Abstraktmyndlist hefur átt undir högg að sækja í íslensku myndlistarlífi á undanförnum áratugum og af samtölum við þátttakendur í sýningunni má ráða, að til þess að skapa abstraktmyndlist hafi þeir nánast þurft að kúpla sig út úr íslensku myndlistarlífi, finna sér nýja listaskóla og aðra „senu“. Þá opnaðist fyrir þeim „nýr heimur“, eins og haft er eftir einum þátttakenda í sýningunni. Og hvað var það sem þessi „nýi heimur“ hafði til síns ágætis? Viðmælendur nefna m.a. alþjóðlegt tungumál abstraktlistarinnar, ríkulegt huglægt myndmál, frjálsræði, óútreiknanlega framvindu, tilfinningalega „hleðslu“ og þann möguleika að skapa sér einka svigrúm til tjáningar.
Allt þetta er fyrir hendi í verkum þeirra sjö listamanna sem getur að líta á sýningunni í Duus Safnahúsum. Þeir vilja láta taka sig alvarlega og ætla ekki að hliðra fyrir öðrum viðhorfum fyrr en í fulla hnefana. Sýningarstjórar eru Aðalsteinn Ingólfsson og Bjarni Sigurbjörnsson og mun Bjarni verða með leiðsögn um sýninguna sunnudaginn 18. Júní kl. 15.00. Sýningin stendur til 20.ágúst 2017.
A17 Íslensk abstraktlist við upphaf 21. aldar
Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir , Hadda Fjóla Reykdal , Halldór Ragnarsson , Logi Bjarnason , Magnús Helgason , Marta María Jónsdóttir og Sara Oskarsson.
Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna A17 sem fjallar um íslenska abstraktmyndlist við upphaf 21.aldar, föstudaginn 9.júní kl. 18.00 í Listasal Duus Safnahúsa. Þar má sjá verk eftir Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur, Höddu Fjólu Reykdal, Halldór Ragnarsson, Loga Bjarnason, Magnús Helgason, Mörtu Maríu Jónsdóttur og Söru Oskarsson.
Umsagnir um sýninguna
Ný sýning, nýr heimur. Aðalsteinn Ingólfsson, sýningarstjóri
Abstraktmyndlist, list hins huglæga, ljóðræna og óræða, hefur átt undir högg að sækja í íslensku myndlistarlífi á undanförnum áratugum. Þó var hún ráðandi viðmið í myndlist okkar um hartnær tveggja áratuga skeið og síðan öflugt mótvægi nýlistarinnar. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar var henni smám saman skákað til hliðar og hún úrskurðuð ómarktæk af áhrifamestu álitsgjöfum hins íslenska myndlistarsamfélags. Upptaka nýrra viðmiða í listum er flókið og oft dularfullt fyrirbæri, en með tíð og tíma verða einhverjir sjálfsagt til þess að komast til botns í þessari atburðarás. Hún er þeim mun torskiljanlegri þegar litið er til viðgangs abstraktmyndlistar annars staðar í heiminum á sama tímabili.
Af samtölum við þátttakendur í sýningu Listasafns Reykjanesbæjar, A17, má ráða að til þess að skapa abstraktmyndlist hafi þeir nánast þurft að kúpla sig út úr íslensku myndlistarlífi, finna sér nýja listaskóla og aðra „senu“. Þá opnaðist fyrir þeim „nýr heimur“, eins og haft er eftir einum þátttakenda í sýningunni. Og hvað var það sem þessi „nýi heimur“ hafði til síns ágætis? Viðmælendur nefna m.a. alþjóðlegt tungumál abstraktlistarinnar, ríkulegt huglægt myndmál, frjálsræði, óútreiknanlega framvindu, tilfinningalega „hleðslu“ og þann möguleika að skapa sér einkalegt svigrúm til tjáningar.
Allt þetta er fyrir hendi í verkum þeirra sjö listamanna sem hér getur að líta. Þeir vilja láta taka sig alvarlega og ætla ekki að hliðra fyrir öðrum viðhorfum fyrr en í fulla hnefana. Listasafn Reykjanesbæjar þakkar þeim þátttökuna og samstarfsviljann.
Umsagnaraðili - Aðalsteinn IngólfssonA17. Bjarni Sigurbjörnsson, sýningarstjóri
Um og uppúr miðri síðustu öld var abstraktmálverkið það sem skilgreindi hvað skarpast það sem kallað hefur verið módernismi í myndlist. Clement Greenberg, einn áhrifamesti talsmaður módernismans, taldi kjarna hans liggja í því að beita einkennandi aðferðum listgreinar til að gagnrýna listgreinina sjálfa, ekki til þess að kollvarpa henni, heldur til að festa hana betur í sessi á sínu eigin hæfnissviði.
Um 1965 fóru aðrir listamenn og hugsuðir hins vegar að efast um harðkjarna-módernisma Greenbergs. Þeir veltu fyrir sér í hverju munurinn lægi milli skúlptúrs eða þrívíðra verka annars vegar og málverks hins vegar og hvort listin þyrfti ekki einmitt að losa sig við slíkan greinarmun. Í þessu samhengi kynnti Donald Judd til að mynda hugtakið „specific object“ sem varð til eftir að hann sá svokölluð „málverk“ Franks Stella þar sem landamæri milli listgreina voru höfð að engu og ekki hirt um að einangra hæfnissvið hverrar greinar útfrá eigindum hennar. Hræringarnar sem urðu í kjölfarið eru stundum kenndar við „dauða módernismans“ og hreyfði við öllum römmum og langvarandi flokkadráttum og skapaði ríg í listheiminum.
Enn eimir eftir af þessum hræringum en meðal yngri listamanna virðist rígurinn sem hlaust af „dauða módernismans“ fara ört þverrandi. Í dag virðist sú list sem reiðir sig á fagurfræði eða er unnin út frá tilfinningu hafa meiri hljómgrunn en oft áður þótt enn sé viðhorfsmunur á milli þeirra sem telja sig vinna út frá upplifun og kjósa frelsi til að uppgötva hluti út frá eigin skynjun og tilfinningu og hinna sem krefjast rökrænna skilgreininga og vitsmunalegrar nálgunar. Andstæðan er milli þess annars vegar að sjá list sem tjáningu þar sem verkið verður til af persónulegri þörf en getur um leið af sér nýtt sjónarhorn á tilvist okkar og fegurðargrundvöll og hinsvegar að líta á hana sem rannsókn þar sem listamaðurinn er í hlutverki rannsakanda er setur viðfangsefni sitt undir smásjárgler og má ekki láta glepjast af persónulegum tilfinningum eða annarri hysteríu og þarf að beita sig járnaga svo afraksturinn verði sönn og góð list, laus við sveitta tilfinningasemi eða barnslegan krútthátt.
Abstraktlist hefur oft ruglað fólk í ríminu, allt frá upphafsdögum hennar. Kannski vegna þess að þar er skorið á tengslin milli listarinnar og þess sem kallað er raunveruleiki. Í póstmódernískum heimi dagsins í dag er hugmyndin um raunsæi reyndar orðin ansi loðin, þreytt og þvæld, en enn lifir þó í þeim glæðum að fólk vilji sjá eitthvað þekkjanlegt út úr myndum, ef því er ekki að heilsa er verkið í hugum margra tómt rugl. Upp í hugann kemur frægt málverk Réne Magritte af pípu þar sem undir stendur: „Þetta er ekki pípa.“ Þar er því slengt framan í áhorfandann að málverkið, myndin sem vekur sjónræna upplifun af pípu, sé í raun sjálfstæður hlutur, málning á striga.
Það er því hægt að segja að hvaðeina geti verið list þegar það sett er í rétt samhengi. Stálplata er jafn raunsönn sem listaverk og málaður strigi. Dæmi um slíkt eru til að mynda hlandskálin fræga og önnur „ready made“ Marcels Duchamp eða þegar Listasafn Akureyrar keypti á uppboði varalitarborið glas og sýndi sem listaverk í kjölfar umræðu sem skapast hafði um meintan málverksgjörning sem Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi forsætisráðherra hefði framið á glasinu er hún drakk úr því í frægu útvarpsviðtali.
Hvað er abstraktlist? Því er oft haldið fram að þetta hugtak sé bundið ákveðnu viðhorfi í listasögunni og því úr sér gengið á okkar margradda tímum þar sem margir veruleikar eru til samtímis. Slíkur margradda veruleiki birtist einmitt í verkunum á þessari sýningu. Hadda Fjóla Reykdal skoðar náttúrustemmningar án þess að tengja þær tilteknum stöðum en Sara Oskarsson tekur að sér hlutverk einskonar efnahvata þar sem hún fæst við náttúru og umbreytingar eitraðra efna sem sannarlega eru sífellt að breyta veröld okkar. Skúlptúrmálverk Loga Bjarnasonar eru undirstungin kaldhæðnislegri en um leið bjartri sýn á það umhverfi sem hann lifir, jafnt hið innra sem ytra, og velta upp tilgangi þess að staðsetja hluti eða hugmyndir. Halldór Ragnarsson vinnur hins vegar með þá merkingu sem við leggjum í orð og þýðingu þeirra sem úrræði mannsins til að tjá sig og skilgreina og hvernig texti sem ýmist er hlaðinn gildi eða innihaldssnauður, glatar tilgangi sínum eða býr til annan með myndrænni úrvinnslu svo önnur merking vex fram.
Þau Marta María Jónsdóttir, Magnús Helgason og Áslaug Í. K. Friðjónsdóttir er þau af hópnum þar sem sköpunarfrelsi í ætt við módernisma kemur hvað skýrast fram, inntak verkanna liggur í formgerð þeirra, hvort sem um er að ræða collage-verk Magnúsar sem að vissu leyti vinnur útfrá kaótískum spuna sem þó getur af sér reglu. Form skúlptura, málverka og collage-verka Áslaugar eru gerð úr efnum sem við notum til að húða yfirborð okkar borgaralegu veraldar, svo sem margvíslegum dúkum í bland við lit. Hjá Mörtu Maríu ræður ríkjum frjáls sköpun, hispurslaus og laus við rembing.
Þetta er kynslóð fólks sem laust er við þann einstrengingshátt sem stundum vildi loða við listheiminn þar sem barist var um völd, viðurkenningu og þá kjötkatla sem í boði voru. Þetta er líka kynslóð skjáheimsins sem hefur yfirtekið stóran hluta af sýn okkar á veröldina með ofgnótt óáþreifanlegra upplýsinga sem bæði sefa okkur og fylla af tómi. Í þessari veröld er þörfin fyrir því að skapa útfrá eigin kenndum og hvötum, sérvisku, frelsi og fegurð ekki síður mikilvæg en í árdaga abstraktsins.
Umsagnaraðili - Bjarni Sigurbjörnsson