voru að myndirnar skyldu lýsa daglegu lífi og náttúru á Suðurnesjum á einu ári, nánar til tekið frá 17.júní 2017 til 17.júní 2018.  350 ljósmyndir bárust og eru þær allar til sýnis í Listasal Duus Safnahúsa, ýmist útprentaðar eða á skjá. Sex ljósmyndir sigruðu og fóru í hópinn „Bestu myndirnar“ en 30 aðrar fengu sérstaka viðurkenningu sem góðar ljósmyndir. Tilkynnt verður við opnun hverjir vinningshafarnir eru.  Dómnefnd skipuðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta og Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness. Sýningarstjórar voru Inga Þórey Jóhannsdóttir myndlistarmaður, Oddgeir Karlsson ljósmyndari og Valgerður Guðmundsdóttir forstöðumaður Listasafns Reykjanesbæjar.

Eftirtaldir eru höfundar vinningsmyndanna:

Guðmundur Magnússon

Haukur Hilmarsson

Jón Óskar Hauksson

Ólafur Harðarson

Hilmar Bragi Bárðason

 

Samhliða þessari sýningu verður „systursýningin“ Eitt ár í Færeyjum opnuð í Bíósal Duus Safnahúsa. Sú sýning er líka ljósmyndasýning sem er afrakstur samkeppni sem Norræna húsið í Færeyjum stóð fyrir árin 2016-17 og var sumarsýning Norræna hússins í Þórshöfn sumarið 2017.  Öllum Færeyingum var þá boðið að senda inn ljósmyndir sem lýstu daglegu lífi og náttúru í Færeyjum á einu ári, nánar tiltekið frá flaggdeginum 2016 til flaggdagsins 2017.    Færeysku vinningsmyndirnar 12 má sjá útprentaðar í Bíósal Duus Safnahúsa en allar aðrar innsendar myndir eru sýndar á skjá.

Segja má að orðtakið „Ein mynd segir meira en þúsund orð“ sé góð lýsing á þessum skemmtilegu sýningum. Ljósmyndirnar gefa gestum innsýn í daglegt líf þessara frændþjóða.  Margt er ólíkt en þó er miklu meira sameiginlegt og heildarsvipur beggja sýninganna lýsir bjartsýni og hlýju sem gefur von um gott líf og bjarta framtíð. Þarna hlýtur að vera gott að búa!

Mynd: Jón Óskar Hauksson

Eitt ár á Suðurnesjum

Sú regla hefur viðgengist hjá Listasafni Reykjanesbæjar frá upphafi að sýningin á Ljósanótt tengist alltaf heim í hérað á þann hátt að annaðhvort listamennirnir eða myndefnið hefur verið sótt til Suðurnesja. Núna, á 15 ára afmæli safnsins, varð engin breyting  þar á, því að þessu sinni er hvoru tveggja heimafengið; listamennirnir og myndefnið. 

Ljósmyndasamkeppnin „Einn dagur á Suðurnesjum“ var auglýst opin og allir Suðurnesjamenn hvattir til að vera með.  Ljósmyndurum, bæði lærðum og leikum, var boðið að senda inn ljósmyndir af mannlífi og náttúru á Suðurnesjum sem teknar yrðu á einu ári, nánar til tekið á tímabilinu 17.júní 2017 til 17.júní 2018, myndirnar máttu hvorki vera eldri né yngri.  Ljósmyndirnar skyldu sýna daglegt líf okkar Suðurnesjamanna á þessu eina ári, á sem fjölbreyttastan hátt.  Hver og ein myndanna segði sína sögu af lífi ljósmyndarans á árinu og saman segðu allar innsendar myndir, allra þátttakenda eina góða sögu af daglegu lífi á Suðurnesjum. Öllum Suðurnesjamönnum sem höfðu  áhuga var boðið að vera með og allar myndir teknar á þessum ákveðna tíma, voru boðnar velkomnar.  Hvað gerðist á Suðurnesjum þetta ár? Hvað vorum við að gera? Börnin og hinir fullorðnu, fólkið og dýrin, hversdagurinn og hátíðahaldið, pólitíkin og trúarbrögðin, bæjarlífið og náttúran, fjölskyldan og  vinnan eða hvað annað sem talist gæti hluti af okkar daglega lífi.

Skemmst er frá því að segja að viðbrögðin voru góð, rúmlega 60 ljósmyndarar sendu inn 360 ljósmyndir af margvíslegu tagi sem allar sýna á skemmtilegan hátt fjölbreytileika mannlífs og náttúru á Suðurnesjum.  Ljósmyndirnar eru nú allar til sýnis á Ljósanætursýningu safnsins í Listasal Duus Safnahúsa, sumar útprentaðar, stórar eða litlar og hinar eru allar eru sýndar á skjám. Einnig eru ljósmyndirnar allar prentaðar í þessari sýningarskrá og allra höfunda að sjálfsögðu getið. Skipuð var dómnefnd sem valdi 5 ljósmyndir til að skipa 1.-5.sæti í samkeppninni og einnig voru valdar til viðbótar 25 aðrar ljósmyndir sem fengu sérstaka viðurkenningu. Dómnefndina skipuðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Páll Ketilsson ritstjóri Vikurfrétta og Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness. Sýningarstjórn skipuðu Inga Þórey Jóhannsdóttir myndlistarmaður, Oddgeir Karlsson ljósmyndari og Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi.

Hugmyndin að þessu skemmtilega verkefni er komin frá frændum okkar Færeyingum en á síðasta ári komst á samstarf milli Listasafns Reykjanesbæjar og Norræna hússins í Færeyjum.  Færeyingarnir höfðu staðið fyrir ljósmyndasamkeppninni „Eitt ár í Færeyjum“ sem stóð yfir frá færeyska flaggdeginum 2016 til flaggdagsins 2017 og voru allar innsendar ljósmyndir settar á sumarsýningu Norræna hússins í Þórshöfn á síðasta ári.  Fyrirkomulagið var hið sama, þ.e. myndefnið var náttúra og daglegt líf í Færeyjum á þessu tímabili og allar innsendar myndir voru sýndar á sýningunni í Norræna húsinu, ýmist útprentaðar eða á skjám.  Listasafn Reykjanesbæjar hefur nú sett upp þessa sömu sýningu í Bíósal Duus Safnahúsa og þar má sjá færeysku verðlaunamyndirnar 12 útprentaðar og allar hinar eru sýndar þar á skjám.

Segja má að orðtakið „Ein mynd segir meira en þúsund orð“ sé góð lýsing á þessu verkefni.  Myndirnar á báðum sýningunum gefa gestum á skemmtilegan hátt innsýn í daglegt líf þessara frændþjóða.  Margt er ólíkt en þó er miklu meira sameiginlegt og heildarsvipur beggja sýninganna lýsir bjartsýni og hlýju sem gefur von um gott líf og bjarta framtíð. Hér hlýtur að vera gott að búa!

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem sendu inn myndir, dómnefndinni og öllum öðrum sem komu að verkefninu bæði hér á Suðurnesjum og í Færeyjum, gott samstarf.

Góða skemmtun og gleðilega Ljósanótt.

Valgerður Guðmundsdóttir, forstöðumaður Listasafns Reykjanesbæjar