2 nýjar sýningar opna í Duus Safnahúsum

Þann 20 febrúar næstkomandi opna 2 nýjar sýningar í húsunum á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Reykjanesbæjar. 

Fast þeir sóttu sjóinn

Bátasafn Gríms Karlssonar - Byggðasafn Reykjanesbæjar

Laugardaginn 20. febrúar opnar Byggðasafnið endurgerða sýningu á bátalíkönum Gríms Karlssonar í Bryggjuhúsinu. Bátafloti Gríms Karlssonar var fyrsta sýningin sem opnuð var í Duus Safnahúsum fyrir nærri 20 árum og fær nú endurnýjun lífdaga í rými sem skapar áhugaverða umgjörð um bátalíkönin. Á nýju sýningunni gefur að líta nánast öll módel Gríms í eigu Byggðsafnsins, sem eru alls 136. Jafnframt verða líkönin nýtt til að segja sögu vélbátaútgerðar í Keflavík og Njarðvík, fjallað verður um hafnargerð, skipasmíðar, veiðar og annað er tengist útgerðinni. Þá mun sýningargestum gefast kostur á því að taka í stýrið innan í endurgerðu stýrishúsi og skut í raunstærð á minni gerð vélbáta. Sýningunni er ætlað að gefa gestum innsýn í þennan mikilvæga þátt í atvinnulífi Reykjaness, þar sem allt snerist í aldir og áratugi um fiskveiðar. Þá er upplifun í sjálfu sér að skoða einstakan bátaflota Gríms í nýrri uppsetningu.

BúkTal

Listasafn Reykjanesbæjar

Titill sýningarinnar er BúkTal, eða hinn talandi líkami. Listamenn BúkTals eru Björk Guðnadóttir, Helga Páley Friðþjófsdóttir og Yelena Arakelow. Sýningin er sett upp í samstarfi við Dansverkstæðið, sem er félagsskapur sviðslistafólks.

Listamönnunum var boðin sýning á grundvelli líkinda sem finna má með myndlist þeirra, þrátt fyrir að vera sitt hvor kynslóð listamanna. Mörg verkin verða unnin á staðnum beint inn í rými safnsins. Listamennirnir vinna verk sín með eigin útfærslu og í sinn miðil. Með því að skapa ólík verk en öll á sama sögusviði fær áhorfandinn fjölbreytt sjónarhorn á umfjöllunarefnið, sem að þessu sinni er líkaminn í öllu sínu veldi sem; hinn sögulegi líkami, sem hinn menningarlegi líkami, sem hinn efnislegi líkami, sem hinn andlegi líkami, sem hinn kynferðislegi líkami og sem hinn tilfinningalegi líkami… Verkin eru unnin bæði í tvívídd og þrívídd.