ÁGÚSTMYNDIR SEPTEMBER- MANNA
Ástríðusafnarinn
Í stórum dráttum má skipta listasöfnurum í þrjá hópa, þá sem safna myndlist fyrir einskæra og djúpstæða ástríðu – verða ástfangnir af myndum eins og Þorvaldur Guðmundsson kallaði það – þá sem haldnir eru almennri söfnunaráráttu og safna myndum skipulega og þá fremur fyrir þörfina til að fylla upp í eyður en listnautn, ekki ósvipað og frímerkjasafnarar gera. Loks eru þeir sem „fjárfesta“ í myndum í því skyni að græða á endursölu þeirra. Að öllum líkindum fyrirfinnast einnig einstaklingar sem sameina í sér einhverja, eða alla, þessa þætti. Til að mynda má ímynda sér ástríðusafnara sem hætta að elska myndir sínar og setja þær í sölu; væntanlega eru þeir ekki frábitnir því að selja þær með gróða.
Bragi Guðlaugsson, iðnaðarmaður með meiru, mundi óhikað teljast til ástríðusafnara. Um langt árabil hefur hann verið fastagestur á öllum myndlistarsýningum á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem hann sækir heim myndlistarmenn til að kaupa af þeim myndir, skiptist á myndum við aðra safnara, verslar að auki við uppboðshús heima og erlendis. Eins og títt er um ástríðusafnara lætur Bragi tilviljanir og tilfinningar ráða för. Um leið er hann knúinn áfram af ákveðinni köllun, nefnilega að eignast bestu útgáfuna af hverjum listamanni sem hann hrífst af. Kaupi hann t.d. uppstillingu eftir Þorvald Skúlason, vill hann vera handviss um að eignast þá bestu sem völ er á. Til að öðlast þá fullvissu leggst hann iðulega í umfangsmikla eftirgrennslan. Og verður margs fróðari fyrir vikið.
Ástin fer ekki í manngreinarálit. Því hafa ástríðusafnarar eins og Bragi tilhneigingu til að vera býsna víðtækir í söfnun sinni. Í fórum hans er því að finna mörg ágæt verk frá ýmsum tímum. Heildstæðast er þó safn hans af verkum eftir íslenska listamenn á tímabilinu 1930-1960, þegar myndlistin í landinu stóð frammi fyrir meiri breytingum en nokkru sinni fyrr. Sérstaklega er lærdómsríkt safnið sem hann hefur komið sér upp af myndum og formyndum eftir þau Karl Kvaran, Guðmundu Andrésdóttur og Kristján Davíðsson.
Listasafn Reykjaness hefur fengið að velja úr þessu safni nokkrar myndir, aðallega olíumálverk, eftir þrettán listamenn sem endurspegla mikið umbrotaskeið íslenskrar myndlistar, þegar umfjöllun um veruleikann er smátt og smátt að víkja fyrir hugmyndinni um listaverkið sem sjálfstæðan veruleika. Þarna er aðallega um að ræða verkin sem kynslóð eftirstríðsáranna gerir í aðdraganda myndlistarbyltingarinnar sem kennd er við Septembersýningarnar 1947-52, sem sagt „Ágústmyndir Septembermanna“.
Listasafn Reykjaness vill þakka Braga Guðlaugssyni fyrir afnot af þessum myndum og einlægan áhuga á þessu sýningarverkefni, sem öðrum þræði er ætlað að bregða upp fræðandi svipmynd af áðurnefndu umbrotaskeiði.
Ágústmyndir Septembermanna
Heiti þessarar sýningar ber ekki að taka of bókstaflega. Með „Septembermenn“ er ekki einungis átt við þá sem sýndu verk sín á Septembersýningunum í Listamannaskálanum í Reykjavík á árunum 1947-1952, heldur þann stóra hóp myndlistarmanna sem tók þátt í myndlistarbyltingunni á Íslandi á þessum tíma. Sýningin gefur sig ekki heldur út fyrir að vera tæmandi úttekt á þessum hópi, heldur er hún fyrst og fremst svipmynd, byggð á þeim verkum sem fyrirfinnast í einkasafni Braga Guðlaugssonar. Áhorfendur munu því eflaust sakna nokkurra markverðra listamanna sem tvímælalaust eiga heima í þessum hópi. Á móti kemur að verkin á sýningunni eru flest sjaldséð, og nokkur þeirra hafa aldrei sést opinberlega hér á landi. Því er óneitanlega fengur að því að sjá þær samankomnar hér í Listasafni Reykjaness.
Með „ágústmyndir“ er vísað til myndlistarinnar sem þorri þessara listamanna fékkst við í aðdraganda Septembersýninganna, þ.e. meðan þeir voru að brjóta til mergjar þær breytingar sem gengu yfir myndlistina á Vesturlöndum bæði á stríðsárunum og sérstaklega á árunum 1945-50. Það sem jók á ákefð og óþreyju þeirra var sú staðreynd að um hartnær fimm ára skeið höfðu þeir að mestu verið úr tengslum við helstu hræringar í evrópskri og ameríski myndlist; við stríðslok vildu þeir umfram allt ná í skottið á samtíma sínum. Þetta skýrir ef til vill sviptingarnar í verkum nokkurra þeirra: ófyrirsjáanlegar útlitsbreytingar frá mynd til myndar og oft óvenjulegar tilraunir með liti og myndmál.
Fíllinn í glervörubúðinni var að sjálfsögðu abstraktmyndlistin. Flestir listamannanna í þessum hópi þekkti hana einungis af afspurn eða myndum í erlendum listatímaritum. Abstraktmyndirnar sem Finnur Jónsson gerði á árunum 1922-25 á námsárum sínum í Þýskalandi höfðu farið framhjá nánast öllum þeirra. Við upphaf síðari heimstyrjaldar höfðu einungis þrír þeirra komist í kynni við hreina og tæra abstraktlist, Þorvaldur Skúlason í Frakklandi og Ítalíu, Nína Tryggvadóttir í Frakklandi og Svavar Guðnason í Danmörku (og Frakklandi). Sá síðastnefndi varð hins vegar innlyksa í Danmörku öll stríðsárin, og því fjarri góðu gamni heima á Íslandi.
Óneitanlega litu „heimalningarnir“ í Reykjavík til reynslu þeirra Þorvalds og Nínu, og þótt bæði (að ógleymdri Louisu Matthíasdóttur) lægju ekki á upplýsingum og ráðleggingum til handa félögum sínum, hikuðu bæði Þorvaldur og Nína við að ganga abstraktmyndlistinni á hönd á akkúrat þessu tímabili, þótt þau hefðu til þess allar forsendur. Þorvaldur er raunar talinn hafa gert nokkrar abstrakt eða hálfabstrakt myndir stuttu áður en hann kom heim árið 1939. Sennilega er ástæðan að hluta til sú að á stríðsárunum voru bæði Þorvaldur og Nína lögð í einelti af Jónasi Jónssyni frá Hriflu fyrir þá „úrkynjuðu“ myndlist sem þau iðkuðu. Líkast til hafa þau skynjað fyrr en skall í tönnum: að grundvöllur fyrir abstraktmyndlist væri ekki enn fyrir hendi í henni Reykjavík.
Myndlistin sem við sjáum hér er því að mestu leyti hlutbundin, með rætur í „þorpsmálverki“ fjórða áratugarins. Dregnar eru upp knappar, litríkar og hæfilega stílfærðar myndir af fólki og nærumhverfi í hratt vaxandi borg , eða sofandalegri stemmningunni í fámennum sjávarþorpum. Þótt myndirnar séu augsýnilega tilbrigði við hið séða, er allt sem heitir „frásögn“ fyrir bí, nú skiptir trúnaðurinn við myndina meira máli en veruleikinn sem myndirnar eru sprottnar úr. Í örfáum tilfellum sjáum við hina ungu myndlistarmenn gera tilraunir til að brjótast út úr þessari hlutbundnu myndlist, Nína með kröftugum stemmum í súrrealískum anda, Jóhannes Jóhannesson sömuleiðis, svo ekki sé minnst á eitt af fyrstu verkum Kristjáns Davíðssonar (Vetrardagur, um 1949), þar sem hann býður birginn hugmyndum fólks um það hvernig mannamyndir eiga að líta út.
Allar eru þessar myndir áfangar á þroskaferli listamannanna, fremur en endanleg niðurstaða. Þá niðurstöðu sjáum við ekki fyrr en um miðjan sjötta áratuginn, þegar geómetríska abstraktlistin og aðrar „framúrstefnur“ eru gengnar í garð. Engu að síður eru margar þeirra mikið augnakonfekt, ekki síst myndir Þorvalds Skúlasonar, sem leikur lykilhlutverk á þessari sýningu.
Aðalsteinn Ingólfsson